Keldur

Framundan er uppbygging á nýju og vel tengdu íbúahverfi í Reykjavík. Markmiðið er að á Keldnalandi rísi spennandi nútímahverfi sem byggir á vistvænum samgöngum og stuðlar að kolefnishlutlausu borgarsamfélagi.

Reykjavíkurborg telur að í landi Keldna felist einstakt tækifæri til að þróa þétt, blandað, fjölbreytt og kolefnishlutlaust hverfi sem verður einstaklega vel tengt innan borgarinnar og á höfuðborgarsvæðinu.  Nýr þróunarás með hágæða almenningssamgöngum tryggir það. Áskorunin felst einnig í að flétta saman lifandi lífsgæðaborg og nálægð við náttúru.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri

Opin alþjóðleg samkeppni

Reykjavíkurborg og Betri samgöngur ohf. efna til opinnar, alþjóðlegrar samkeppni um þróun Keldnalands. Samkeppnin er sett á laggirnar til að leita eftir vönduðum tillögum og þverfaglegu teymi til að koma að þeirri vinnu sem framundan er við gerð þróunaráætlunar svæðisins.

 

Samkeppnin fer fram í tveimur þrepum og er viðhöfð nafnleynd í báðum þrepum. Fyrra þrepi lýkur 19. apríl 2023. Gert er ráð fyrir að allt að fimm teymi verði valin til að þróa tillögur á öðru þrepi.

 

Greidd verður 50.000 evru þóknun fyrir vinnu hvers teymis á öðru þrepi sem lýkur 18. ágúst 2023. Að auki verða veitt verðlaun að upphæð 50.000 evrur fyrir hlutskörpustu tillöguna.

Yfirlitsmynd yfir Keldnaland.

Vel tengt framtíðarhverfi

Keldur og Keldnaholt er byggt upp í samvinnu Reykjavíkurborgar og Betri samgangna. Verkefnið er liður í samgöngusáttmálanum og miðar að því að flýta uppbyggingu framtíðarhverfis á Keldum sem og framkvæmdum við Borgarlínu sem fer um hverfið endilangt.

Stefnt er að því að þjónusta Borgarlínu hefjist samhliða afhendingu á fyrstu 100 íbúðunum. Áætlaður ferðatími með Borgarlínu frá Keldum í miðborgina er um 20 mínútur.

Blönduð byggð

Ein helsta forsenda þess að hægt sé að umbreyta Keldum í blandaða byggð með íbúðum, þjónustu og atvinnuhúsnæði er þjónusta Borgarlínu. Borgarlínan byggir meðal annars á samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sem brýtur uppbyggingu fyrsta áfanga Borgarlínunnar til 2034 niður í sex lotur.

Stefnt verði að því að hægt verði að þróa deiliskipulag fyrir fyrstu uppbyggingarreitina á svæðinu haustið 2023. Svæðið í heild er alls 116 hektarar.

Loftmyndir og skýringarmyndir

Náttúrugæði

Keldur eru fallegt og grænt svæði og verður lögð áhersla á að nýta og taka mið af náttúrugæðum svæðisins. Þarna gefst tækifæri við uppbyggingu til að nýta ræktun sem er fyrir á svæðinu og flétta inn í borgarumhverfið svo úr verði grænir borgargarðar. Hverfið verður byggt upp í suðurhlíðum borgarinnar og liggur því vel við sólu.

Blágrænar ofanvatnslausnir eru sérstaklega mikilvægar á grænum svæðum eins og þessu sem er í nálægð við Korpu, Grafarlæk og Grafarvogsleiru. Ávinningur slíkra lausna er heilbrigðara og grænna umhverfi auk sjálfbærari vatnsbúskapar.

Vistvæn vottun

Stefnt er að því að byggðin verði BREEAM-vottuð en það er alþjóðlegur staðall notaður til að bæta, mæla og meta efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbærni uppbyggingar. Lögð er áhersla á að félagsleg blöndun verði tryggð á svæðinu og að mismunandi íbúðagerðir blandist sem mest saman og höfði til ólíkra samfélags- og og aldurshópa.

Fyrir gangandi og hjólandi

Auk góðra almenningssamgangna verður lögð áhersla á framúrskarandi göngu- og hjólaleiðir. Enn fremur verður áhersla á að skipulag verði á forsendum vistvænna og hagkvæmra samgangna. Útgangspunkturinn er að uppbygging svæðisins hafi sem minnst ytri áhrif til aukningar í bílaumferð á aðliggjandi stofn- og tengibrautum og að almenningssamgöngur verði fyrsti kostur í lengri ferðum.

Samnýtt bílastæðahús á lykilstöðum

Til að draga úr byggingarkostnaði og stytta framkvæmdatíma húsbygginga og draga úr áhrifum á grunnvatn er gert ráð fyrir að byggð verði nokkur bílastæðahús á svæðinu sem nýtast íbúum og atvinnustarfsemi á svæðinu. Bílastæðahúsin, sem hvert og eitt samnýtist fjölda íbúða og atvinnuhúsnæðis á nálægum lóðum, komi að mestu í stað einkabílakjallara og einkabílastæða inni á lóðum.

 

Horfa á til þess að húsin geti hýst miðlæga þjónustu fyrir aðliggjandi svæði til  á jarðhæð og að hægt verði að breyta þeim í atvinnu- eða íbúðarhúsnæði ef bílastæðaþörf minnkar í framtíðinni.

Teikning af samsetningu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis

Nærliggjandi hverfi

Fyrir utan að vera vel tengt hverfi á þróunarás borgarinnar er mikilvægt að tengja Keldur vel við nærliggjandi hverfi. Lögð verður áhersla á að samþætta þetta nýja hverfi við aðliggjandi byggð í Grafarvogi og sömuleiðis á góðar tengingar yfir í Grafarholt og Úlfarsárdal.

Mannvænt og fjölbreytt

Stefna Aðalskipulags Reykjavíkur um borgarvernd, húshæð, götuna sem borgarrými, vistvænar byggingar, kaupmanninn á horninu, bílastæði og húsnæðismál verður leiðarvísir við gerð skipulags á svæðinu sem og áhersla á góð almenningsrými.  Markmiðið borgarinnar er að tryggja hágæða hönnun og vistvænar lausnir í hverfum borgarinnar jafnt nýjum sem eldri hverfum.

Áherslan er á sjálfbærni, mannvænni og fjölbreyttari hverfi. Byggðin á að vera þétt, fjölbreytt , skjólsæl og í manneskjulegum mælikvarða. Almenningsrýmin sólrík, skemmtileg og aðgengileg öllum.

 

Hvar fæ ég frekar upplýsingar?

Gögn:

Viltu vita meira eða ertu með athugasemd? Sendu tölvupóst á skipulag@reykjavik.is