Jafnréttisskólinn

Hlutverk Jafnréttisskólans er að skapa vettvang og veita fræðslu, ráðgjöf og stuðning varðandi jafnréttismenntun, mannréttindi og kynheilbrigði til starfsfólks í skóla- og frístundastarfi borgarinnar, auk barna og foreldra eftir atvikum. 

Jafnréttisskólinn hlaut hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna 2023 fyrir ómetanlegt starf við að miðla þekkingu og ráðgjöf til stjórnenda og starfsfólks SFS varðandi jafnréttis- og kynheilbrigðismál.

Vika6

Vika6 er sjötta vika ársins. Hún hefur fest sig í sessi sem árleg vika kynheilbrigðis í öllum grunnskólum og frístundamiðstöðvum. í Viku6 ættu öll börn og unglingar í borginni að fá kynfræðslu í einhverju formi. Hér má finna kynfræðslu fyrir öll stig grunnskóla. 

Ungmenni situr við sjó í bol með skilaboum um jafnrétti

Verndum öll börn!

Upptökur frá erindum á rafrænni málstofu um mikilvægi kynfræðslu og hinseginfræðslu. Málstofan Verndum öll börn! var haldin 20. nóvember 2023.

Auglýsing fyrir málstofuna "Verndum öll börn!" 20. nóvember 2023.

Spurt og svarað um kynfræðslu og hinseginfræðslu

Af hverju er hinseginfræðsla mikilvæg?

Hinsegin fræðsla er mikilvæg því hún fjallar um fjölbreytileikann, virðingu og mikilvægi þess að vinna gegn fordómum. Í öllum leik- og grunnskólum og frístundastarfi eru börn sem á einhvern hátt tengjast hinsegin samfélaginu. Rannsóknir hafa sýnt að hinsegin börnum líður verr í skólakerfinu en öðrum börnum og er það veruleiki sem mikilvægt er að takast á við og reyna að leiðrétta. Hinsegin fræðsla gefur öllum börnum tækifæri á því að skilja fjölbreytileikann, að skilja að allt fólk hefur rétt á því að vera eins og það er og mikilvægi þess að hafna og vinna gegn fordómum. Í hinseginvænu skóla- og frístundastarfi geta börn sem tengjast hinsegin samfélaginu fengið tækifæri til að spegla veruleika sinn og upplifað sama öryggi og viðurkenningu og önnur börn. Með hinsegin fræðslu fá öll börn og unglingar mikilvægar upplýsingar um hinseginleikann og útskýringar á hugtökum sem þau annars myndu mögulega ekki skilja. Vanþekking ýtir undir fordóma og hræðslu en með réttum upplýsingum má stuðla að dýpri skilningi, virðingu og öryggi allra í skólaumhverfinu.

Hinsegin fræðsla er ekki kynfræðsla. Hinseginfræðsla er eins og önnur fræðsla ávallt unnin í samræmi við aldur og þroska hvers barnahóps.

Af hverju er kynfræðsla mikilvæg?

Kynfræðsla snýst um að efla kynheilbrigði barna og ungmenna þar sem rýnt er í félagslega, tilfinningalega, líkamlega og andlega þætti. Kynfræðsla er mikilvæg forvörn gegn áreitni, kynbundnu ofbeldi og kynferðisofbeldi þar sem nemendur læra muninn á heilbrigðum og óheilbrigðum samskiptum, að setja og virða mörk og að bera virðingu fyrir sér og öðrum. Rannsóknir hafa sýnt að markviss kynfræðsla minnkar líkur á kynsjúkdómasmitum, óráðgerðum þungunum og hún seinkar fyrstu kynlífsreynslu ungs fólks. 

Er verið að brjóta 34. gr Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna?

34.gr. Barnasáttmálans væri brotin ef kynfræðsla væri EKKI kennd í grunnskólum. Bókin Kyn, kynlíf og allt hitt var meðal annars gefin út í tengslum við þingsályktun um forvarnir fyrir börn og ungmenni gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni nr.37/150 (2020). Í bókinni er fjallað um kynferðislega misnotkun í forvarnarskyni og á þann hátt að börnum er kennt að setja og virða mörk og að segja frá ef einhver brýtur á þeim. Í öllum grunnskólum á Íslandi á að vera starfandi forvarnarteymi sem hefur það hlutverk að tryggja að börn í öllum árgöngum skólans fái fræðslu um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi á hverju ári. Það er liður í því að vernda börn fyrir hvers kyns kynferðislegri notkun eða misnotkun í kynferðislegum tilgangi.

