Þjónusta sem skiptir máli

Ársskýrsla þjónustu- og nýsköpunarsviðs 2024

Menningar- og íþróttasvið

Menningar- og íþróttasvið leggur rækt við mannlífið í borginni með fjölbreyttum hætti. Sviðið rekur menningarstofnanir og íþróttamannvirki ásamt því að styðja við grasrótina í listalífi, íþróttum og barnamenningu. Það skipuleggur og styður við viðburði og hátíðir sem lífga upp á lífið í Reykjavík allt árið um kring.

Stafrænn vegvísir og breytt vinnulag

Í ársbyrjun voru unnin drög að stafrænum vegvísi fyrir sviðið. Áherslurnar voru flokkaðar í sex meginþætti og á árinu fór fram mikil innri vinna við að móta og styrkja nýtt svið.

Þrír nýir stjórnendur tóku til starfa og vann stafrænn leiðtogi þétt með stjórnendateyminu að því að greina stöðuna og leggja grunn að umbótum. Verkefnin voru flokkuð eftir áherslum: tækni, ferlar, þjónusta og mannauður.

Aukinn kraftur var settur í innleiðingu þjónustustefnunnar, og voru haldin bæði námskeið og kynningar fyrir starfsfólk til að tryggja sameiginlegan skilning og samstöðu um nýja nálgun.

Teikning af bókum, skautum, badmintonspaða, málverki og pylsu

Starfsfólk sem tileinkar sér breytingar

Starfsfólk menningar- og íþróttasviðs á hrós skilið fyrir að tileinka sér nýjar lausnir og aðlagast breyttum vinnubrögðum á árinu. Tækniteymi sundlauganna hefur verið fyrirmyndarteymi í þessari umbreytingu sem og starfsfólk Borgarsögusafns og Listasafns Reykjavíkur.

Vefverkefni og efnismiðlun

Vefir færðir yfir á reykjavik.is: Hitt húsið, Tónlistarborgin og Bókmenntaborgin lokuðu eldri Wordpress-vefjum og fluttu efni á reykjavik.is með aðstoð vefdeildar og skrifstofu þjónustuumbreytingar.

Nýr vefur Borgarbókasafnsins: Á árinu var unnin forgreining fyrir nýjan vef Borgarbókasafnsins, sem nú er í Drupal 7. Þarfagreining fór fram og rýnt var í lausnir Landskerfa bókasafna, þar á meðal virkni Minna síðna og svæði lánþega. Einnig voru skoðuð tækifæri til samvinnu bókasafna á höfuðborgarsvæðinu.

Ákveðið var að leita fleiri leiða eftir að tilboð núverandi þjónustuaðila þótti of hátt. Þrjár útfærslur voru rýndar og verða kynntar í ársbyrjun 2025.

Safnavefir: Nýir vefir fyrir Borgarsögusafn og Listasafn Reykjavíkur voru afhentir eigendum snemma árs og verkefnum formlega lokið.

Vefur Ljósmyndasafns: Seinni fasi hófst með forgreiningu í apríl. Lausn var afhent eiganda í september 2024.

Aðgengi og bókanir

Bókanir strandblakvalla: Sumarið 2024 var hægt að bóka alla strandblakvelli á vegum borgarinnar í gegnum bókunarlausnina Microsoft Bookings á reykjavik.is. Það hefur einfaldað aðgengi og aukið yfirsýn. Áfram verður unnið að tengingu annarrar aðstöðu, svo sem Gufunesbæjar og Ylstrandar.

Ný og betri fristund.is: Áfram var unnið að fristund.is þar sem framboð fyrir börn og fjölskyldur í frístundir verður aðgengilegt á einum stað. Lausnin byggir á gögnum frá ólíkum kerfum og leysir af hólmi eldri handvirkt uppfærðan vef.

Stafrænt borgarkort

Menningar- og íþróttasvið óskaði eftir því að farið yrði í útboð á lausn fyrir stafrænt borgarkort í kjölfar frumathugunar á sundkorti í símann.

Sami verkefnahópur og vann frumathugunina tók verkefnið áfram.

Ekki tókst að bjóða lausnina út fyrir áramót 2024, en gert er ráð fyrir því í upphafi árs 2025. 

Teikning af persónu halda á stóru greiðslukorti með lógó Reykjavíkurborgar.

Sundkort í símann

Frumathugun á stafrænni veskislausn fyrir sundkort og önnur plastkort sviðsins fór fram á fyrri hluta ársins. Skilað var jákvæðum niðurstöðum í maí. Tenging við afgreiðslukerfi og aðgangsstýringu tókst og greindar voru þær tæknilegu kröfur sem lausnin þarf að uppfylla til að nýtast borginni. 

Sundlaugar í eignaumsjón

Á árinu var farið af stað með að skrá sundlaugatæki og búnað inn í eignaumsjónarkerfi umhverfis- og skipulagssviðs, til að bæta yfirsýn og gera viðhald forvirkara.