Fimm teymi valin til uppbyggingar á Grænu húsnæði

Teymi Iðu fasteignaþróunarfélags með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.

Á fundi um framtíðaruppbyggingu húsnæðis í Reykjavík í morgun var tilkynnt um þau teymi sem dómnefnd þótti skara fram úr við val á samningsaðilum fyrir uppbyggingu á vistvænu húsnæði á fimm lóðum í borginni undir merkjum Græns húsnæðis framtíðarinnar.

Teymin fimm

Á Veðurstofureit mun borgin bjóða teymi Brandsvíkur, Esju Architecture, Arkibygg arkitekta, Önnu landslagsarkitekts, Exa Nordic, Ístaks og The Living Core til viðræðna.

Á Frakkastíg 1 verður rætt við teymi Iðu, Lendager, s. ap arkitekta, Sigríðar Óskar Bjarnadóttur, VSÓ ráðgjafar, Hönnu verkfræðistofu og Sveins Ragnarssonar.

Í Völvufelli 13-23 mun teymi Vistbyggðar, Eflu og Arkís arkitekta boðið til samninga við borgina.

Þá mun samningateymi Reykjavíkurborgar ræða við teymi Arkþings Nordic, Eflu, S8 og Þingvangs um lóðina Völvufell 43.

Teymi Alverks, Grímu, Tendru og VSÓ mun koma að borðinu um lóðina að Arnarbakka 6.

Strangar kröfur um græna uppbyggingu

Það voru verkefnisstjórar verkefnisins, þau Hulda Hallgrímsdóttir og Hilmar Hildar Magnúsarson, sem tilkynntu um úrslitin og tóku sigurteymin við hamingjuóskum og blómum á sviðinu frá Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Einn vinningshafa á Frakkastígsreit, Björt Ólafsdóttir framkvæmdastýra Iðu fasteignaþróunarfélags, sagðist við það tækifæri vilja þakka Reykjavíkurborg. Hún sagði að ekkert annað sveitarfélag, þótt mörg þeirra væru að gera vel, hefði komið af stað þróunarreitum þar sem svo strangar kröfur væru settar um græna uppbygginu. „Við verðum að breyta um kúrs- og skipta um aðferðir,“ sagði Björt. „Það ætlum við að gera og vonumst til að gera okkur öll stolt af því. Takk fyrir ykkar framsýni.“

Byggt umhverfi sem hringrás

Einn dómnefndarmeðlima, Borghildur Sölvey Sturludóttir, sem jafnframt er skrifstofustjóri deiliskipulagsáætlana hjá Reykjavíkurborg tekur undir með Björt um að breytinga sé þörf:

„Reykjavíkurborg stígur hér föst skref í átt að umhverfisvænni markmiðum er kemur að hönnun, húsagerð og framkvæmdum. Það er mikilvægt að huga að byggðu umhverfi sem hringrás – þar sem  samgöngur, skipulag og hús er hugsað sem heild – fyrir fólk. Þetta er góð byrjun en við þurfum, sem samfélag að sýna hugrekki og framsýni þegar kemur að byggðu umhverfi og fagurfræði,“ segir Borghildur.

Með Borghildi í dómnefndinni sátu Gyða Mjöll Ingólfsdóttir, verkfræðingur og verkefnastjóri umhverfismála hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, Gunnar Örn Sigurðsson, arkitekt FAÍ, Ask arkitektum og Hulda Hallgrímsdóttir verkefnastjóri loftslagsmála á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Ritari dómnefndar var Hilmar Hildar Magnúsarson á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.  

Samningaviðræður framundan

Nú taka við samningaviðræður við vinningsteymin um framþróun þeirra fimm reita sem borgin lagði til í verkefnið. Markmið viðræðnanna er semja um útgáfu formlegra lóðavilyrða og í kjölfarið lóðaúthlutun með þeim skilyrðum og kvöðum sem skilgreind verða í hverju tilviki fyrir sig til að markmið verkefnisins náist.