Jafnréttismenntun

Markmið jafnréttismenntunar er að skapa tækifæri fyrir öll börn til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. Í skólastarfi ætti allt starfsfólk og öll börn og fjölskyldur þeirra að taka virkan þátt í að skapa samfélag jafnréttis og réttlætis

  • Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra. Jafnréttismenntun vísar í senn til inntaks kennslu, námsaðferða og námsumhverfis.
  • Jafnrétti er regnhlífarhugtak sem nær til margra þátta. Hér á eftir er upptalning nokkurra þeirra í stafrófsröð: Aldur, búseta, fötlun, kyn, kynhneigð, kyntjáning, kynvitund, litarháttur, lífsskoðanir, líkamlegt atgervi, menning, stétt, stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð, trúleysi, tungumál, uppruni, ætterni, þjóðerni. Á öllum skólastigum á að fara fram menntun til jafnréttis þar sem fjallað er um hvernig ofangreindir þættir geta skapað mismunun eða forréttindi í lífi fólks.
    • Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna eru skýr ákvæði um að á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta jafnréttis- og kynjafræðslu við hæfi þar sem m.a. er kennt um kynjaðar staðalímyndir, kynbundið náms- og starfsval og málefni fatlaðs fólks og hinsegin fólks. Einnig skal þess gætt að öll kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað.
  • Mikilvægt er að í öllu skólastarfi, jafnt í kennslustundum sem í öllum samskiptum, séu þessi ákvæði jafnréttislaga höfð að leiðarljósi. Jafnframt er mikilvægt að draga fram að ýmsir búa við margþætta mismunun þegar fleiri slíkir þættir tvinnast saman, til dæmis kyn og fötlun, kynhneigð og þjóðerni, aldur og búseta. Í þessu skyni er eðlilegt að nýta sér í skólastarfinu þekkingu sem nýjar fræðigreinar, svo sem kynjafræði, hinseginfræði, fjölmenningarfræði og fötlunarfræði, hafa vakið athygli á.
  • Undir jafnréttismenntun fellur meðal annars nám um kyn og kynhneigð. Með grunnþættinum jafnrétti er einnig lögð áhersla á að fram fari nám um menningu, þjóðerni, tungumál, trúarbrögð og lífsskoðanir.
  • Eitt af viðfangsefnunum er þróun Íslands sem fjölmenningarsamfélags. Með jafnrétti er einnig lögð áhersla á félagslegan skilning á því hvað felst í fötlun. Áskoranir fólks með fötlun eiga ekki síður rætur í umhverfinu en í skerðingu einstaklings. Leggja skal áherslu á skólastarf og skólaumhverfi þar sem öllum er mætt þar sem þau eru og velferð og virk þátttaka allra er jafn mikilvæg.
  • Einnig þarf að rýna í ólíkt aðgengi að samfélagslegum gæðum eftir stétt, búsetu og fjárráðum. Skoða þarf áhrif stéttar og búsetu á heilsu, náms- og atvinnumöguleika og aðgengi að valdastöðum í samfélaginu

Handbók um jafnréttisstarf fyrir leikskóla