Hverjir sjá um kynfræðslu og hinseginfræðslu?

Kennarar, stjórnendur og aðrir fagaðilar sem koma að hinseginfræðslu eða kynfræðslu hafa ávallt í huga að gæta að hagsmunum, heilbrigði og farsæld nemenda. Einstaklingar sem koma inn í skólana með hinseginfræðslu hafa allir fengið sömu þjálfun, fara eftir sömu námskrá og ávallt er farið í gegnum sama fræðslupakkann. Námskráin og hvernig fræðslan fer fram er aðgengileg öllum á heimasíðu Samtakanna ´78.

 

Þegar einstaklingar koma í skólana með kynfræðslu þá er það nánast undantekningarlaust aðeins í boði fyrir eldri bekki á miðstigi eða unglingastig, ekki yngri nemendur. Í þeim tilvikum er ávallt um fagfólk að ræða og foreldrar fá vitneskju um slíkar heimsóknir.

Þegar aðrir en þeir sem starfa við skólann koma með kynfræðslu eða hinseginfræðslu eru kennarar ávallt viðstaddir. Kennarar eru fagfólk í uppeldi og menntun barna og hafa hagsmuni þeirra ávallt að leiðarljósi svo ekki hefur komið til umræðu að óska eftir öðrum fagstéttum inn í kennslustundir.

 

Af hverju mega samtökin '78 vera með fræðslu í grunnskólum?

Aðalnámskrá, lög um jafnan stöðu og jafnan rétt kynjanna og mannréttindastefna Reykjavíkurborgar skylda skóla til þess að taka mið af og kenna um hinsegin fólk og málefni.

Samtökin ´78 og Reykjavíkurborg hafa gert með sér samstarfssamning sem felur í meðal annars í sér að bæði starfsfólk og nemendur geti óskað eftir hinseginfræðslu sér að kostnaðarlausu. Hjá samtökunum hefur verið útbúin góð fræðsluáætlun byggð á reynslu, þekkingu og rannsóknum og hefur kennurum þótt gott að leita eftir sérþekkingu þeirra á hinsegin málefnum.

Er verið að fræða börn um BDSM?

Það er ekki verið að fræða börn um BDSM eða kynlífsblæti. Veggspjald á vegum Samtakanna ´78 og Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar sem kom út árið 2019 var hluti af hinseginfræðslu fyrir unglinga. Það ár fór Hatari út í Júróvisjón fyrir hönd Íslands og mikil umræða skapaðist í kjölfarið um BDSM. Unglingar spurðu reglulega hvað BDSM væri og var talið að þessi setning (sjá neðst í textanum) væri næg útskýring gæti komið í veg fyrir að þeir færu ekki að leita svara á netinu. Ungt fólk spyr spurninga og með því að svara á opinskáan en aldursamsvarandi hátt er hægt að koma í veg fyrir verri og gjarnan afbakaðri svör sem leynast á netinu. BDSM kemur ekki fyrir í fyrirlestrum eða öðru námsefni í hinseginfræðum. Fræðarar á vegum Samtakanna ´78 ræða ekki BDSM við börn eða unglinga, en ef þau eru spurð þá svara þau með sömu setningu og er á veggspjaldinu.

Setningin á veggspjaldinu er eftirfarandi: BDSM-hneigð: að laðast að fólki sem deilir löngunum um samþykk og meðvituð valdaskipti.

Er verið að klámvæða börn í grunnskólum?

Það er ekki verið að klámvæða börn í grunnskólum heldur er verið að bregðast við þeirri klámvæðingu sem á sér stað í samfélaginu. Klámefni og aðgengi að því hefur breyst mikið á undanförnum árum. Í rannsókn Fjölmiðlanefndar frá árinu 2022 kemur fram að nær öll börn (95-100%) á aldrinum níu til átján ára eiga farsíma og meirihluti barna á miðstigi grunnskóla eru á samfélagsmiðlum sem bannaðir eru börnum innan þrettán ára. Það er því óhjákvæmilegt að börn verði fyrir töluverðu klámvæddu áreiti í gegnum snjalltækin sín. Í íslenskum æskulýðsrannsóknum (2023) kemur fram að 35% stúlkna í 8.bekk og 56% stúlkna í 10.bekk í Reykjavík hafa einhvern tíma um ævina fengið óumbeðin klámfengin skilaboð.

