Grassláttur

Reykjavíkurborg annast grasslátt í almenningsgörðum, meðfram þjóðvegum og á öðrum svæðum á borgarlandi. 

Hvað er slegið?

Gras á borgarlandi, í almenningsgörðum, við þjóðvegi í þéttbýli og á grunn- og leikskólalóðum Reykjavíkurborgar er slegið.  Ekki er slegið innan lóða hjá fólki og eru íbúar hvattir til að kynna sér lóðamörk.

Hver slær og hve oft?

Verktakar sinna slætti meðfram þjóðvegum í þéttbýli, en boðið er út í samvinnu við Vegagerðina.  Áætlað er að þessi svæði verði slegin fjórum sinnum yfir sumarið.

Starfsfólk garðyrkjudeildar sinnir slætti í almenningsgörðum, svo sem í Laugardal, Hljómskálagarði, Klambratúni, Grundargerði, Austurbergi, Seljatjörn og í Mæðragarði við Rofabæ.  Slegið er allt að vikulega. 

Verktakar og starfsfólk á Þjónustumiðstöð borgarlandsins sinna slætti á öðrum svæðum, svo sem í íbúðahverfum og á grunn- og leikskólalóðum.  Áætlað er að slá þessi svæði þrisvar sinnum yfir sumarið. 

Hve stórt svæði er slegið?

Meðfram þjóðvegum í þéttbýli eru slegnir 113 hektarar og eru hektarar í almenningsgörðum samtals í kringum 46 talsins. Sláttur á öðrum svæðum eins og í íbúðahverfum og á skólalóðum nær yfir 312 hektara.

 

Alls eru því slegnir 471 hektarar af grasi á 10.470 sláttusvæðum í Reykjavík.

Hvar er búið að slá?

Hægt er að fylgjast með framvindu grassláttar í Borgarvefsjá. Þar er hægt að sjá hvaða svæði hafa verið slegin, auk þess sem hægt er að kalla fram síðustu úttekt á verki og fjölda sláttuumferða.