Gátlisti vegna eineltis

Gátlistinn er leiðbeinandi fyrir þá sem vinna að gerð áætlana gegn einelti á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs. Hann samræmir áætlun um forvarnir, inngrip og eftirfylgd í eineltismálum í öllum hverfum borgarinnar. Gátlistinn var unninn í víðtæku samráði starfsfólks skóla- og frístundasviðs, fulltrúa foreldra og þjónustumiðstöðva.

Forvarnir

 • Börn og ungmenni markvisst þjálfuð í lýðræðislegu samstarfi sem einkennist af virðingu, samkennd og ábyrgð.
 • Starfsstaðir setja sér leiðarljós í samskiptum sem unnin eru af öllu starfsfólki, börnum, ungmennum og foreldrum, allt eftir aðstæðum.
 • Allt starfsfólk taki þátt í gerð eineltisáætlunar og árlegri endurskoðun hennar, þar sem viðhorf og viðmið í samskiptum eru samræmd til að koma í veg fyrir að einelti og annað ofbeldi geti átt sér stað.
 • Markmið með áætlun gegn einelti er að starfsfólk, börn/ungmenni og foreldrar verði meðvitaðri um einelti, þannig að þeir þekki einkennin, geti brugðist við þeim og viti hvert skal leita.
 • Árlega er boðið upp á fræðslu fyrir starfsfólk um áhrif eineltis og áhrif starfsfólks á samskipti barna og ungmenna.
 • Áætlun gegn einelti kynnt fyrir starfsfólki, börnum/ungmennum og foreldrum, þar sem allir bera ábyrgð á að koma í veg fyrir einelti.
 • Niðurstöður úr könnunum um líðan starfsfólks og barna/ungmenna nýttar í vinnu gegn einelti á starfsstöðum.
 • Skólareglur/samskiptareglur vel kynntar og eineltisteymi virkt.

Inngrip

 • Allar ábendingar um einelti eru teknar alvarlega, einnig það sem á sér stað utan skóla og frístundastarfs. Þegar foreldrar tilkynna um einelti gegn barni sínu fylla þeir út eyðublað
 • Sá sem fær upplýsingar vísar málinu til eineltisteymis sem kannar málið með óformlegri könnun.
 • Ef eineltisteymi telur líklegt að um einelti sé að ræða er haft samband við foreldra barns sem fyrir einelti verður og óskað eftir samþykki þeirra fyrir að eineltisteymi vinni áfram með málið. 
 • Skipuleg skráning hefst. Skráningareyðublað.
 • Teymið aflar frekari upplýsinga og greinir frá næstu skrefum. Ef eineltisteymi telur að vandamálið falli ekki undir skilgreiningu eineltis er málinu vísað í viðeigandi farveg, s.s. til lausnarteymis. 
 • Eineltisteymi setur alla jafna fram áætlun og verkaskiptingu innan tveggja virkra daga.
 • Ef könnun leiðir í ljós að um einelti sé að ræða er rætt við foreldra þeirra barna sem talið er að standi að eineltinu og síðan viðkomandi börn.
 • Kortlagt hvar barnið er í frístundastarfi/skóla og haft samband við viðkomandi aðila eftir samráð við foreldra.
 • Þegar þörf er á skal leitað eftir aðstoð og ráðgjöf frá miðstöð í viðkomandi borgarhluta við úrlausn mála.
 • Ákvörðun um úrvinnslu er tekin á grundvelli niðurstaðna og í samráði við málsaðila. Gæta skal trúnaðar.
 • Vinnslu máls skal að jafnaði vera lokið innan tveggja vikna frá því að málið berst eineltisteymi. Í einhverjum tilfellum gæti vinnsla mála tekið lengri tíma vegna umfangs.
 • Allir málsaðilar eru upplýstir um niðurstöðuna í samráði við viðkomandi foreldra.
 • Skoða hvort veita þurfi stuðning við bekkinn/hópinn.
 • Ef ekki næst viðunandi niðurstaða ætti að vísa málinu til nemendaverndarráðs eða leita eftir frekari ráðgjöf og stuðningi fagstjóra miðstöðvar í viðkomandi hverfi. Telji fólk á sér brotið getur það leitað til umboðsmanns borgarbúa en hann sér um að leiðbeina íbúum og fyrirtækjum í samskiptum við borgina, leita réttar síns telji fólk brotið á sér og veita ráðgjöf um kæruleiðir vegna þeirra mála sem til hans koma.
 • Náist ekki sátt innan Reykjavíkurborgar má vísa málinu til fagráðs sem starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Eftirfylgd