Það er því mikilvægt að bregðast við þessari þróun og þjálfa börn í þekkja mun á kynlífi og klámi með góðri og vandaðri kynfræðslu.

Af hverju er ekki fengið leyfi/samþykki foreldra fyrir kynfræðslu?

Er það ekki í verkahring foreldra að ræða við og fræða börn um þessi mál?

 

Kynfræðsla er ekki valkvæð í grunnskólum. Íslensk stjórnvöld eru lögum samkvæmt skuldbundin til að tryggja fræðslu um kynheilbrigði, mannréttindi og kynjajafnrétti í skólakerfinu, það er því ekki aðeins í höndum foreldra heldur einnig skólakerfisins. Mikilvægt er að tryggja markvissa og gagnreynda kynfræðslu svo að börn og ungmenni leiti síður í klámefni til að fá upplýsingar um kynlíf. Mjög gott er ef foreldrar ræða kynheilbrigði við börnin sín en skólakerfið gerir það einnig. Kennarar eru hvattir til að upplýsa foreldra um það námsefni sem unnið er með í skólanum og er það gjarnan gert í foreldrabréfum eða á skólakynningum. Gott samstarf á milli heimili og skóla er ávallt farsælast.

Hlekkur á foreldrafræðslu sem haldin var í tengslum við Viku6.

Eiga foreldrar rétt á að taka barn úr skóla þegar hinseginfræðsla eða kynfræðsla fer fram?

Ef foreldrar taka barn úr skóla á meðan hinsegin fræðsla og/eða kynfræðsla fer fram þá eiga börn þeirra í hættu á að missa af mikilvægum upplýsingum sem þau eiga rétt á að fá. Oft senda skólar út tilkynningu til foreldra þegar von er á utanaðkomandi aðilum með fræðslu en einnig eiga foreldrar rétt á að senda fyrirspurn á skólann til að athuga hvort það sé á döfinni. Mikilvægt er að benda á að það er skólaskylda á Íslandi og nemendur eiga rétt á allri þeirri fræðslu sem á sér stað innan skólanna.

Í ársskýrslu Barnaverndar frá árinu 2022 kemur fram að tilkynningum um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum hefur fjölgað síðustu ár. Staðalímynd ofbeldismanna í kynferðisbrotamálum hefur verið að mesta hættan stafi af ókunnugum. Á vefsíðu Barnaheilla má þó sjá að veruleikinn er að á bilinu 60%-70% þeirra sem beita börn kynferðislegu ofbeldi eru tengdir þeim fjölskylduböndum eða eru vinir og kunningjar þeirra. Með þessar tölur í huga hafa skólar sent tilkynningu til foreldra eftir að fræðsla um kynferðisofbeldi fer fram því mikilvægt er að engu barni sé haldið frá skóla þegar slík fræðsla fer fram.

Hvetja veggspjöld Viku6 7-10 ára börn til að prófa allskonar kossa?

Það er EKKI verið að hvetja 7 -10 ára börn til að prófa allskonar kossa. Veggspjöldin eru hönnuð fyrir unglinga, ekki börn. Ef börn sjá þau er mikilvægt að útskýra að þetta sé ætlað unglingum og færa veggspjaldið á svæði unglinga.

Fleiri spurningum um veggspjöld Viku6 hefur verið svarað.

Eru kennslugögnin í kynfræðslu við hæfi ungra barna?

Kynfræðsla er ekki skilgreint fag í stundaskrá nemenda á yngsta stigi. Ákveðnir efnisþættir kynfræðslu blandast þó inn í aðrar námsgreinar. Í kynfræðslu líkt og í öðrum námsgreinum er lagður ákveðinn grunnur á yngsta stigi og sífellt byggt ofan á fyrri þekkingu í gegnum alla grunnskólagönguna. Í dag styðjast kennarar við ýmis konar kennslugögn og fjölbreyttar kennsluaðferðir. Kennarar leitast við að veita nemendum margvíslegar leiðir til að uppfylla hæfniviðmið aðalnámskrár. Þar má til dæmis nefna hluta af ákveðnum bókum, geta verið blaðsíður eða ákveðnir kaflar, gagnvirkt námsefni af neti, myndbönd, upplestur, sköpun, leikir og fjölmargt annað.

