05. tillaga um Miklubrautarstokk
Tillaga Ask arkitekta, Eflu og Gagarín.
Miklatorg er hjartað í tillögunni, austan Snorrabrautar. Það hallar sér að Landspítala, „Brooklyn“, Klambratúni og Hlíðarenda. Hér er tengipunktur mannlífs í borginni. Margt fólk, úr öllum áttum sem kemur og fer í mismunandi tilgangi.
Skýringarmyndir
Hvað finnst þér?
Spítalinn er einn af aðalleikurunum, Háskólarnir báðir, tenging við flugvöllinn, íþróttastarfsemi á Hlíðarenda og útivistarsvæðin í Öskjuhlíð og Klambratúni. Þetta svæði tengir líka hverfin sem að því liggja.
Stóra myndin
Mót Miklubrautar, Snorrabrautar og Bústaðavegs eru annasöm og flókin í dag. Gatnamótin eru aðallega á forsendum hins akandi og aðrir ferðamátar eiga erfitt uppdráttar. Þetta breytist með því að meginumferð bíla austur/vestur er sett í stokk og opnast þá svæðið á nýjum forsendum allra ferðamáta. Snorrabraut er á sínum stað og tengist Hlíðarenda með Borgarlínu. Miklabraut er á sínum stað og tengist Snorrabraut, en þar sem meginumferð austur/vestur er ekki að trufla, fáum við mennskari gatnamót. Bústaðavegur er á sínum stað, en tengist Snorrabraut á einfaldan og auðskilinn hátt.
Þessar breytingar smita langt út fyrir þessar megintengingar. Það opnast möguleikar til austurs til að þróa byggð sem hefur verið í eins konar biðstöðu vegna umferðar og umferðarmannvirkja. Enn aðrir möguleikar opnast til vesturs, þar sem við leggjum til að meginbiðstöð almenningsvagna tengist svæðinu og um leið stærsti vinnustaður landsins, Landspítalinn. Ekki má gleyma tengingum til suðurs að Hlíðarenda, Háskólanum í Reykjavík og flugvallarsvæði. Þar opnast gríðarlegir möguleikar til þróunar svæða í góðum tengslum við miðborgina.
Myndband sem sýnir Miklubraut í stokk - Tillaga Ask arkitekta, Eflu og Gagarín.
Þessar breytingar gatnamóta opna gríðarleg tækifæri til mótunar lands og byggðar á þessu svæði. Mótun lands á allt öðrum forsendum en þeim sem við höfum haft hingað til. Tengingar milli Norðurmýrar og Hlíðarenda, Öskjuhlíðar og Landspítala eru nánast bílfrí, gróðursæl svæði.
Tillögum okkar skiptum við í fjögur meginsvæði
- Miklatorg
- Borgarlínustöð
- Svæði milli Skógarhlíðar og Bústaðavegar; svæði sem við höfum í hæversku okkar kallað „Brooklyn“ norðursins
- Byggð á norðurhluta Hlíðarenda og við Bústaðaveg
Útfærsla á stokki – umferð
Meginumferð bíla austur/vestur Miklubraut/Hringbraut er sett í stokk. Umferð að vestan um Hringbraut, á leið austur í sveitir, gleypa stokkarnir. Sama gildir um umferð að austan sem ekki á erindi á Miklatorg. Í tillögunni er Bústaðavegur eins konar búlevarður frá Flugvallarvegi að Snorrabraut. Framtíðarsýnin er, að austan Arnarhlíðar sé hann gróðursæll búlivarður, með einstefnu hjóla- og göngustíga báðum megin og samsíða bílastæðum. Bústaðavegur tengist Hringbraut með ljósastýrðum gatnamótum við Snorrabraut.
Kennileiti
Sunnan Snorratorgs, sem liggur við Snorrabraut ofan á stokki, eru tvær byggingar: Hús miðlunar, nýsköpunar og hönnunar og við hlið þess meginkennileiti svæðisins; Gróðurhöllin, lóðrænn landbúnaður sem rís á mörgum hæðum (e. vertical farming).
Hér er framúrstefnuleg ræktun, þar sem hægt er að hafa stjórn á birtu, loftraka, hita, kælingu og lofttegundum sem gerir framleiðslu matvæla og lyfja innanhúss mögulega.
Byggingin rúmar fjölbreytta starfsemi, með ræktun sem meginatriði og verður kennileiti fyrir svæðið og framtíð okkar í loftslagsmálum.
Borgarlína
Á Burknagötu, vestan Snorrabrautar og á Snorrabraut eru meginstoppistöðvar almenningsvagna. Með tvískiptingu þeirra er hægt að minnka umfang og dreifa álagi. Á þessum hluta Snorrabrautar eru allir ferðamátar jafn réttháir (e. shared space). Á horni Burknagötu og Snorrabrautar eru tvær byggingar sem rúma fjölbreytta þjónustu, hið nýja BSÍ eða samgöngumiðstöð. Byggingarnar tengjast með yfirbyggðri göngugötu.
Þar eru verslanir og veitingahús og tækifæri til að grípa síðasta kaffibollann áður en lagt er í´ann. Hér er einnig kaupmaðurinn á horninu með brýnustu nauðsynjar og blómabúðin sem selur okkur blómvöndinn þegar við erum á leið í heimsókn til ömmu á spítalann.
Brooklyn norðursins
Með nýrri hugsun opnast þróunarmöguleikar á svæðinu milli Bústaðavegar og Skógarhlíðar. Í dag er svæðið nýtt á takmarkaðan máta, með stakstæðum húsum og gríðarlegum bílastæðum. Við sjáum fyrir okkur uppbyggingu sem þéttir byggðina og skapar umhverfi nýrra bygginga í samspili með þeim eldri.
Vistgötur og bílastæðahús
Tengibrautir almennrar umferðar eru með samsíða bílastæðum og sameiginlegum göngu- og hjólastígum. Á milli bygginga innan hverfis eru stígar sem þjóna neyðarbílum, sorphirðu og aðföngum íbúa. Þessir stígar eru einstefnur og merktir sem vistgötur.
Göngu- og hjólastígar
Til að tengja betur núverandi byggð og íþróttasvæði Vals við uppbyggingu á Miklatorgi er gert ráð fyrir gönguleið um Miklatorg og Brooklyn (svæðið milli Bústaðavegar og Skógarhlíðar) og björtum undirgöngum undir Bústaðaveg við Arnarhlíð.
Göngustígar eru meðfram öllum meginumferðarleiðum, beggja vegna gatna. Göngusvæði eru milli garða og torga um allt svæðið svo gangandi vegfarendur eru í forgangi í samræmi við áherslur í skipulagsmálum Reykjavíkur síðustu árin.
Hafa samband
Netfang: skipulag@reykjavik.is
Verkefnið heyrir undir embætti skipulagsfulltrúa umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.