 • Eineltisteymi og málsaðilar gera áætlun um eftirfylgd eftir að inngripi lýkur.
 • Sá sem einelti beinist að og sá/þeir sem stóðu fyrir eineltinu fá stuðning og eftirfylgd í a.m.k. 6 mánuði frá sitthvorum aðilanum.
 • Skilgreindur aðili hefur áfram samráð við foreldra viðkomandi barna meðan á eftirfylgd stendur.
 • Málinu lokað með formlegum hætti. Foreldrar skrifa undir eyðublað

Lýðræðislegt samstarf

Öflugasta forvörnin gegn einelti felst í því að börn læri með skipulögðum hætti að vera saman í leik og starfi þar sem lýðræði, mannréttindi og jafnrétti eru höfð að leiðarljósi. Eins og fram kemur í aðalnámskrá skulu þessi grunngildi samþætt öllu skólastarfi en ekki einskorðuð við ákveðnar kennslustundir.

 

Í starfsskrá frístundamiðstöðva SFS eru samskipta- og félagsfærni skilgreindir sem þeir lykilþættir sem hlúa ber að í öllu frístundastarfi. Fræðimenn hafa einnig haldið því fram að, til að sporna við einelti þurfi allir að tileinka sér umburðarlyndi gagnvart samferðafólki sínu og einkum þeim sem taldir eru á einhvern hátt standa utan hins viðurkennda hóps.

Samvinna

Í viðamikilli sænskri rannsókn á einelti í skólum kom m.a. í ljós að einelti mælist lítið þar sem skóla-bragurinn einkennist af samvinnu og skuldbindingu, skapandi starfi, trausti og ábyrgð. Þar ríkja einnig sameiginleg viðhorf starfsmanna til grunngilda í samskiptum, nemendur taka virkan þátt í forvörnum og þeir ásamt starfsmönnum vinna markvisst með gildi.

Menntastefna Evrópuráðsins, Pestalozzi, hefur það að markmiði að skólar séu án ofbeldis. Þar er litið svo á að nemendur þurfi skipulega þjálfun í samvinnu og samræðu. Þannig þjálfist þeir í að tjá skoðanir sínar, hlusta, taka tillit til mismunandi hugmynda, leita lausna við ágreiningi og deila ábyrgð. Þessi færni er forsenda lýðræðissamfélags hvort sem um er að ræða bekk, skóla eða samfélagið í heild sinni. Það nægir með öðrum orðum ekki að fjalla um lýðræðislegt samstarf heldur þarf að æfa það skipulega.

Skref fyrir skref

Áætlun gegn einelti

Í 30. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008 segir m.a.:

…Grunnskólar skulu hafa heildstæða stefnu um það hvernig fyrirbyggja eigi að líkamlegt, andlegt eða félagslegt ofbeldi eigi sér stað í skólastarfi. Skólar skulu einnig hafa áætlun um framkvæmd tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum, um hvernig brugðist er við tilvikum um einelti, annað ofbeldi og félagslega einangrun. Áætlun skal m.a. framfylgt með því að hver skóli setji sér skólareglur. Í skólareglum skal m.a. kveðið á um almenna umgengni, samskipti, stundvísi, ástundun náms og heilbrigðar lífsvenjur. Þá skal í skólareglum koma fram hvernig skólinn hyggst bregðast við brotum á þeim.

Í 7. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr.1040/2011 segir:

Aðgerðir skóla gegn einelti taka til skólans í heild, einstakra bekkjardeilda, námshópa og einstaklinga. Hver kennari ber ábyrgð á að framfylgja með virkum og ábyrgum hætti aðgerða-áætlun skólans gegn einelti og skólastjóri ber ábyrgð á að starfið sé samhæft.

Kanna þarf reglulega eðli og umfang eineltis í skólum, kynna niðurstöður og nýta þær til úrbóta.

Aðgerðaáætlun gegn einelti er hluti af skólanámskrá og er kynnt sérstaklega eftir því sem þurfa þykir og skal birt opinberlega. Starfsfólk sérfræðiþjónustu skal aðstoða skóla í tengslum við aðgerðir gegn einelti og úrlausn einstakra mála eftir því sem þörf krefur.