Samkvæmt hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla á yngsta stigi er helsta áhersla lögð á að nemendur geri sér grein fyrir eigin líkamsvitund og einkastöðum líkamans ásamt því að geta útskýrt líkamlegan mun á milli einstaklinga. Nemendur læra að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, lýsa tilfinningum, setja sig í spor annarra og ræða um réttindi sín og skyldur.

Helstu efnisþættir sem teknir eru fyrir á yngsta stigi:

  • Fjölskyldur eru fjölbreyttar/mismunandi og fjölskyldumeðlimir hafa mismunandi þarfir og hlutverk.
  • Vinátta, ást og sambönd eru margskonar og sambönd fela í sér alls kyns tegundir af ást. Það eru til heilbrigð og óheilbrigð sambönd og vinátta á að byggjast á trausti, virðingu, samkennd og samstöðu.
  • Mismunandi birtingarmyndir samskipta, heilbrigð og óheilbrigð samskipti og rétt til einkalífs.
  • Munurinn á milli líffræðilegs kyns og kynvitundar.
  • Hver og einn einstaklingur er einstakur og á rétt á virðingu óháð kyni, kynvitund eða kynhneigð.
  • Mikilvæg gildi sem tengjast jafnrétti, virðingu og umburðarlyndi.
  • Hvað er kynbundið ofbeldi og hvert er hægt að leita eftir aðstoð. Öll eiga rétt á að njóta verndar og stuðnings.
  • Mörk og samþykki. Öll eiga rétt á því að ákveða hver megi snerta líkama þeirra, hvar og með hvaða hætti.
  • Örugg notkun upplýsinga og samfélagsmiðla (börn á þessum aldri eiga ekki að vera á samfélagsmiðlum).
  • Venjur og áhrif jafningja á hegðun, þ.e. hvað er hópþrýstingur og hvernig eru góð og slæm jafningjaáhrif.
  • Mannslíkaminn og þroski.
    • Hugtök og heiti kyn- og æxlunarfæra.
    • Æxlun (sameining eggs og sæðis og frjóvgað eggið tekur sér bólfestu í leginu).
    • Kynþroskinn og hvaða breytingar eiga sér stað, bæði líkamlegar, félagslegar og tilfinningalegar.
    • Líkamsímynd og mikilvægi þess að nemendur læri að allir líkamar eru einstakir og að það sé mikilvægt að vera ánægð/ur/t í eigin líkama.
  • Kynferði og kynferðisleg hegðun.
    •  Sumum börnum þykir gott að snerta kynfæri sín og telst það til eðlilegrar kynhegðunar barna. Ef slíkt kemur upp í leik- eða grunnskóla er hegðunin viðurkennd en börnin hvött til að gera slíkt ekki í skólunum. Því fer fjarri að hvatt sé til sjálfsfróunar eða hún kennd á þessum skólastigum.

Er verið að segja að það sé í lagi að stunda kynlíf með fjölskyldumeðlimum í bókinni Kyn, kynlíf og allt hitt?

Algengt er að börn á þessum aldri hafi heyrt orðið kynlíf, það þarf ekki nema einn nemanda sem hefur heyrt orðið í umhverfi sínu til að það berist í allan nemendahópinn og skapi miklar umræður og vangaveltur á meðal barnanna. Þetta hafa flestir kennarar einhvern tímann þurft að eiga við. Því telst það gott verkfæri fyrir kennara að hafa bók til að styðjast við til að útskýra flókið hugtak. Börn þekkja orðið leikur og þau vita að það getur þýtt margt s.s. innileikir, útileikir, feluleikir, tölvuleikir og svo framvegis. Í bókinni er útskýrt fyrir börnum að kynlíf sé hugtak sem hefur margar merkingar, rétt eins og orðið leikur. Algengur misskilningur er að orðið kynlíf tákni ávallt samfarir. Það er alls ekki verið að segja börnum að kynlíf sé leikur fyrir börn. Það er eingöngu verið að segja að sum orð hafa aðeins eina merkingu en önnur orð geta táknað margt. Vel hefði verið hægt að velja annað orð en leikur, en það er þó það orð sem flest börn þekkja vel og tengja við. Kennarar eru uppeldisfræðilega menntað fólk sem við treystum til að útskýra vel og vandlega fyrir börnum flókin hugtök.

Af hverju er talað um í bókinni Kyn, kynlíf og allt hitt að gott sé að koma við rassinn en mikilvægt að þvo hendur eftir á?

