Miklubrautarstokkur

Uppbygging á og við vegstokk á Miklubraut við Snorrabraut.

Hér er hægt að skoða tillögur fimm þverfaglegra hópa um hvernig hægt er að útfæra uppbyggingu á og við vegstokk á Miklubraut við Snorrabraut. Tillögurnar eru afrakstur hugmyndaleitar sem Reykjavíkurborg auglýsti 2020.

Hvaða tillögu lýst þér best á og afhverju?

Tillögurnar sýna ásýnd og uppbyggingarmöguleika umtalsverðar nýrrar byggðar íbúða- og atvinnuhúsnæðis ofan á stokknum og í næsta nágrenni hans, og hvernig byggðin ásamt kjarnastöð Borgarlínu tengist nærliggjandi hverfum og umhverfi.

Reykjavíkurborg hefur heimild til að vinna með tillögurnar áfram, breyta þeim og/eða fela öðrum útfærslu þeirra. Hér er sem sagt kominn nokkurs konar hugmyndabanki að mögulegri útfærslu í næstu umferð við þróun þessa umfangsmikla verkefnis. 

Tölvugerð mynd af Miklubrautarstokki horft yfir úr vestri

01.

Tillaga Arkís, Landslags og Mannvits.

Miklatorg er nýtt og fjölbreytt miðsvæði sem býður upp á verslun, þjónustu og atvinnuhúsnæði í bland við fjölbreyttar íbúðagerðir. Lega Borgarlínu fellur vel að þessari nýju, þéttu borgarbyggð, enda er Borgarlínan ein af lykilstefnum í þróun byggðarmynstursins.

Gert er ráð fyrir 3-5 hæða byggð sem sækir formtungumál og yfirbragð til þeirra rótgrónu hverfa sem umfaðma Miklatorg. Randbyggðarmynstur er því mest áberandi við suður- og vesturhluta svæðisins, næst Hlíðarenda, en stakstæðar byggingar verða algengari eftir því sem nær dregur Hlíðum og Norðurmýri.

Tölvugerð mynd af Miklubrautarstokki tillaga 02.

02.

Tillaga Yrki arkitekta, Dagný Land Design og Hnit verkfræðistofu.

Ný byggð ofan á stokknum tengir saman íbúabyggð í Hlíðum við Norðurmýri og Hlíðarenda, bindur saman hverfin og gerir ráð fyrir nýjum hverfiskjarna – kjarnastöð Borgarlínu. Kjarnastöðin býður upp á þjónustu fyrir íbúa og skapar nýjan segul á svæðið.

Stóru útivistarsvæðin Klambratún og Öskjuhlíð eru tengd saman gegnum Hlíðarenda með minni almenningsgörðum og torgum þar sem stígur leiðir fólk áfram.

Skýringarmynd af samgöngumiðstöð á Miklatorgi. Ein hæð undir yfirborði og stokkur með fjórum akreinum neðst.

03.

Tillaga Teiknistofunnar Traðar, Kanon arkitekta og VSÓ ráðgjafar.

Áherslan er á samþættingu byggðar í Hlíðunum, Norðurmýri, Þingholtum og Hlíðarenda og á vistvænar samgöngur, blandaða byggð í mannlegum mælikvarða og aðgengi að fjölbreyttum almenningsrýmum. Hverfi norðan og sunnan Miklubrautar sameinast nýju hverfi á Hlíðarenda og Landspítalalóð ásamt nýju hverfi ofan á stokk.

Teikning af þorpsbrag við Miklubraut. Róleg umferð og líf milli húsa.

04.

Tillaga T.Ark, Verkís, Studio Wgret West og Integrated Transport Planning+

Við leggjum til að umferðarkerfið verði þriggja hæða. Neðst Miklabraut, þá Bústaðavegur undir yfirborði og á yfirborði verður Borgarlínan. Auk Miklubrautar í stokk verður því Bústaðavegur tengdur Snorrabraut í stokki og að- og afreinar sömuleiðis undir hinu nýja yfirborði. 

Tölvugerð mynd af Miklubraut. Mörg hús, gróður og Hallgrímskirkja.

05.

Tillaga Ask arkitekta, Eflu og Gagarín.

Miklatorg er hjartað í tillögunni, austan Snorrabrautar. Það hallar sér að Landspítala, „Brooklyn“, Klambratúni og Hlíðarenda. Hér er tengipunktur mannlífs í borginni. Margt fólk, úr öllum áttum sem kemur og fer í mismunandi tilgangi.

Spítalinn er einn af aðalleikurunum, Háskólarnir báðir, tenging við flugvöllinn, íþróttastarfsemi á Hlíðarenda og útivistarsvæðin í Öskjuhlíð og Klambratúni. Þetta svæði tengir líka hverfin sem að því liggja.