Spurt og svarað um skóla- og velferðarþjónustu

Hér finnur þú svör við ýmsum algengum spurningum um skóla- og velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar.

Við bendum á að ef þú ert óviss með eitthvað varðandi stuðning eða þjónustu sem barnið þitt er að fá er oft gagnlegt að ræða við skóla barnsins eða ráðgjafa á miðstöð.

Þessi síða er í stöðugri þróun.

Skólaþjónusta

Hvað er skólaþjónusta?

Börn eru eins ólík og þau eru mörg. Sum þurfa á stuðningi að halda til að bæta líðan sína og finna farveg fyrir styrkleika sína. Hlutverk skólaþjónustu er að veita börnum, fjölskyldum þeirra og starfsfólki leik- og grunnskóla markvissa ráðgjöf og stuðning.

Hvar er skólaþjónustan?

Hjá Reykjavíkurborg starfar fjölbreyttur hópur fagaðila við skólaþjónustu, en hún er staðsett víða. Þú finnur skólaþjónustuna til dæmis:

  • Í formi sérfræðiþjónustu í leik- og grunnskólum borgarinnar.
  • Á miðstöðvum í hverfum borgarinnar.
  • Á miðstöð máls og læsis í Hvassaleitisskóla.
  • Í sköpunar- og upplýsingatækniverinu Mixtúru á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.
  • Á miðstöð útivistar og útináms við Gufunesveg.

Hver á rétt á skólaþjónustu?

Öll börn sem ganga í leik- og grunnskóla í Reykjavík eiga rétt skólaþjónustu ef þau uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Lögheimili barnsins er í Reykjavík.
  • Forsjáraðilar og starfsfólk skóla barnsins telja að barnið þurfi á stuðningi að halda til að geta notið leik- eða grunnskólagöngu sem best.
     

Hvar sæki ég um skólaþjónustu?

Þú getur óskað eftir skólaþjónustu með því að ræða við deildarstjóra barnsins í leikskóla eða umsjónarkennara barnsins í grunnskóla. Ef þú vilt frekar tala við einhvern annan en skóla barnsins eru miðstöðvarnar líka til staðar fyrir þig. Þar getur þú pantað tíma í símaráðgjöf og fengið að tala við ráðgjafa, sama hversu stórt eða smátt erindið er.

Þarf ég að borga fyrir skólaþjónustu?

Nei, þjónustan er bæði skólum og foreldrum að kostnaðarlausu.

Getur einhver annar en ég sótt um skólaþjónustu fyrir barnið mitt?

Já, að hluta til. Suma þjónustu geta bara foreldrar sótt um, en sumt er í höndum annarra.

  • Umsjónarkennarar geta sótt um þjónustu og leitað ráða hjá lausnateymi og nemendaverndarráði síns skóla. Um er að ræða vettvang þar sem vandi barns er kortlagður og málum vísað áfram í frekari þjónustu ef þess þarf. Foreldrar eru alltaf upplýstir áður en mál barnanna þeirra eru tekin fyrir og geta komið með athugasemdir.
  • Stjórnendur grunnskóla og leikskóla geta sótt um aukið fjármagn fyrir börn sem þurfa meiri stuðning.
  • Tengiliður barns í grunnskóla eða leikskóla getur sótt um að barn fái málstjóra. Sótt er um málstjóra fyrir börn ef þau eru með fjölþættan vanda sem krefst meiri stuðnings en hægt er að veita í skólanum.
  • Barnavernd getur í sumum tilfellum sótt um samþætta þjónustu fyrir barn. 

Get ég fengið sambærilega þjónustu hjá einkaaðila?

Já, upp að vissu marki. Ef þú nýtir þér þjónustu hjá einkaaðila, til dæmis við að fá greiningu, er mikilvægt að passa upp á að niðurstöðurnar komist örugglega til skila til skóla barnsins. Fagaðilar sem sjá um greiningar munu í sumum tilfellum biðja þig um að samþykkja það að þau geti deilt niðurstöðunum með tengilið eða málstjóra barnsins, svo að hægt sé að nýta þær til að sækja um þjónustu.

