03. tillaga um Miklubrautarstokk

Tillaga Teiknistofunnar Traðar, Kanon arkitekta og VSÓ ráðgjafar.

Áherslan er á samþættingu byggðar í Hlíðunum, Norðurmýri, Þingholtum og Hlíðarenda og á vistvænar samgöngur, blandaða byggð í mannlegum mælikvarða og aðgengi að fjölbreyttum almenningsrýmum. Hverfi norðan og sunnan Miklubrautar sameinast nýju hverfi á Hlíðarenda og Landspítalalóð ásamt nýju hverfi ofan á stokk.

Leiðarljós

Ný byggð á svæðinu verði öflugt bakland fyrir nýja samgönguhætti, meðal annars Borgarlínu, sem er ásamt Miklubrautarstokki aflvaki umfangsmikillar umbreytingar svæðisins í mannvænlega byggð með fjölgun íbúða og aukið atvinnuhúsnæði í næsta nágrenni stórra vinnustaða og skóla.

Hvað finnst þér?

Með tilkomu stokksins er lögð til ný samgöngumiðstöð, Miklatorg/(stóri Hlemmur), ofan- og neðanjarðar. Þar á meðal er kjarnastöð Borgarlínu ásamt margbreytilegri starfsemi, verslun og þjónustu.

Teikning af fólki og hundi úti í náttúrunni.

Umhverfið

Á svæðinu verði margbreytilegt, vandað og vistvænt búsetu- og atvinnuumhverfi með félagslega fjölbreytni, fjölþætta menningarstarfsemi, umhverfisvænan lífstíl, lýðheilsu og lífsgæði að leiðarljósi.

Umhverfissjónarmið verði í hávegum höfð og ný byggð prjónuð við núverandi byggðarmynstur með áherslu á gæði byggðar og falleg almenningsrými í manneskjulegum mælikvarða, þar sem listaverk verði samofinn hluti umhverfis. Skjólgóð, sólrík og gróðursæl svæði eru sett á oddinn.

Umferð gangandi og hjólandi milli staða er einn vistvænasti ferðamátinn og sá skilvirkasti á styttri leiðum. Lögð er áhersla á jákvæða upplifun í tengslum við þær umferðarleiðir og tengingar í næstu hverfi og bæjarhluta verði greiðar og fallegar. Borgarmiðað gatnakerfi með breiðum gangstéttum og hjólareinum stuðli að virku flæði fólks um svæðið og almenningsrýmin veiti aðstöðu til að staldra við.

Aðliggjandi íbúðarhverfi, Hlíðarnar, Norðurmýri, Hlíðarendi og stórir vinnustaðir endurheimti tengingu við Öskjuhlíð og miðbæinn með fjarlægingu hindrana, þar sem stofnbrautarumferð er færð í stokk og byggð ný samgöngumiðstöð.

 

Nýtt íbúða- og atvinnuhverfi

Nýtt hverfi íbúðarbygginga og atvinnuhúsnæðis verður til ofan á stokknum, þar sem nú eru mislæg gatnamót. Í mælikvarða og byggðarmynstri er það framhald Hlíðarenda og mögulegrar endurbyggingar við Skógarhlíð.

Einnig er unnið með aðlögun að byggðarmynstri Landspítalalóðar og sýndir möguleikar á breytingum á byggingarreitum á suðvestursvæði þeirrar lóðar, sem einkum  er gert ráð fyrir að byggist upp í síðari áföngum, við nýjan stokk.

Í nýja hverfinu eru almenningsrýmin/bæjarrýmin á skjólgóðum, sólríkum hornum ásamt stærri fjölbreyttum almenningsrýmum og útivistarsvæðum í nágrenninu, sem virkja mannlíf og eru vettvangur fjölþættrar notkunar íbúa og annarra borgarbúa.

Á reitunum sem myndast með Miklubrautarstokk og flutningi BSÍ í nýja samgöngumiðstöð verður blönduð byggð þriggja til fimm hæða íbúða- og atvinnuhúsnæðis og að hlutföllin verði 75% íbúðir og 25% atvinnuhúsnæði. Miðað er við að fjöldi íbúða verði 1.450 til 1.800.

Útfærsla á stokki

Undir Miklatorgi er stokkurinn að hluta á tveimur hæðum. Neðst liggja fjórar akreinar Miklubrautar-Hringbrautar. Á efri hæð stokksins verður aðkoma að kjallara samgöngumiðstöðvar fyrir almenningssamgöngur af landsbyggðinni, hraðleiðir sem ekki stöðva á biðstöðvum í Hlíðum, flugrútu og langferðabíla.

