Fjölmenningarráð

""

Fjölmenningarráð er borgarstjórn, nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar til ráðgjafar um málefni og hagsmuni borgarbúa sem eru innflytjendur.

Um ráðið

Ráðið stuðlar að hvers konar upplýsingagjöf og samstarfi Reykjavíkurborgar við hagsmunasamtök hópsins, mótar stefnu og gerir tillögur til borgarráðs sem varðar verksvið þess. Ráðið leitast við að tengja saman fjölmenningarleg samfélög á Íslandi og koma málefnum innflytjenda á framfæri.
 
Fjölmenningarráð Reykjavíkurborgar starfar í umboði borgarráðs með þeim hætti sem kveðið er á um í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019 og eftir því sem lög mæla fyrir um. 

Fulltrúar

Fjölmenningarráð er skipað fimm fulltrúum og jafnmörgum til vara. Auk þess tilnefnir fjölmenningarráð tvo áheyrnarfulltrúa til eins árs og tvo til vara. Nöfn fulltrúanna má finna hér til hægri og er þeim raðað þannig að efstu tveir aðalmenn eru tilnefndir af borgarstjórn. Næst koma í réttri röð fulltrúar tilnefndir af samtökum kvenna af erlendum uppruna W.O.M.E.N., Móðurmáli, samtökum um tvítyngi og Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. Borgarstjórn kýs formann ráðsins en fjölmenningaráð kýs sér varaformann og skiptir að öðru leyti með sér verkum.
 
Netfang fjölmenningarráðs: fjolmenningarrad@reykjavik.is
 

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í dag að birta yfirlýsingu um Fjölmenningarborgina Reykjavík í samræmi við þátttöku borgarinnar í verkefninu „Intercultural Cities“:

„Lykilhugmynd í þessari nálgun er að hugsa um ávinning fjölbreytileikans og að við horfum á innflytjendur sem drifkraft fyrir samfélagið og auðlind á bak við hagkerfi, félagslíf og menningu í borginni,“ segir Sabine Leskopf borgarfulltrúi og formaður fjölmenningarráðs borgarinnar og bætir við. „Við viljum gera Reykjavík að fjölmenningarborg þar sem allir njóta sín til fulls.“

Reykjavík er fjölmenningarborg

Við fögnum fjölbreytileika, jafnrétti, samskiptum og þátttöku allra.

Við erum stolt af því að vera borg þar sem margir menningarheimar mætast.

Við erum stolt af því hve langt við höfum náð í því að setja upp kynjagleraugun eða hinsegin gleraugun. Nú nýtum við okkur þessa reynslu og setjum upp fjölmenningargleraugun á sama hátt.

Við hvetjum önnur sveitarfélög og ríkið að taka þátt í þessari vegferð.

Við viljum að innflytjendur geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu með aðgang að öllu sem borgin hefur fram að færa og að þeir þekki réttindi sín.

Við tryggjum að fjölmenningarleg gildi endurspeglist í allri stefnumótun sem og þjónustu borgarinnar.

Við erum þakklát fyrir framlag innflytjenda í borgarlífinu.

Við viljum gera þessu jákvæða framlagi innflytjenda hærra undir höfði.

Við gerum okkur grein fyrir að fjölbreytileiki er undirstaða jákvæðrar þróunar. Þegar hver og einn fær tækifæri að njóta hæfileika sinna og sköpunarkrafta til fulls, þá græðum við öll á því.