Miðstöðvar

Hvar sé ég hver mín miðstöð er?

Í Reykjavík eru fjórar miðstöðvar og ein rafræn miðstöð. Nánari upplýsingar um miðstöðvar er að finna á vef Reykjavíkurborgar.

Hvaða stuðningur er í boði fyrir fjölskyldur?

Á miðstöðvum er í boði fjölbreytt þjónusta fyrir fjölskyldur.

  • Einstaklingsráðgjöf fyrir börn og foreldra
  • Skoðun á vanda sem barn glímir við
  • Námskeið fyrir foreldra og börn til að bæta líðan og samskipti
  • Hópastarf sem eykur virkni og sjálfstraust barna
  • Unglingasmiðjur með ráðgjöf og stuðning við foreldra og börn
  • Foreldrafræðsla og uppeldisráðgjöf
  • Stuðningsfjölskyldur fyrir börn og fjölskyldur þeirra
  • Sérhæfð úrræði fyrir fötluð og langveik börn

Hvaða stuðningur er í boði fyrir skóla?

Á miðstöðvum er í boði fjölbreytt þjónusta fyrir skóla.

  • Aðstoð miðstöðvar við skóla og frístund
  • Ráðgjöf frá lausnateymi
  • Mál til nemendaverndaráðs
  • Skoðun á vanda sem barn glímir við

Fyrstu skrefin

Hvað geri ég ef ég held að barnið mitt þurfi á auknum stuðningi að halda?

Ef þú heldur að barnið þitt þurfi á auknum stuðningi að halda er alltaf best að byrja á því að ræða málin við þau sem sinna barninu þínu í skólanum. Þetta getur verið til dæmis deildarstjóri í leikskóla, umsjónarkennari í grunnskóla, eða annar aðili innan skólans sem þekkir barnið þitt og þú treystir, til dæmis sérkennslustjóri. Þú getur líka talað beint við aðila úr skólaþjónustu á miðstöð barnsins.

Hvaða stuðningur er í boði í skólum?

Grunnskólar og leikskólar bjóða upp á fjölbreyttan stuðning í skólanum. Leikskólastjórar og skólastjórar hafa umsjón með því hvernig þjónustunni er nákvæmlega hagað í þeirra skólum. Dæmi um þjónustu eru til dæmis námsráðgjafar, námsver, sérkennsla, stuðningsfulltrúar og þroskaþjálfar. Aukin samvinna við aðra kennara, frístund og miðstöð getur líka stutt betur við börnin. 

Þarf barn að fá greiningu til að fá hjálp?

Nei. Nánari skoðun getur aukið skilning þinn og skólans á því hvernig sé hægt að mæta þörfum barnsins þíns. Að því sögðu þarf ekki formlega greiningu til þess að barn fái aðstoð í skólanum, heldur á skólinn að leitast við að mæta þörfum allra barna. Formleg greining getur hinsvegar verið forsenda sérhæfðrar þjónustu, lyfjagjafar og umönnunargreiðslna.

Hvað er snemmtæk íhlutun?

Með snemmtækri íhlutun er hér átt við það að hjálpa börnum sem eiga við mögulegan vanda að stríða eins snemma og mögulegt er. Þetta er gert með því að grípa snemma inn í með markvissum stuðningi og þjónustu svo að barnið geti notið sín sem best í leik- og grunnskóla. Árangursrík snemmtæk íhlutun vinnur bæði að því að koma í veg fyrir að vandamál komi upp og að takast á við vandamál áður en þau versna.

Hvað er samþætt þjónusta?

