Upplýsingar um gagnaúttekt

Gögn LUKR eru geymd í landshnitakerfinu ISN93. Það byggist á keiluvörpun Lamberts með tveim snertibaugum, í 64° 15' og 65° 45. Úttektarkerfið býður einnig upp á að varpa gögnunum yfir í Reykjavíkurhnitakerfið en það kann að lengja lítillega þann tíma sem fer í vinnslu úttektar. Núverandi úttektarform gagna miðast við afhendingu á shape-formi (.shp) og dxf-formi (.dxf).

 

Notkunarleyfi

Notandi má afrita stafræn LUKR gögn yfir í tölvuminni eða tölvudiska og framleiða afleidd, stafræn gögn eða afurðir úr LUKR gögnum. Hann má aðeins nota framantalin gögn sjálfur eða starfsmenn hans, en má ekki afhenda þriðja aðila afrit af eða veita þriðja aðila aðgang að stafrænum LUKR gögnum og/eða afleiddum stafrænum gögnum/afurðum, nema með sérstökum samningi við Landupplýsingar á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur. 

Notanda er hins vegar heimil sala og dreifing afurða á pappírsformi, sem unnar eru úr stafrænum LUKR gögnum og gagnagjald hefur verið greitt af, en þau skilyrði eru sett, að á öllum slíkum afleiddum afurðum sé getið útgáfu- og höfundarréttar LUKR („copyright“) og einnig skal tilkynna Landupplýsingum um slíka útgáfustarfsemi.  Úttektarsamningurinn veitir notanda ekki rétt til að fá nýjar, uppfærðar og leiðréttar útgáfur af gagnasöfnum LUKR.

Ástand gagna

Öll gögn eru afhent eins og þau eru á hverjum tíma í gagnasöfnum LUKR, þegar afhending fer fram. Gæði gagnanna eru mismunandi eftir uppruna, bæði hvað nákvæmni og áreiðanleika varðar. Brýnt er að leita staðfestingar viðkomandi stofnunar á nákvæmni einstakra þátta gagnanna, áður en þau eru lögð til grundvallar framkvæmdum.

Landupplýsingar á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur er ekki ábyrg fyrir beinu eða óbeinu tjóni, sem notandi kann að verða fyrir vegna notkunar LUKR gagna eða afleiddra gagna af þeim.

Grunngögn grannsveitarfélaga

Grunnupplýsingar úr grannsveitarfélögum Reykjavíkur eru geymdar í LUKR og afhentar með leyfi viðkomandi sveitarfélaga, sem eru eigendur þeirra. Um þessar upplýsingar gilda almennir skilmálar vegna LUKR gagna einnig. Lagnir OR og Mílu ehf. í þessum sveitarfélögum tilheyra gagnasöfnum LUKR, enda eru þessi fyrirtæki aðilar að LUKR.

Athygli skal vakin á því að LUKR getur ekki sagt til um nákvæmni, uppfærslutíðni og flokkun þessara grunnupplýsinga. Notendum er því ráðlagt að snúa sér frekar beint til viðkomandi sveitarfélags, ef nefnd atriði skipta verulegu máli fyrir notkun þeirra og leita þar upplýsinga um gögnin.