Nemendur

Allir nemendur á mið- og unglingastigi í borgarreknum grunnskólum hafa afnot af námstæki, annað hvort Chromebók eða iPad. Eigið námstæki eykur möguleika á fjölbreyttari verkefnavinnu og margs konar stuðningi við námið.

Nemendur eru með aðgang að stafræna skólaumhverfi Google þar sem kennarar setja inn námsgögn og fyrirmæli í stafrænum skólastofum Google Classroom og þar skila nemendur stafrænum verkefnum.  

 

Hvar byrja ég?

Þú þarft að nota skólanetfangið þitt @gskolar til að skrá þig inn í Chromebók og Google skólaumhverfið.

Google leiðbeiningar

Google Classroom er stafrænn skóli þar sem kennarar þínir bjóða þér í skólastofur sínar. Þar geta þeir sett inn námsefni, kennsluáætlun, ítarefni, hlekki á gagnlegar vefsíður og kennslumyndskeið. Þeir geta deilt með þér skjölum, sett inn fyrirmæli og búið til skilahólf fyrir þig.

Gott að vita

Fæ ég tölvu í skólanum?

Nemendur í unglingadeild fengu námstæki haustið 2021 og nemendur á miðstigi misserin þar á eftir. Í desember 2022 voru allir nemendur á mið- og unglingastigi komnir með námstæki.

Hvað geri ég ef tækið bilar eða týnist?

Hafðu strax samband við skólann ef eitthvað kemur fyrir tölvubúnað sem skólinn hefur útvegað þér. 

Enginn ætlar að týna eða skemma, en slysin geta gerst.

Foreldrar/forsjáraðilar þurfa ekki að bæta skaðann nema ef einhver skemmir viljandi. 

Má ég fara með tækið heim?

Það er ákvörðun kennara þíns hvenær þú færð að fara heim með tækið.

Samskipti á netinu

  • Vertu kurteis og skýr í máli (kaldhæðni getur valdið misskilningi í ritmáli).
  • Fáðu leyfi áður en þú deilir myndum og myndskeiðum.
  • Aldrei deila myndum sem eru niðrandi eða meiðandi á einhvern hátt.
  • Aldrei áframsenda myndir frá öðrum, stöðvum dreifingu. 
  • Kynntu þér réttindi þín, það má til dæmis enginn birta mynd af þér án leyfis.
  • Snúðu þér til einhvers fullorðins ef þú upplifir eitthvað óþægilegt.
  • Ef þú ert í vafa, leitaðu þá ráða hjá fullorðnum.
  • Vertu með í að skapa góðar netvenjur.
  • Mundu að netið gleymir engu.

Stafræn borgaravitund

Stafræn borgaravitund (e. digital citizenship) að vera stafrænn borgari, er að hafa þekkingu, færni og viðhorf sem þarf til að sýna ábyrga og virðingarverða hegðun þegar tækni er notuð. Við innleiðingu námstækja í skólum borgarinnar eru allir hvattir til að skerpa á góðum netvenjum.

Netöryggi og persónuvernd

Það skiptir máli hvaða hugbúnaður er notaður í skólastarfi og við þurfum að gæta að öryggi ykkar og réttindum á netinu. 

Áður en hugbúnaður er tekinn í notkun í skóla- og frístundastarfi þarf að fara fram áhættumat á honum.
Svara þarf spurningum eins og: Hvaða gögn er unnið með? Hvar eru gögnin vistuð? Er hægt að eyða þeim? Eru auglýsingar tengdar notkun?