Það getur verið bæði tímafrekt og krefjandi fyrir foreldra að þurfa að halda utan um upplýsingar um barnið sitt og deila þeim áfram til réttra aðila á réttum tíma. Tilgangurinn með samþættri þjónustu er að tengiliður barnsins taki við þessu verkefni. Ef foreldrar biðja um samþætta þjónustu eru þeir að óska eftir og gefa leyfi fyrir því að þjónustuveitendur tali saman og deili upplýsingum sem gætu hjálpað barninu.

Er samþætt þjónusta betri fyrir barnið mitt?

Þjónusta við barnið þitt getur orðið betri ef hún er samþætt. Þegar þau sem aðstoða barnið þitt geta talað saman er auðveldara fyrir þau að vinna saman. Þetta geta verið aðilar eins og: 

  • starfsfólk í frístund  
  • þjálfari barnsins þíns 
  • sjálfstætt starfandi sérfræðingar (sálfræðingur, iðjuþjálfi eða talmeinafræðingur)
  • starfsfólk á heilsugæslu
  • starfsfólk félagsþjónustu  
  • starfsfólk barnaverndar  
  • starfsfólk lögreglu 

Þetta þýðir ekki að hver sem er megi vita allt um barnið þitt. Þau sem aðstoða barnið þitt eiga almennt ekki að deila upplýsingum um barnið nema þau haldi að það geti hjálpað því. Upplýsingarnar um barnið þitt eiga bara að fara til þeirra sem geta hjálpað við að mæta þörfum barnsins. 
 

Hver gerir hvað?

Hver sér um mál barnsins míns?

Það fer eftir því á hvaða stigi málið er.

  • Fyrst um sinn er það alltaf umsjónarkennari í grunnskóla eða deildarstjóri í leikskóla sem heldur utan um mál barna.
  • Ef barn þarf frekari aðstoð er hægt að leita til tengiliðar, sem er oft á tíðum deildastjóri stoðþjónustu í grunnskóla eða sérkennslustjóri í leikskóla. 
  • Ef mál eru komin lengra getur það verið í höndum ráðgjafa á miðstöð.
  • Fyrir börn með fjölþættan vanda sem krefjast meiri þjónustu en hægt er að fá í skólanum eða frá einum ráðgjafa á miðstöð getur mál barnsins verið í höndum málstjóra
     

Við hvern tala ég til að fá upplýsingar um barnið mitt?

Í leikskóla er það deildarstjóri þeirrar deildar sem barnið tilheyrir sem heldur utan um málefni barnsins og ber ábyrgð á samskiptum við foreldra þess.

Í grunnskóla er það umsjónarkennari barnsins sem heldur utan um málefni þess og ber ábyrgð á samskiptum við foreldra.
 

Hvað er tengiliður?

Hlutverk tengiliðar er að hafa yfirsýn yfir þarfir barna og meta hvort þau þurfi meiri aðstoð. Öll börn og foreldrar þeirra eiga rétt á aðgangi að tengilið. Eftir að barn byrjar í leikskóla eða grunnskóla í Reykjavík er tengiliðurinn einhver sem vinnur í skólanum sem þekkir vel til skólaþjónustunnar. Dæmi um slíka tengiliði eru sérkennslustjórar í leikskólum og deildarstjórar stoðþjónustu í grunnskólum. Ef barn er ekki byrjað í skóla er tengiliður einhver sem vinnur á heilsugæslu barnsins. Ef þú ert ekki viss um hver er þinn tengiliður getur skóli barnsins eða ráðgjafi á miðstöð leiðbeint þér um næstu skref.

Ef þig grunar að barnið þitt þurfi á auknum stuðningi að halda getur tengiliðurinn þinn hjálpað þér með næstu skref, metið þörf barnsins þíns fyrir stuðning og veitt þér upplýsingar um þá þjónustu sem er í boði.

Hvað er málstjóri?

Ef í ljós kemur að foreldrar eða barnið þurfa meiri þjónustu en hægt er að veita innan skólans getur tengiliður óskað eftir aðkomu málstjóra. Málstjórar eru hluti af starfsteymi miðstöðva Reykjavíkurborgar. Málstjórinn kemur þá inn með sína sérfræðiþekkingu og stýrir vinnu stuðningsteymisins sem myndað hefur verið til að þjónusta barnið. Tengiliður barns getur enn verið hluti af teyminu en stýrir því ekki lengur.     

