Þjónusta sem skiptir máli
Ársskýrsla þjónustu- og nýsköpunarsviðs 2024
Miðlæg stjórnsýsla
Miðlæg stjórnsýsla borgarinnar er staðsett í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Hlutverk hennar er að halda utan um starfsemi borgarstjórnar og borgarstjóra Reykjavíkur ásamt öðrum kjarnaverkefnum sem snúa að stjórnsýslu.
Undir miðlæga stjórnsýslu falla skrifstofa borgarstjóra og borgarritara, skrifstofa borgarstjórnar, skrifstofa samskipta og viðburða, mannréttindaskrifstofa og borgarlögmaður.
Meðbyr með stafrænni vegferð
Á síðustu árum hefur samstarf milli miðlægrar stjórnsýslu og þjónustu- og nýsköpunarsviðs eflst jafnt og þétt.
Meðbyr með stafrænni vegferð hefur aukist og meðvitund um mikilvægi stafrænna lausna til að bæta þjónustu og einfalda dagleg störf er orðin sterkari.
Verkefni sem stuðla að betri yfirsýn
- Verkefnaskrá Borgarlögmanns: Yfirfærsla í Microsoft Lists á SharePoint. Samtals tólf listar voru samræmdir þannig að flokkun og yfirsýn yfir stöðu mála varð einfaldari og skýrari.
- Stafrænn borgarstjórnarsalur: Farið var yfir tæknistoðir og áskorun mótuð um hvernig mætti nýta salinn betur sem aðalfundarsal borgarinnar með nútímalegum stafrænum innviðum.
- Húsnæðisuppbyggingarkort: Kortið var uppfært með bættri framsetningu og aðgengi, sem veitir skýrari yfirsýn yfir stöðu húsnæðisuppbyggingar í borginni.
Innspýting Microsoft-lausna
Stafrænn leiðtogi hóf kerfisbundið mat á notkun veflausna innan stjórnsýslunnar á árinu. Bæði borgarlögmaður og innri endurskoðun voru með sérlausnir frá þriðja aðila og þurftu að greiða leyfisgjöld.
Í kjölfarið var farið í yfirfærslu yfir í Microsoft Lists, sem fullnægði öllum kröfum notenda og leiddi til meira samræmis og betri nýtingar á sameiginlegum innviðum borgarinnar.
Fundaumsjónarkerfi borgarstjórnar – Lóa
Undirbúningur og umsjón funda borgarstjórnar hefur hingað til krafist mikillar handavinnu.
Því var tekin ákvörðun um að innleiða stafræna lausn til að halda utan um atkvæðagreiðslur og mælendaskrá á fundum borgarstjórnar og að sjálfvirknivæða ferla og umhverfi fundanna.
Kerfið sem notað er á Alþingi varð fyrir valinu og hafist var handa við að aðlaga það að þörfum borgarstjórnar og tengja við önnur kerfi borgarinnar. Innleiðing hófst á árinu en heldur áfram árið 2025.