Æskilegt er að eineltisáætlanir grunnskóla nái líka yfir skipulagt frístundastarf á vegum Reykjavíkurborgar. Gert er ráð fyrir að eineltisáætlanir starfsstaða skóla- og frístundasviðs séu unnar í samræmi við þennan gátlista.

Vakin er athygli á að Reykjavíkurborg hefur jafnframt sett sér viðbragðsáætlun við einelti meðal starfsfólks.

Einelti

Í 3. gr. reglugerðar um aðgerðir gegn einelti á vinnustað, nr. 1009/2015 er að finna skilgreiningu á hugtakinu einelti. Styðjast má við sömu skilgreiningu fyrir börn enda ekki um aðra lagalega skilgreiningu að ræða. Samkvæmt reglugerðinni er skilgreiningin á einelti:

Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Samkvæmt reglugerðinni þurfa eftirtalin atriði að koma til svo háttsemin teljist vera einelti:

 1. Hegðunin er meiðandi, særandi eða niðurlægjandi fyrir þann sem fyrir henni verður og er til þess fallin að mismuna, ógna, útiloka og valda vanlíðan hjá þeim sem hegðunin beinist að.
 2. Viðkomandi á erfitt með að verjast.
 3. Hegðunin þarf að vera síendurtekin og standa yfir í einhvern tíma, [viku eða lengur].

Skólareglur / samskiptareglur

Hugtakið skólareglur er bundið í lögum um grunnskóla, en í 30. grein laganna segir m.a.:

…Áætlun skal m.a. framfylgt með því að hver skóli setji sér skólareglur…

Aðrar starfsstöðvar SFS setja sér samskiptareglur sem hafa sama tilgang, þ.e. að tryggja öllum börnum og ungmennum öruggt umhverfi og stuðla að góðum samskiptum. Mikilvægt er að viðbrögð við brotum á reglunum séu vel kynnt og þau tekin til umfjöllunar um leið og reglurnar.

Ábendingar um einelti

Öllum grunsemdum um einelti í grunnskólum og frístundastarfi skal vísa til eineltisteymis.

Í leikskólum eru það leikskólastjórar eða deildarstjórar sem ættu að fá tilkynningu um grunsemdir.

Enda þótt í ljós komi að ekki sé um einelti að ræða þarf samt að taka allar vísbendingar um óæskileg samskipti eða vanlíðan barna alvarlega og takast á við vandann í samræmi við eðli hans.

Sama vinnulag á við varðandi ábendingar um grun um einelti sem birtist utan hefðbundins starfstíma skóla- og frístundastarfs, svo sem á netinu eða hjá íþrótta- og æskulýðsfélögum.

Þegar óskað er eftir að foreldar komi á fund í skóla- eða frístundastarfi til að ræða hugsanlegt einelti ætti alltaf að upplýsa þá um hverjir verði á fundinum. Einnig ætti að hvetja foreldra til að koma ekki einir á fundi heldur hafa einhvern með sér sem þeir treysta. Þannig er þess gætt að jafnvægi ríki á fundum.

Eineltisteymi

Hvatt er til þess að við alla grunnskóla séu starfrækt eineltisteymi. Í teymunum ættu að sitja þeir fagaðilar í viðkomandi skólasamfélagi/nærsamfélagi sem best eru til þess fallnir. Það geta verið námsráðgjafar, kennarar, frístundaráðgjafar, stjórnendur grunnskóla og/eða frístundamiðstöðva og annað starfsfólk sem hefur þekkingu og áhuga á að vinna gegn einelti.

Hver sá sem fær upplýsingar um mögulegt einelti ber ábyrgð á að koma málinu til eineltisteymis. Ennfremur er lagt til að eineltisteymi beri ábyrgð á að réttum ferlum sé fylgt, s.s. með skráningum, upplýsingum til foreldra og stuðningi og ráðgjöf við viðkomandi börn og aðra sem á þurfa að halda. Hvort sem um eineltisteymi er að ræða eða ekki, er lagt til að alltaf komi fleiri en einn einstaklingur að greiningu og lausn eineltismála ef þau koma upp.

Í 13. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 segir m.a.:

Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska, líðan og almennri velferð, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim um persónuleg mál og stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila.

Ábyrgð umsjónarkennara á velferð nemenda er því mikil. Oft getur umsjónarkennari leyst samskiptavanda og eineltismál í uppsiglingu en þar sem eineltismál eiga það til að verða mjög sársaukafull og erfið úrlausnar er eindregið hvatt til að umsjónarkennarar og aðrir ábyrgðaraðilar upplýsi strax eineltisteymi eða annað sérhæft starfsfólk þegar grunur vaknar um einelti. Það fer eftir eðli málsins og ákvörðunum eineltisteymis hvernig unnið er að lausn málsins. Eineltisteymi setur sér starfsreglur.