Gert er ráð fyrir að hægt verði að aka beint úr stokknum inn í bílakjallara á Landspítalalóð við Hringbraut og möguleiki að tengja stokkinn til norðurs upp Snorrabraut.

Snorrabraut og Hringbraut tengjast Bústaðavegi á yfirborði stokksins um nýja tengigötu sem nefna mætti „Bústaðahlíð“. Á henni verða ljósastýrð gatnamót við Bústaðaveg.

Akandi umferð af Snorrabraut í stokk austur Miklubraut kemur inn um aðrein/ramp frá Fálkahlíð. Umferð af Bústaðavegi tengist inn í stokk Miklubrautar í austur um sömu aðrein.

Umferð af Snorrabraut getur valið annað hvort Burknagötu eða stutta framlengingu Bústaðavegar inn á aðrein Hringbrautar í vesturátt. Umferð Bústaðvegar í vestur tengist Hringbraut um sömu aðrein.

 

Meginfyrirkomulag byggðar

Með tilkomu stokksins má endurheimta tengsl og sameina gróna byggð í Hlíðum, Norðurmýri og Þingholtum. Þá verður ný byggð vestan Öskjuhlíðar, við Hlíðarenda og á Landspítalalóð, ásamt fyrirhugaðri byggð í Vatnsmýri samtengd eldri byggð, um stokkinn.

Gatnanet hverfanna tvinnast saman í eina heild. Skipulag svæðisins byggir á einföldu og skýru gatnakerfi fyrir alla samgöngumáta. Umferð er hæg og skilvirk á forsendum gangandi og hjólandi vegfarenda.

Akreinar eru í báðar áttir með samsíða bílastæðum og götutré prýða umhverfið. Hjólandi og gangandi vegfarendur njóta greiðs og öruggs aðgengis um nýja hverfið sem tengist aðliggjandi byggð og útivistarsvæðum með samfelldum leiðum um íbúðagötur og stíga.

Samgöngumiðstöð við Miklatorg

Á krossgötum Snorrabrautar og Miklubrautar er Miklatorg, þar sem er gert ráð fyrir nýrri samgöngumiðstöð fyrir kjarnastöð Borgarlínu, Strætó, flugrútu og áætlunarferðir á landsbyggðina.

Þetta er þriggja fasa miðstöð samgöngukerfis sem um fara auk Borgarlínu og Strætó, langferðabílar, flugrútur, leigubílar, rafskútur og reiðhjól. Almenn gegnumakstursumferð er neðst. Þaðan aka rútur að biðstöð. Þá fara Borgarlína, Strætó, reiðhjól og fleira um borgargötu efst ofan á stokki.

Á efri hæðum samgöngumiðstöðvar er gert ráð fyrir húsnæði undir ýmiss konar starfsemi svo sem verslun, afþreyingu, þjónustu, skrifstofur, hótel, líkamsrækt og jafnvel íbúðir. Iðandi mannlíf þar sem fólk kemur og fer.

Þar sem rútur  eru í kjallara Samgöngumiðstöðvarinnar eru ekki þörf fyrir plássfrek biðsvæði ofanjarðar.

Samgöngumiðstöð á Miklatorgi, ein hæð undir yfirborði og stokkur með fjórum akreinum Miklubrautar/Hringbrautar neðst.

Mögulegir nýbyggingarreitir á Valssvæðinu

Góðar tengingar allra ferðamáta eru við íþróttasvæði Vals sem verður mjög til bóta fyrir íbúa allra hverfa í kring. Hugmyndin sýnir fram á möguleika á tveimur nýbyggingarreitum á núverandi völlum vestan Arnarhlíðar. Hún stendur þó fyrir sínu þótt vellir verði áfram, enda verði góð tenging um Fálkahlíð að Blóðbergsgötu á Landspítalalóð.

Velta má upp þeirri hugmynd að kanna hvort unnt sé að koma fyrir útivelli ofan á fyrirhugað íþróttahús syðst á íþróttavellinum. Gott sambýli íþróttasvæðis Vals og íbúðarbyggðar í nágrenninu hefur verið aðalsmerki í gegnum tíðina.

 

Hafa samband

Verkefnið heyrir undir embætti skipulagsfulltrúa umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur.