Gátlisti byggjenda

Gátlisti byggjenda inniheldur allt sem þarf að gera eða skila inn til að fá formlega útgefið byggingarleyfi. Gátlistinn er sendur á umsækjanda eftir að mál er samþykkt á afgreiðslufundi. Athugið að samþykki á fundi gefur ekki leyfi til framkvæmda. Til þess þarf útgefið byggingarleyfi.

Skráning ábyrgðaraðila

Skráningar ábyrgðaraðila eru einn liður í því að fá útgefið byggingarleyfi. Um er að ræða skráningu byggingarstjóra og iðnmeistara ásamt greinargerð hönnunarstjóra. Skráningarnar eru fylltar út á Mínum síðum. Þegar allir aðilar hafa verið skráðir, er póstur sendur á alla með beiðni um að undirrita rafrænt með rafrænum skilríkjum.

Skráning berst ekki byggingarfulltrúa fyrr en allir hafa undirritað.

Gott að muna

  • Passið að netfang og kennitala séu rétt.
  • Ekki nota bandstrik "-" í kennitölu.
  • Skrifið USK eða BN númer (ekki BL númer).

Byggingarstjóri

Eigandi eða umsækjandi þarf að velja byggingarstjóra sem ber ábyrgð á verkinu og skrá þann einstakling rafrænt. Ef byggingarstjóri hættir umsjón með framkvæmdum áður en lokaúttekt fer fram þarf að senda inn umsókn um byggingarstjóraskipti.

Iðnmeistarar

Byggingarstjóri sér um að skrá iðnmeistara sem bera ábyrgð á ýmsum verkþáttum. Ef iðnmeistari hættir störfum áður en verkinu lýkur þarf að senda inn umsókn um iðnmeistaraskipti.

Greinargerð hönnunarstjóra

Hönnunarstjóri sér um að skrá hönnuði í greinargerð hönnunarstjóra. Það er ekki alltaf nauðsynlegt að skila þessu inn og er því beðið sérstaklega um þessa skráningu á gátlistanum ef hún er nauðsynleg.

Fletta upp réttindum

Upplýsingar eru sjálfkrafa sóttar úr réttindagátt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Það er því bara hægt að skrá einstaklinga með viðeigandi réttindi byggingarstjóra og iðnmeistara. Ef þú ert ekki viss um að einstaklingur hafi tiltekin réttindi getur þú flett upp starfsleyfum og löggildingum á vefsíðu HMS.

Gjöld

Greiða þarf viðeigandi gjöld samkvæmt gjaldskrám.

Eignaskiptayfirlýsingar

Ef verið er að fjölga eða fækka fasteignum, minnka þær eða stækka þarf að skila inn eignaskiptayfirlýsingu. Í sumum tilfellum þarf byggingarfulltrúi að staðfesta eignaskiptayfirlýsinguna áður en hægt er að gefa út byggingarleyfi.