Í bæklingi frá Barnahúsi um kynferðislega hegðun barna kemur fram að athöfnin að „Setja eitthvað á/í eigin kynfæri/ endaþarm til að finna fyrir tilfinningu í líkama, fyrir forvitnissakir eða vegna sjálfskönnunar“ teljist til eðlilegrar hegðunar barna á aldrinum 6-9 ára. Það þýðir að slík tilvik koma reglulega upp í skólum og þurfa kennarar að geta brugðist við og átt samtal um hegðunina við börnin. Það er ekki verið að kenna börnum slíkt eða hvetja til þess en mikilvægt er að tala við börn um þessar athafnir sem eðlilegan hlut, en á sama tíma er þeim gert ljóst að slík hegðun á ekki heima í skólanum. Mikilvægt er að börnin upplifi ekki skömm og getur bókin því verið gott verkfæri fyrir kennara til að taka samtalið við nemendur ef til þess kemur. Þá er einnig mikilvægt að brýna almennt hreinlæti fyrir börnum og gott að minna börn á að þvo hendur. 

Bæklingur frá Barnahúsi.

Gerið þið ykkur grein fyrir að kennslubókin „Kyn, kynlíf og allt hitt“ gæti hugsanlega stangast á við íslensk lög?

Spyrjandi vísar í þessi lög:

Samkvæmt 210. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er það m.a. lýst refsivert að framleiða eða flytja inn, aflar sér eða öðrum, dreifa eða hafa í vörslum sínum myndefni sem sýnir kynferðislega misnotkun á barni eða sýnir barn á kynferðislegan hátt og geta viðurlög orðið fangelsi allt að 6 árum. Í 209. gr. tilvitnaðra laga er svo tekið fram að hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis skal sæta fangelsi allt að 4 árum.

Í bókinni Kyn, kynlíf og allt hitt er rætt um kynferðislega misnotkun í forvarnarskyni á þann hátt að börnum er kennt að setja og virða mörk og að segja frá ef einhver brýtur á þeim. Hvergi má finna teikningar í bókinni sem sýna barn á kynferðislegan hátt. Það að sýna teiknaða rassa eða kynfæri er hluti af náttúrufræði og telst ekki kynferðislegt.

Hvernig hefur gagnrýni á bókina Kyn, kynlíf og allt hitt og veggspjöldin eitthvað með réttindabaráttu hinsegin fólks að gera?

Gagnrýni á bókina Kyn, kynlíf og allt hitt annars vegar og gagnrýni á veggspjöldin hins vegar hefur í umræðunni verið fléttað saman við hinsegin fræðslu frá Samtökunum ‘78 með þeim afleiðingum að andúð í garð hinsegin fólks hefur aukist. Hinsegin fólk hefur orðið fyrir aðkasti bæði á internetinu og úti á götu og hefur það aukist í kjölfar umræðunnar síðustu daga. Einnig hefur hluti gagnrýninnar á bókina snúist um orðalag hvað varðar kynvitund, en bókin er inngildandi og gerir ráð fyrir því að trans fólk sé til. Það sama á við um veggspjöldin, en þar eru samkynja pör m.a. sýnd og það hefur einnig verið gagnrýnt af hluta þeirra sem hafa tjáð skoðanir sínar á þeim.

Það er því ekki alveg jafn klippt og skorið og gefið er í skyn hér í spurningunni að umræðan og gagnrýnin hafi ekkert með réttindabaráttu hinsegin fólks að gera. Hins vegar vitum við að hluti gagnrýninnar á kynfræðsluefni kemur frá fólki sem sannarlega stendur með hinsegin fólki og þeirra réttindabaráttu.

Þegar þið talið um að „námsefni sé tekið úr samhengi“ og að því sé „stillt upp á vafasaman hátt“

  • a. Hvaða námsefni eigið þið við nákvæmlega?
  • b. Hvernig er það „tekið úr samhengi“?
  • c. Hvernig var þessu námsefni „stillt upp á vafasaman hátt“?

Kynheilbrigðisátaki Viku6 á vegum Jafnréttisskóla Reykjavíkur, þar með talin fræðsluveggspjöld, og útgáfu kynfræðslubókarinnar Kyn, kynlíf og allt hitt hjá Menntamálastofnun, auk fræðsluveggspjalds um hinseginleikann sem útbúið var af Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar og Samtökunum ´78 hefur öllu verið blandað saman í umræðunni og sett fram á þann hátt að efnið sé búið til og ýtt að yngstu nemendum grunnskólans sem ekki er rétt. Börn læra ekki um BDSM, þau eru ekki hvött til að fara í læknisleiki, til að stunda sjálfsfróun eða að pota fingrum í rassinn á sér, en slíkt eru allt dæmi um fullyrðingar á samfélagsmiðlum.