Get ég óskað eftir að fá málstjóra fyrir barnið mitt?

Öll börn eiga rétt á að óska eftir samþættri þjónustu. Það er hinsvegar í höndum tengiliðar eða sveitarfélags að meta hvort að þörf sé á málstjóra og óska eftir því ef þarf. Forsjáraðilar barna geta alltaf rætt við tengilið barnsins síns um þörfina á málstjóra.

Hvað er lausnateymi?

Lausnateymi er teymi innan skólans sem sér um að kortleggja stöðu barna og leita lausna til stuðnings þeim. 

Í lausnateymi eru félagsleg samskipti, hegðun, nám og líðan barna rædd og viðunandi úrræði virkjuð til að bregðast fyrr við erfiðleikum eða aðstæðum barns. Málið getur varðað einstaka börn eða barnahópa í námi þeirra, starfi og leik. Ávallt skal upplýsa forsjáraðila um að leita eigi ráða varðandi málefni barna þeirra hjá lausnateymi. 
 

Hverjir eru í lausnateymi?

  • Teymisstjóri. Skólastjórnandi skipar teymisstjóra lausnateymis.
  • 2-3 fulltrúar grunnskólans, fulltrúi frístundastarfs og fulltrúi skóla- og frístundaþjónustu. Fulltrúar skólastarfsins geta verið skólastjórnandi, sérkennslustjóri, deildarstjóri í skóla, sérkennari, námsráðgjafi eða þroskaþjálfi. Fulltrúi frístundastarfsins getur verið forstöðumaður frístundaheimilis og/eða félagsmiðstöðvar. Fulltrúar skólaþjónustu geta verið hegðunarráðgjafi eða kennsluráðgjafi.
  • Teymisstjóri kallar svo aðra inn eftir þörfum s.s. skólahjúkrunarfræðing, skólasálfræðing, unglingaráðgjafa, félagsráðgjafa, deildarstjóra barna eða unglingastarfs í frístundastarfi eða ráðgjafaþroskaþjálfa frístundastarfs eftir því sem ástæða er til.
     

Hvað er nemendaverndarráð?

Ef búið er að taka mál fyrir í lausnateymi og frekari úrræða er þörf er málum stundum vísað til nemendaverndarráðs, nema um bráðamál sé að ræða.

Nemendaverndarráð í skóla fjallar um sérstök úrræði fyrir einstaka nemendur eða nemendahópa. Ráðið metur hvaða viðbótarupplýsinga er þörf og boðar á sinn fund umsjónarkennara og forsjáraðila svo og aðra aðila sem tengjast málinu eftir þörfum.

Þegar ákvörðun hefur verið tekin um nauðsynlegar ráðstafanir, úrbætur eða aðgerðir getur skólastjórnandi falið aðilum innan ráðsins að fylgja málinu eftir. Ráðið samræmir skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi skólaheilsugæslu, náms- og starfsráðgjöf og miðstöðvar. Ráðið aðstoðar einnig skólastjórnanda við framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur. 

Skólastjórnandi skipar nemendaverndarráð til eins árs í senn og er ábyrgur fyrir starfrækslu ráðsins sem skal taka mið af aðstæðum í hverjum skóla. Skólastjórnandi eða fulltrúi hans stýrir starfi nemendaverndarráðs. 
 

Hverjir eru í nemendaverndarráði?

  • Skólastjórnandi og/eða fulltrúi sem hann tilnefnir
  • Sérkennslustjóri
  • Fulltrúi skólaheilsugæslu
  • Fulltrúi miðstöðvar
  • Náms- og starfsráðgjafi.
  • Fulltrúar frá barnaverndaryfirvöldum, þegar tilefni er til.
     

Samþykki

Hvers vegna þarf ég að gefa samþykki?

Til að aðilar sem koma að þjónustu barnsins þíns geti rætt málin sín á milli þarft þú að gefa samþykki fyrir því. 

Undanskilið þessu er að grunn- og leikskólar hafa leyfi til þess að ræða mál barna á nemendaverndarráðsfundum og í lausnateymi ef búið er að upplýsa foreldra um það áður en málin eru rædd. Foreldrar hafa þá tækifæri til að koma með athugasemdir.

Ef það á að ræða mál barna á öðrum vettvangi, til dæmis ef starfsfólk Landspítalans vill tala við starfsfólk skólans eða miðla til þess upplýsingum um barnið, þurfa foreldrar fyrst að fylla út beiðni um að það sé gert. Þá eru það foreldrar sem samþykkja að upplýsingum sé miðlað til tengiliðar með því að leggja fram beiðnina.

Ef barnið er með samþætta þjónustu þurfa foreldrar ekki að leggja fram beiðni í hvert sinn sem ræða á mál barnsins. Þau sem aðstoða barnið geta þá deilt upplýsingum um barnið ef þau halda að það geti hjálpað barninu.

Hvað gerist ef ég gef ekki samþykki að málið sé rætt í skólanum?

Samþykki má draga til baka hvenær sem er. 

Grunn- og leikskólar hafa leyfi til þess að ræða mál barna á nemendaverndarráðsfundum og í lausnateymi ef búið er að upplýsa foreldra um það áður en málin eru rædd. Foreldrar hafa þá tækifæri til að koma með athugasemdir eða andmæla því að málið sé tekið fyrir.

Hverjir fá aðgang að upplýsingum um barnið þegar ég gef samþykki?

Ef mál barns eru rædd í lausnateymi eða nemendaverndarráði fá þeir sem sitja í teyminu eða ráðinu aðgang að upplýsingum um barnið þitt.

Ef foreldrar hafa beðið um þjónustuveitandi miðli upplýsingum til tengiliðar fær tengiliður aðgang að upplýsingunum. Tengiliður er oftast deildarstjóri stoðþjónustu ef barnið er í grunnskóla og sérkennslustjóri ef barnið er í leikskóla. Ef barn er með málstjóra er upplýsingunum miðlað til hans í staðinn. Málstjóri er oftast starfsmaður miðstöðvar eða barnaverndar. 

Ef málið hefur verið afgreitt með rafrænum hætti hefur rafræn miðstöð aðgang að þeim gögnum sem þarf til að tryggja rétta skráningu á upplýsingunum. 
Ef barnið er með samþætta þjónustu fá þau sem þjónusta barnið þitt aðgang að þeim gögnum sem þarf til að veita þjónustuna.

Að tilgreindum tíma liðnum er skylt að afhenda Borgarskjalasafni öll gögn um mál barna. 

Ferlið

Hvar get ég fylgst með stöðu mála?

Ef þú hefur sent inn beiðni eða sótt um þjónustu fyrir barnið þitt rafrænt er hægt að fylgjast með stöðu umsóknar á Mínum síðum. 

Ef þú hefur ekki sótt um rafrænt en mál barnsins er samt komið í ferli er best að hafa samband við tengilið barnsins. Tengiliður er oftast deildastjóri stoðþjónustu í grunnskóla eða sérkennslustjóri í leikskóla.
 

Þarf ég að fylla út eyðublöð?

Gert er ráð fyrir því að foreldrar fylli sjálfir út eyðublöð. Ef þú þarft aðstoð við að fylla út eyðublöð er hægt að fá hjálp hjá miðstöðvum, túlk, eða þjónustuveri borgarinnar.

Hver heldur utan um öll gögnin sem fylgja málinu?

Tengiliður heldur alla jafna utan um öll gögn sem fylgja máli barnsins. Tengiliður er oftast deildarstjóri stoðþjónustu í grunnskóla eða sérkennslustjóri í leikskóla.

Hvar get ég nálgast upplýsingar um mál barnsins míns?

Ef þú hefur sent inn beiðni eða sótt um þjónustu fyrir barnið þitt rafrænt er hægt að skoða gögn sem þú hefur sent inn á Mínum síðum. Þú sem forsjáraðili hefur rétt á því að óska eftir að sjá öll gögn sem tengjast þér eða barninu þínu. Ef þú vilt skoða einhver gögn og finnur þau ekki getur þú óskað eftir því með því að hafa samband við viðeigandi þjónustuveitanda. 

Hvað er biðtími eftir þjónustu langur?

Það fer eftir því hvaða þjónustu sótt er um. Styst er biðin eftir ráðgjöf hjá miðstöð. Um er að ræða 1–3 viðtöl við ráðgjafa sem getur gefið foreldrum ýmis ráð eða lagt til að málinu sé vísað áfram í frekari þjónustu. 

Bið eftir skoðun á vanda barns er oft löng. Sérfræðingar leggja mat á vanda barnsins þíns eins fljótt og auðið er, en oft er hægt að gera ráð fyrir töluverðri bið. Biðin er breytileg eftir því eftir hverju er verið að bíða. Bið eftir forathugun sálfræðings getur tekið allt að tvö ár, og það sama á við um talþjálfun. Bið eftir sérhæfðum námskeiðum eða öðrum ráðgjöfum skólaþjónustunnar er oftast styttri. 
 

Hvað er biðtími eftir greiningu langur?

Það fer eftir því hversu margir eru að sækja um þjónustuna á hverjum tíma. Það getur tekið allt að tvö ár að fá forgreiningu, og önnur tvö ár að fá lokagreiningu.

Af hverju eru biðlistar í kerfinu?

Þær geta verið margar, til dæmis:

  • Það er mikil eftirspurn eftir greiningum. 
  • Það tekur tíma að gera greiningar. Vanda þarf til verka þegar greiningar eru gerðar og það þarf að horfa á ýmsar hliðar málsins til að komast að niðurstöðu um hver er ástæða vanda sem barn glímir við. 
  • Það eru ekki nógu margir sérfræðingar eða fjármagn til að mæta eftirspurn hratt og örugglega.
  • Snemmtækur stuðningur er ekki nýttur nægilega mikið eða virkar ekki nægilega vel svo fólk sækir aðrar þjónustur sem eru í boði. 
     

Er hægt að fá forgang?

Já, miðstöð forgangsraðar öllum umsóknum í þrjá flokka eftir því hversu brýnt erindið er. Forgangsröðunin byggir á mati á þeim upplýsingum sem sendar eru inn þegar sótt er um þjónustuna. 

Hvað gerist ef barnið skiptir um skóla eða flytur?

Ef barnið skiptir um skóla eða flytur í annað hverfi eða sveitarfélag á fyrri tengiliður að sjá til þess að nýr tengiliður fái nauðsynlegar upplýsingar um aðstæður barnsins til að geta gegnt hlutverki sínu.

Greiningar

Hvað er forathugun?

Áður en farið er í fulla greiningu er gott að skoða hvernig vandinn lýsir sér helst. Forathugun er þegar verið er að rýna í tiltekin einkenni sem geta verið til staðar hjá barni, svo sem málþroska-, kvíða-, athygli-, einhverfurófseinkenni, eða einkenni námsvanda. 

Forathugun er stundum kölluð skimun, því þetta er snögg athugun á því hver staða barns er.
 

Hvað er átt við með greiningu eða að vera í greiningarferli?

Þegar verið er að bíða eftir greiningu eða rannsaka vanda barns er yfirleitt talað um greiningu eða að vera í greiningarferli. 

Hver ákveður að senda barn í greiningu?

