Skipulagsverkefni

Teikning af fólki og hundi úti í náttúrunni.

Á þessari síðu er umfjöllun um nokkur af stærstu skipulagsverkefnum Reykjavíkur. Þau munu hafa mikil áhrif á þróun borgarinnar á næstu árum.

Hverfisskipulag

Hverfisskipulag er deiliskipulag fyrir gróin hverfi sem á að gera þau vistvænni og sjálfbærari og þróa byggðina í takt við breyttar áherslur í samfélaginu. Hverfisskipulagið mun einnig einfalda íbúum að sækja um breytingar á fasteignum sínum eða lóðum.

Teikning af Gasstöðinni við Hlemm

Keldur

Framundan er uppbygging á nýju og vel tengdu íbúahverfi í Reykjavík. Markmiðið er að á Keldum rísi spennandi nútímahverfi sem byggir á vistvænum samgöngum og stuðlar að kolefnishlutlausu borgarsamfélagi.

Uppbyggingin er í samvinnu Reykjavíkurborgar og Betri samgangna. Verkefnið er liður í samgöngusáttmálanum og miðar að því að flýta uppbyggingu framtíðarhverfis á Keldum sem og framkvæmdum við Borgarlínu. Áætlaður ferðatími með Borgarlínu frá Keldum í miðborgina er um 20 mínútur.

Loftmynd af Keldum.
Horft í áttina að Grafarvogi.
Tölvugerð mynd af hugmynd um Krossmýratorg. Torg, grænt svæði, strætó og verslunarhúsnæði.
Krossmýrartorg

Elliðaárvogur, Ártúnshöfði

Nýr borgarhluti í mótun.

Áætlað er að í þessum nýja borgarhluta sem nær yfir Ártúnshöfða og Elliðaárvog rísi allt að 8000 íbúðir. Í þeim skipulagsáföngum sem hér eru til kynningar er gert ráð fyrir 3500 íbúðum, tveimur grunnskólum og einum safnskóla í bland við atvinnustarfsemi á næstu árum. Hryggjarstykki uppbyggingarinnar er meðfram fyrirhugaðri Borgarlínu sem liggur í gegnum mitt skipulagssvæðið.

Yfirlitsmynd af Miklubraut.
Miklubrautarstokkur

Miklabraut

Hér er hægt að skoða tillögur fimm þverfaglegra hópa um hvernig hægt er að útfæra uppbyggingu á og við vegstokk við Miklubraut. Tillögurnar eru afrakstur hugmyndaleitar sem Reykjavíkurborg auglýsti 2020.

Tillögurnar sýna ásýnd og uppbyggingarmöguleika umtalsverðrar nýrrar byggðar íbúða- og atvinnuhúsnæðis ofan á stokknum og í næsta nágrenni hans, og hvernig byggðin ásamt kjarnastöð Borgarlínu tengist nærliggjandi hverfum og umhverfi.

Sæbraut

Hér er hægt að skoða tillögur fimm þverfaglegra hópa um hvernig hægt er að útfæra uppbyggingu á og við vegstokk á Sæbraut við Vogahverfi. Tillögurnar eru afrakstur hugmyndaleitar sem Reykjavíkurborg auglýsti 2020.

Tillögurnar sýna fyrirkomulag og útfærslu uppbyggingar íbúða- og þjónustubyggðar ásamt tengingum vegna stokks yfir Sæbraut við Vogahverfi, milli Miklubrautar/Vesturlandsvegar og norður fyrir Skeiðarvog ásamt legu Borgarlínu, bæði meðfram Sæbraut og yfir Elliðavog frá Sævarhöfða að Suðurlandsbraut. Á svæðinu er gert ráð fyrir kjarnastöð Borgarlínu.

Yfirlitsmynd af Sæbrautarstokki.
Sæbrautarstokkur