Hreinsun og umhirða

Að mörgu þarf að huga við hreinsun, umhirðu og viðhald á því landsvæði sem tilheyrir Reykjavíkur. 

Vorhreinsun - Tökum til hendinni

Reykjavíkurborg hvetur borgarbúa til að taka höndum saman við að hreinsa til í borginni eftir veturinn og taka á móti vorinu með bros á vör. Kallað er eftir auknu frumkvæði og ábyrgð borgarbúa og vakin athygli á því að endurvinnslustöðvar Sorpu taka við garðaúrgangi og greinaafklippum íbúum að kostnaðarlausu.

Snjóhreinsun og hálkuvarnir

Þegar snjór fellur eða hálka myndast í Reykjavík er unnið samkvæmt viðbragðsáætlun vetrarþjónustu og snjóvaktin fer á stjá. Aðstæður eru vaktaðar reglubundið og mannskapur kallaður út eftir þörfum.

Grassláttur

Þegar vorið kemur og grundirnar gróa þarf að byrja að huga að grasslætti. Reykjavíkurborg annast grasslátt á svæðum sem tilheyra borginni. Gras á borgarlandi, í almenningsgörðum, við þjóðvegi í þéttbýli og á grunn- og leikskólalóðum Reykjavíkurborgar er slegið.  Ekki er slegið innan lóða hjá fólki og eru íbúar hvattir til að kynna sér lóðamörk.

Bekkir og ruslastampar

Á bekkjum borgarinnar er gott að hvíla lúin bein og njóta umhverfisins. Ruslastamparnir, sem meðal annars eru staðsettir við alla bekki borgarinnar, eru svo liður í því að hjálpast að við það að halda umhverfinu okkar hreinu.

Í miðbæ Reykjavíkur eru stampar tæmdir daglega. Stampar á öðrum stöðum í borginni eru yfirleitt tæmdir vikulega. Lögð er áhersla á að hafa ruslastampana sýnilega og í alfaraleið. Einnig eru ruslastampar staðsettir við alla bekki í borginni.

Reykjavíkurborg sinnir stöðugu viðhaldi á bekkjum - hvort sem það er vegna veðra og vinda eða skemmdarverka.

Hreinsun gatna og gönguleiða

Við komum ekki öll vel undan vetri - það þekkja götur og gönguleiðir. Þess vegna er megináherslan í hreinsun þeirra á vorin og fram á sumar þó þær fái líka örlitla yfirhalningu á haustin til að undirbúa sig fyrir komandi vetur.