Leikskólar eru almennt ekki með eineltisteymi. Leikskólastjóri er ábyrgðaraðili þegar upp koma eineltismál í leikskólum þeirra og skal hann leita til skólaþjónustu þjónustumiðstöðva um samstarf.

Óformleg könnun

Ef málið liggur ekki ljóst fyrir þarf eineltisteymi að afla sér lágmarks upplýsinga áður en lengra er haldið. Fylgst er með viðkomandi börnum og spjallað óformlega við þau án þess að nefna hugtakið einelti. Einnig er eðlilegt að hann kanni hvort annað starfsfólk innan starfsstaðarins, sem vinnur með viðkomandi börnum, hafi orðið vart við neikvæð samskipti eða vanlíðan viðkomandi barna.

Skipuleg skráning

Um leið og grunur um einelti vaknar þarf eineltisteymi að hefja formlega skráningu á öllum upplýsingum sem málið varða og ákvörðunum sem teknar eru. Gæta þarf þess að skrá aðeins staðreyndir um atburði, samtöl eða niðurstöður athugana en ekki túlkanir og skoðanir. Því nákvæmari sem skráningin er því betra er fyrir aðra að koma að málinu og fylgja því eftir. Foreldrar hafa aðgang að skráningu sem varðar þeirra eigið barn.

Frekari upplýsingar og næstu skref

Ef grunur um einelti eða vanlíðan barns styrkist við óformlega könnun þarf eineltisteymi í samstarfi við umsjónarkennara eða forstöðumann frístundastarfs (ef málið kemur upp þar) að ákveða hver hefur samband við foreldra þess sem eineltið er talið beinast að (þess sem talið er að líði illa).

Sá sem hringir þarf að hefja samtalið af varfærni og spyrja foreldra almennt um líðan barns þeirra og um samskipti við önnur börn. Ef samtalið bendir til þess að um einelti geti verið að ræða er óskað eftir samþykki foreldra fyrir að eineltisteymi fái málið til frekari vinnslu. Í því felst að eineltisteymi fær leyfi til að greina vandann, afla upplýsinga og finna viðeigandi lausnir.

Sá sem hringir upplýsir foreldra um fulltrúa eineltisteymisins, vinnureglur þess og hvenær vænta megi upplýsinga. Æskilegt er að hafa samþykki foreldris skriflegt eða í tölvupósti. Foreldrar eru hvattir til að hafa samband ef þeir óska eftir að koma upplýsingum á framfæri eða spyrja spurninga.

Ef samtalið bendir ekki til þess að um einelti sé að ræða þarf að fara aðrar leiðir til að leita orsaka og leysa vandann.

Nemendaverndarráð

Í 19. gr. reglugerðar um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum segir:

Fái nemandi ekki fullnægjandi aðstoð vegna fötlunar, sjúkdóms eða námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika skal umsjónarkennari vísa málinu skriflega til nemendaverndarráðs.

Fulltrúar í nemendaverndarráði geta haft frumkvæði að því að mál einstakra nemenda séu tekin upp í ráðinu.

Starfsfólk skóla, foreldrar, nemendur og fulltrúar sérfræðiþjónustu skólans geta óskað eftir því við skólastjóra eða fulltrúa hans í nemendaverndarráði að mál einstakra nemenda eða nemendahópa verði tekin fyrir í ráðinu.

Ávallt skal upplýsa foreldra um að máli barna þeirra sé formlega vísað til skólastjóra eða nemendaverndarráðs og leita eftir samstarfi við foreldra um lausn mála eftir því sem framast er kostur.

Nemendaverndarráð skal taka fyrir málefni sem vísað er til ráðsins eins fljótt og auðið er.

Í 20 gr. reglugerðarinnar segir enn fremur:

Ráðið metur hvaða viðbótarupplýsinga er þörf og boðar á sinn fund umsjónarkennara og foreldra svo og aðra aðila sem tengjast málinu ef þörf krefur.

Aðrir aðilar geta verið þeir sem vinna með börnum í frístundastarfi, lögregla, ráðgjafar eða aðrir sem hafa viðbótarupplýsingar sem geta gagnast við vinnslu mála.