Veggspjöldin eru búin til fyrir unglinga, ekki börn og koma þau samhliða annarri fræðslu. Vika6 er unnin af sérfræðingum í samvinnu við unglinga og hafa þeir mikið vægi í því hvar áhersluatriðin liggja hverju sinni. Ávallt er unnið út frá hagsmunum og velferð nemenda og fræðslunni er sinnt af kennurum og öðrum fagaðilum. Eina tenging Viku6 við klám er að kenna börnum muninn á kynlífi og klámi og veita þeim mótvægi við þeim skökku og skaðlegu skilaboðum sem klám veitir þeim um kynheilbrigði, sambönd og samskipti.

BDSM er hvorki kennt í fyrirlestrum, fræðslum eða bókum í grunnskólum, þó því sé ítrekað haldið fram á samfélagsmiðlum. Um eina setningu er að ræða á veggspjaldi um hinseginleikann. BDSM á Íslandi er undir hinsegin regnhlífinni en um inngöngu þeirra var kosið á lýðræðisfundi innan samtakanna og þar skilgreinir félagið BDSM sem kynhneigð. Það er því ekki skólanna að draga það í efa eða ákveða hvort um hneigð eða blæti er að ræða. Unglingar spyrja reglulega hvað BDSM er og leita eftir upplýsingum um það á netinu. Slíkar spurningar náðu hámarki eftir þátttöku Hatara í Eurovision árið 2019. Til að koma til móts við spurningar unglinganna var talið að þessi setning á veggspjaldinu væri nóg útskýring og minnkaði líkur á að svara yrði leitað á netinu.. Ungt fólk spyr spurninga og með því að svara á opinskáan en aldursamsvarandi hátt er hægt að koma í veg fyrir verri og gjarnan afbakaðri svör sem leynast á netinu. Þess ber að geta að veggspjaldið hefur hangið á veggjum víða síðastliðin fjögur ár og ekki ein einasta kvörtun hefur borist vegna þess fyrr en nú.

Bókin Kyn, kynlíf og allt hitt er rétt að koma út þessa dagana. Hún var þýdd í kjölfar aðgerðaráætlunar sem fylgdi þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni nr.37/150 (2020). Bókin er ekki kennd í heild, sumir kaflar hennar henta 7 ára börnum og aðrir ekki fyrr en um 10 ára aldur. Kennarar velja þær blaðsíður sem unnið er með hverju sinni, en bókin er gott verkfæri fyrir kennara til að styðjast við í vandmeðfarinni umræðu. Kennurum er í sjálfsvald sett að sleppa ákveðnum blaðsíðum ef þeir telja þær ekki eiga við fyrir sinn nemendahóp. Eins geta kennarar gripið í ákveðnar blaðsíður ef upp koma aðstæður sem þess krefjast. (Sjá í svari við spurningu 3.)

Því hefur einnig verið haldið fram að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) standi á bak við útgáfu kynfræðsluefnis sem verið er að bjóða upp á í íslenskum grunnskólum og að tilgangur kynfræðslu sé að undirbúa börn fyrir barnaníð. Þetta eru alvarlegar ásakanir og rangar með öllu. Því er hægt að segja að námsefninu sé stillt upp á vafasaman hátt með því að dreifa röngum upplýsingum á samfélagsmiðlum og í bréfum til opinberra stofnanna.

Nýlega bættust í umræðuna orð og teikningar úr bókinni Fávitar og því haldið fram að um námsefni ungra barna væri að ræða. Sú bók var ekki gefin út sem námsbók heldur sem samfélagsverkefni og hún hefur aldrei verið kennd ungum börnum í grunnskólum. Einn skóli

á Akureyri hefur boðið upp á valfag fyrir unglinga þar sem rýnt er í bókina Fávitar, en þess ber að geta að bókin er byggð upp á raunverulegum spurningum hundruða íslenskra unglinga og hefur hún verið afar vinsæl á meðal ungs fólks.

Finnst ykkur eðlilegt að hvetja börn, á aldrinum 7-10 ára, til sjálfsfróunar sbr. bls. 107 í bókinni Kyn, kynlíf og allt hitt?