Foreldrar barna í leik- og grunnskóla geta óskað eftir athugun, greiningu og ráðgjöf fyrir börnin sín. Auk þess geta skólastjórnendur, kennarar, náms- og starfsráðgjafar, eða eftir atvikum annað starfsfólk skólans eða skólaheilsugæslu, lagt fram ósk um sérfræðiaðstoð.

Allar greiningar verða að vera gerðar í samráði við og með samþykki foreldra og skulu þeir upplýstir um niðurstöðuna. 

Get ég sent barnið mitt í greiningu?

Samkvæmt lögum eiga foreldrar rétt á því að sækja um greiningu fyrir barnið sitt. Oftast er þó óskað eftir greiningu í samvinnu við skóla barnsins.

Greiningarferlið er hannað þannig að það þarf að fá upplýsingar um hegðun og líðan barna í mörgum aðstæðum. Börn eyða stærstum hluta af sínu lífi í skólanum og heima fyrir og þess vegna er ferlið hannað þannig að beðið er um álit bæði skóla og foreldra.

Ef skóli og foreldrar eru ekki samstíga í því að óska eftir greiningu eiga foreldrar samt rétt á því að sækja um. Fyrir foreldra í þeirri stöðu byrjar ferlið á því að bóka viðtal hjá ráðgjafa á miðstöð til að ræða málið.

Hvað gerist ef beiðni minni um greiningu er hafnað?

Ef beiðni um greiningu er hafnað er hægt að kæra ákvörðunina til mennta- og barnamálaráðuneytisins innan þriggja mánaða frá því að þér var tilkynnt um höfnunina. 

Hvernig er sótt um greiningu?

Þegar sótt er um skoðun á vanda barns þá fyllir foreldri inn einn hluta umsóknarinnar og skólinn fyllir út svipaða umsókn. Sérfræðingur á miðstöð skoðar svo báðar umsóknir og ber þær saman til að leggja mat á vandann. Byggt á þeirri skoðun forgangsraðar sérfræðingur málum.

Hafðu samband við grunn- eða leikskóla barnsins þíns eða miðstöð í þínu hverfi fyrir nánari upplýsingar um hvernig á að sækja um. Unnið er að því að gera þessar umsóknir rafrænar. 

Hver er munurinn á forathugun, frumgreiningu og lokagreiningu?

Þegar umsókn um skoðun á vanda barns hefur borist frá bæði foreldrum og skólum fer sérfræðingur á miðstöð yfir umsóknina. Sérfræðingur ber saman lýsingar þínar við lýsingar skólans. Sérfræðingur tekur einnig saman niðurstöður úr stöðluðum matslistum ef það á við. Þetta kallast forathugun. 

Stundum er niðurstaðan sú að vanda barnsins þurfi ekki að meta frekar. Oft er þó niðurstaðan sú að málinu er vísað áfram í frekari þjónustu.

Þegar frumgreining er gerð eru notaðir nákvæmari matslistar og horft er á barnið í mismunandi aðstæðum. Niðurstaðan úr því getur verið að barn uppfyllir skilyrði fyrir tiltekna greiningu eða að barn nái ekki tilteknum viðmiðum.

Stundum er ástæða til þess að vísa máli áfram í lokagreiningu. Það er til dæmis gert ef áhugi er á lyfjagjöf eða ef um flókinn og fjölþættan vanda er að ræða. Lokagreining er gerð hjá ríkinu.
 

Er áfram unnið að máli barnsins á meðan beðið er eftir greiningu?

Já, skólinn heldur áfram að mæta þörfum allra barna eftir bestu getu. Oft er mælt með því að unnið sé áfram með mál barns í lausnateymi. Þangað er hægt að leita aftur og aftur. Þar er staða barnsins kortlögð og leitað ráða. Gerð er aðgerðaráætlun og hún endurmetin og uppfærð eftir þörfum.

Börn með samþætta þjónustu og málstjóra eru með stuðningsteymi í kringum sig. Í stuðningsteymi barns vinnur hópur sérfræðinga að því að aðstoða barnið í samræmi við stuðningsáætlun.