Áætlun og verkaskipting

Með áætlun og verkaskiptingu er átt við að eineltisteymið komi sér saman um ferli málsins og hver beri ábyrgð á tilteknum þáttum þess. Mikilvægt er að gera ráð fyrir samstarfi við foreldra í áætluninni og huga að aðkomu frístundaráðgjafa og annarra er koma að málum barnsins.

Hafa ber eftirfarandi atriði í huga:

 • Í hvaða röð er talað við málsaðila: Tala fyrst við þann sem einelti beinist að og foreldra og
 • síðan þann/þá sem taldir eru standa fyrir eineltinu og foreldra þeirra.
 • Hverjir tala við hvern
 • Og við hverja er talað
 • Um hvað er talað – hvers vegna
 • Huga þarf að staðsetningu viðtals (öryggi og næði)
 • Tengslakannanir
 • Vettvangsathuganir – hvar á eineltið sér stað og hvenær
 • Hver aflar upplýsinga og hvert skal leita.
 • Hver ber ábyrgð á skráningu, hvað er skráð og hvar.

Þegar grunur um einelti er orðinn verulegur er rætt við þann sem talið er að standi fyrir eineltinu. Ef um fleiri en eitt barn er að ræða, er rætt við þau í sitt hvoru lagi. Heppilegast er að það sé annar aðili en sá sem hefur tekið að sér að styðja barnið sem hefur orðið fyrir eineltinu.

Það að vera ásakaður um að leggja í einelti er alvarlegur hlutur og því verður að byrja á því að ræða við foreldra þeirra og bjóða þeim að vera viðstaddir. Það þarf helst að gerast samdægurs. Hafa þarf í huga að foreldrar hafa andmælarétt fyrir hönd barns síns og það þarf líka samþykki foreldra gerenda til að ræða mál barna þeirra.

Mikilvægt er að láta umræðuna snúast um tiltekna hegðun en ekki barnið sjálft og ef þess er nokkur kostur þá um ákveðna atburði. Það er mun auðveldara fyrir stuðningsaðilann að ræða á þeim nótum og kemur í veg fyrir að barnið neiti að kannast við hegðun sína. Það getur verið heppilegt að tveir starfsmenn séu saman á fundinum og að foreldrar séu upplýstir um það fyrirfram hverjir það eru.

Markmið fundarins er að fá barnið til að viðurkenna að hegðun þess sé röng og hana þurfi að bæta. Stuðningsaðilinn, barnið og foreldrar koma sér saman um hvernig barnið geti bætt fyrir brot sín og breytt hegðun sinni til betri vegar. Gerð er áætlun sem stuðningsaðilinn fylgir eftir.

Aðstoð og ráðgjöf frá þjónustumiðstöð

Ef líkur eru á að mál geti orðið flókin úrlausnar ætti yfirmaður starfstöðvarinnar, eða sá sem yfir-maðurinn tilnefnir, að hafa samband við þjónustumiðstöð hverfisins og óska eftir ráðgjöf við lausn málsins. Oft getur reynst betra að leita ráðgjafar fyrr en síðar.

Í þjónustumiðstöðvum eru starfrækt viðbragðsteymi eða bráðateymi sem koma strax að ofbeldismálum og öðrum alvarlegum málum með ráðgjöf eða inngripi þegar þörf reynist. Í borginni eru fimm þjónustumiðstöðvar sem reknar eru af velferðarsviði Reykjavíkur. Hlutverk þeirra er að sinna ráðgjöf við einstaklinga og fjölskyldur og þær sinna jafnframt skólaþjónustu við leik- og grunnskóla borgarinnar.

Ákvörðun um úrvinnslu

Úrvinnsla máls þarf að vera í samræmi við málsatvik og aldur og þroska barna. Nauðsynlegt er að sá eða þeir sem standa fyrir eineltinu viðurkenni hegðun sína, hvað sé rangt við hana og hvers vegna. Viðkomandi þurfa jafnframt að segja frá því hvernig þeir ætla að bæta fyrir gerðir sínar og njóta handleiðslu stuðningsaðila við að bæta fyrir og taka sig á.

Sá sem eineltið beinist að þarf að fá tækifæri til að ræða líðan sína. Hann/hún þarf að fá staðfestingu umhverfisins á því að eineltið sem beindist að honum/henni sé óréttlætanlegt. Það þarf að sýna honum/henni samkennd en umfram allt að tryggja honum/henni öryggi og koma í veg fyrir að eineltið endurtaki sig. Öll börn eiga rétt á að trúnaður ríki um mál þeirra og allar aðgerðir um úrlausn mála skuli taka mið af því.

Tillögur að frekari úrvinnslu: Foreldrahús, námskeið og ráðgjöf á vegum þjónustumiðstöðva, vinahópar, sértækt hópastarf félagsmiðstöðva/frístundaheimila, efling á styrkleikum barnsins með því að leita nýrra leiða í félagsstarfi og sálfræðiaðstoð.

Málsaðilar

Mikilvægt er að foreldrar séu alltaf vel upplýstir um mál barna sinna. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar gera má ráð fyrir að þeir hafi áhyggjur af velferð þeirra eins og við á þegar grunur er um einelti.

Foreldrar ættu alltaf að þekkja/hafa vitneskju um þau markmið sem unnið er að í skólanum eða í frístundastarfi og einnig um árangur og taka þátt að því marki sem hægt er. Gott er að ákveða alltaf með foreldrum hvenær og hvernig þeir fái næst upplýsingar varðandi eineltismál sem barn þeirra á hlut að.

Skoða hvort veita þurfi stuðning við bekkinn / hópinn

Mennta- og menningarmálaráðherra staðfesti þann 10. mars 2012 verklagsreglur um starfsemi fagráðs eineltismála í samræmi við reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur skólasamfélagsins í grunnskólum. Endurskoðaðar verklagsreglur voru síðan staðfestar af ráðherra 17. maí 2016.

Foreldrar og aðrir aðilar skólasamfélagsins, svo sem nemendur, starfsfólk og stjórnendur skóla, auk annarra sem starfa með börnum í skóla,- frístunda- eða tómstundastarfi, geta óskað eftir aðkomu fagráðs ef ekki tekst að finna fullnægjandi lausn, innan skóla eða sveitarfélags, þrátt fyrir aðkomu starfsfólks skóla og sérfræðiþjónustu sveitarfélaga. Sömu aðilar geta jafnframt vísað máli til fagráðs vegna meints aðgerðaleysis skóla eða sveitarfélags.

Fagráðið hefur einkum tvíþætt hlutverk við meðferð mála, sem því berast. Í fyrsta lagi verður ráðið stuðningsaðili við skólasamfélagið, sem meðal annars getur falist í almennri ráðgjöf, leiðbeiningum eða upplýsingagjöf. Í öðru lagi skal ráðið leitast við að ná fullnægjandi úrlausn í eineltismálum, sé þess nokkur kostur, og gefa út ráðgefandi álit í máli á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga er ráðinu berast í tilteknu máli.

Stuðningur og eftirfylgd

Það getur verið mjög erfitt fyrir einn og sama aðilann að ávinna sér traust þess sem eineltið beindist að og einnig þeirra sem stóð fyrir því og viðhalda því trausti. Þess vegna er lagt til að um tvo stuðningsaðila sé að ræða. Í grunnskóla gæti það t.d. verið námsráðgjafi og umsjónarkennari en jafnframt geta aðrir aðilar í umhverfi barnanna, svo sem frístundaráðgjafar, stuðningsfulltrúar eða sérkennarar komið að málum, allt eftir því hvernig aðstæður eru á hverjum stað.

Stuðningsaðili þeirra sem stóð fyrir eineltinu leggur áherslu á að styðja við markmið um yfirbót og góða hegðun og hrósar fyrir framfarir. Stuðningsaðili þess sem eineltið beindist að þarf að leggja áherslu á að hlusta, sýna samkennd, tryggja öryggi hans og efla sjálfstraust. Mikilvægt er að foreldrar séu einnig upplýstir um framfarir.

Skilgreindur aðili

Sá aðili sem eineltisteymi hafa tekið ákvörðun um að fylgja eigi málinu eftir.

Málinu lokað með formlegum hætti

Sérhverju máli þarf að ljúka í sátt við viðkomandi börn, foreldra þeirra og aðra sem eiga hlutdeild í málinu. Gott er að hafa lok máls skrifleg og jafnvel undirrituð af málsaðilum. Foreldrar viðkomandi barna hafa rétt á skriflegum gögnum varðandi málið. Foreldrar skrifa undir eyðublað.

Athugasemdir og ábendingar

Vinsamlegast sendið athugasemdir og ábendingar á netfangið: olof.kristin.sivertsen@reykjavik.is.