Í bæklingi frá Barnahúsi um kynferðislega hegðun barna kemur fram að athöfnin að „Setja eitthvað á/í eigin kynfæri/ endaþarm til að finna fyrir tilfinningu í líkama, fyrir forvitnissakir eða vegna sjálfskönnunar“ og „Snertir/nuddar eigin kynfæri við eftirfarandi athafnir: þegar farið er í háttinn eða þegar barn er stressað, spennt eða hrætt“ teljist til eðlilegrar hegðunar barna á aldrinum 6-9 ára. Slík tilvik koma reglulega upp í skólum og þurfa kennarar að geta brugðist við og átt samtal um hegðunina við börnin. Það er ekki verið að kenna börnum sjálfsfróun og umræðan er ekki tekin á þann hátt að börn líti á hana sem hvatningu. Mikilvægt er að tala við börn um þessar athafnir sem eðlilega hegðun, en á sama tíma er þeim gert ljóst að slík hegðun á ekki heima í skólanum. Mikilvægt er að börnin upplifi ekki skömm og getur bókin því verið gott verkfæri fyrir kennara til að taka samtalið við nemendur ef til þess kemur. Þá er einnig mikilvægt að brýna almennt hreinlæti fyrir börnum og gott að minna börn á að þvo hendur.

Af hverju er verið að hvetja ung börn til að taka nektarmyndir af sér á veggspjaldi Viku6?

Það er EKKI verið að hvetja börn til taka nektarmyndir af sér! Veggspjaldið er gert fyrir unglingastig og skilaboðin á því voru valin sérstaklega til að koma ákveðnum skilaboðum á framfæri. Stafrænt kynferðisofbeldi hefur aukist gríðarlega undanfarin ár. Þúsundir mynda af íslenskum unglingum má finna á klámsíðum á netinu eftir að brotið hefur verið á þeim á stafrænan hátt og myndum dreift í óþökk eiganda myndarinnar. Í samtölum við unglinga kom í ljós að mikill fjöldi þolenda þorði ekki að segja frá því að mynd af þeim væri í dreifingu eða væri komin inn á slíka síðu. Ástæðan var sú að þeir óttuðust að sökin væri þeirra fyrir að hafa tekið af sér mynd. Þolendur óttuðust að verða skammaðir, jafnvel ákærðir og að þeir myndu missa æruna fyrir að hafa tekið af sér mynd. Rétt er að geta þess að í unglingamenningu er mikil pressa sérstaklega á ungar stúlkur að senda af sér kynferðislega mynd og upplifa þær sig gjarnan í klemmu. Samkvæmt lögum um kynferðislega friðhelgi er ekki ólöglegt að taka af sér mynd. Hér er unglingum því bent á að þeir EIGA sinn líkama og MEGA taka af honum myndir en þurfa þess ALLS EKKI. Það veitir þeim öryggi til að segja frá ef á þeim er brotið ef þau vita að sökin er ekki þeirra. Neðar á veggspjaldinu er skilgreint hvað er brot á lögum, hvað er áreitni og ofbeldi, hvað ber að varast (t.d. fólk sem villir á sér heimildir) og hvar er hægt að leita aðstoðar. Þetta veggspjald var gagngert búið til í þeim tilgangi að kenna unglingum hvað má og hvað má ekki skv. lögum þegar kemur að myndsendingum og hvar aðstoð er að fá ef brotið er á þeim. Þetta veggspjald ýtir undir það að börn komi auga á stafrænt ofbeldi og viti að þau geta örugg sagt frá og fengið aðstoð.

Ertu normal?

Hér er boðið upp á spennandi verkefni þar sem unglingar fá tækifæri til að velta fyrir sér þröngum ramma samfélagsins um hvað er að vera normal. Verkefnið felur í sér fræðslu í myndbandaformi og endar með ljósmyndasýningu á verkum þátttakenda.

Drengur að mála sig um augun með maskara

En ég var einn!

Fyrirlestraröðin En ég var einn! Sjálfsmynd stráka og kerfið er haldin í samstarfi Jafnréttisskóla Reykjavíkur, Geðhjálpar og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Hér má finna myndbönd frá ráðstefnunni. 

Gul mynd með svartri skuggamynd af ungmenni. Inni í skuggamynd er völundarhús. Texti sem segir En ég var einn! Sjálfsmynd stráka og kerfið.

Verkefnastýrur Jafnréttisskólans