Umbætur í náms- og starfsumhverfi leikskóla
Reykjavíkurborg vinnur að umbótum á náms- og starfsumhverfi leikskóla. Tillögurnar snúa meðal annars að skipulagi leikskóladagsins, dvalartíma barna og nýrri gjaldskrá. Markmiðið er að standa vörð um faglegt leikskólastarf, draga úr ófyrirséðri fáliðun og tryggja stöðugleika fyrir börn, foreldra og starfsfólk.
Tillögur að breytingum á gjaldskrá
Meðal breytinga í tillögunum er uppfærð gjaldskrá. Þú getur skoðað hvaða áhrif breytingarnar gætu haft á þín leikskólagjöld í reiknivél fyrir tillögurnar. Tekið er mið af heildartekjum heimilis á ári. Afsláttur fyrir starfsfólk og systkini er enn í gildi.
Samráðsgátt - Skoða tillögur
Samráði vegna umbóta á náms- og starfsumhverfi leikskóla er nú lokið.
Vinna hefst nú við að greina tillögur sem borist hafa.
Enn er hægt að skoða þær tillögur sem báurst.
Takk fyrir þátttökuna!
Um tillögurnar
Tillögur stýrihóps um umbætur í náms- og starfsumhverfi leikskóla voru til umræðu á fundi borgarráðs þann 2. október 2025 og má lesa um þær í gögnum fundarins. Samþykkt var að senda tillögurnar í samráð.
Spurt og svarað
Gjaldskrá og afslættir
Hver fá afslátt samkvæmt nýju gjaldskránni?
Tillögurnar taka mið af tekjum forsjáraðila og miðast við heildartekjur á ári samkvæmt skattframtali. Starfsfólks- og systkinaafslættir eru áfram í gildi.
Hvert er grunngjaldið fyrir 38 stunda vistun á viku?
Grunngjald er 16.000 kr. á mánuði fyrir 38 stunda vistun á viku. Að auki bætist við fæðisgjald.
Hvernig breytist námsgjaldið ef dvalartími fer yfir eða undir 38 klst?
Fyrir hvern hálftíma umfram 38 stundir bætast 4.000 kr. við námsgjaldið.
Fyrir fyrsta hálftímann undir 38 stundum lækkar gjaldið um 2.000 kr.
Eftir það lækkar gjald um 400 kr. fyrir hvern hálftíma.
Námsgjald fyrir 30 stundir er 8.000 kr.
Hvert er fæðisgjaldið í nýju gjaldskránni?
tillögunum helst fæðisgjald óbreytt. Það er 14.774 fyrir morgunmat, hádegismat og síðdegishressingu. Ef dvalartími er undir 35 klst. fellur síðdegishressing út og gjaldið verður 11.820 kr. Fæðisgjald tekur reglulegum breytingum.
Hvaða afsláttur er fyrir börn sem eru ekki í vistun eftir kl. 14 á föstudögum?
Veittur er 25% afsláttur af námsgjaldi.
Hvernig virka tekjutengdir afslættir?
Fyrir einstæða foreldra
- Árstekjur undir 6,5 m.kr. → 80% afsláttur af námsgjaldi
- Árstekjur á bilinu 6,5–9,5 m.kr. → 40% afsláttur af námsgjaldi
Fyrir hjón eða sambúðarfólk
- Árstekjur undir 9,5 m.kr. → 60% afsláttur af námsgjaldi
- Árstekjur á bilinu 9,5–12 m.kr. → 30% afsláttur af námsgjaldi
Hvað með afslætti fyrir öryrkja, einstæða og námsmenn?
Sérstakir afslættir fyrir þessa hópa falla niður. Í staðinn gilda tekjuviðmið sem tryggja afslátt fyrir þau sem hafa lægstu tekjurnar.
Hver fá starfsmannaafslátt?
Starfsfólk leikskóla Reykjavíkur fær 40% afslátt af námsgjaldi.
Leggjast afslættir saman?
Nei, hæsti afsláttur gildir og afslættir leggjast ekki saman.
Hvernig virkar systkinaafsláttur?
Systkinafsláttur er 100% af námsgjaldi fyrir eldra barn og af 100% afsláttur af fæðisgjaldi fyrir fleiri en tvö börn.
Dvalartími
Hvað þýðir að dvalarsamningar verði á milli 30–42,5 stundir á viku?
Hægt er að skrá börn í vistun í að lágmarki 30 stundir á viku. Sú viðvera nær yfir þann tíma dags sem faglegt starf leikskólans fer að mestu fram, eða um 5–6 stundir á dag. Hámarksdvalartími er 42,5 stundir á viku, sem jafngildir um 8,5 stundum á dag. Hægt er að velja mismunandi dvalartíma eftir dögum.
Hvernig breytist námsgjaldið ef dvalartími fer yfir eða undir 38 stundir?
- Fyrir hvern hálftíma umfram 38 stundir bætast 4.000 kr. við námsgjaldið.
- Fyrir fyrsta hálftímann undir 38 stundum lækkar gjaldið um 2.000 kr.
- Eftir það lækkar hver hálftími um 400 kr.
- Námsgjald fyrir 30 stundir er 8.000 kr.
Hvaða áhrif hefur styttri dvalartími á leikskólastarfið?
Styttri dvalartími gerir leikskólum kleift að skipuleggja faglegra og stöðugra starf. Hann auðveldar einnig að uppfylla samninga um breyttan vinnutíma starfsfólks og dregur úr líkum á þjónustuskerðingu vegna fáliðunar.
Hvernig er sótt um breytingu á dvalartíma?
Beiðni um breytingu á dvalartíma er send í gegnum Völu.
Leikskólastjóri þarf að samþykkja breytinguna og tekur hún gildi að jafnaði eftir einn mánuð.
Getur dvalartími verið mismunandi eftir dögum?
Já. Hægt er að velja mismunandi dvalartíma eftir dögum, allt eftir óskum og þörfum fjölskyldna. Hægt er að skoða mismunandi tíma í reiknivél til að sjá áhrif á gjöld.
Skráningardagar
Hvað eru skráningardagar?
Skráningardagar fylgja frídögum grunnskóla borgarinnar í kringum páska, vetrarfrí og jól. Á skráningardögum er vistun valkvæð. Ef óskað er eftir vistun fyrir barn á þessum dögum þarf að skrá það sérstaklega og greiða fyrir þá daga – 4000 kr. á dag.
Hvað kostar hver skráningardagur?
Hver skráningardagur kostar 4000 kr. sem leggst ofan á mánaðargjaldið.
Hvar og hvenær skrái ég barn á skráningardögum?
Lagt er til að skráning fyrir alla skráningardaga fari fram í september ár hvert. Skráning fer fram á minarsidur.reykjavik.is.
Hvað þýðir að skrá barn á skráningardögum?
Þegar barn er skráð á skráningardaga má það mæta í leikskólann þá daga. Skráningardagar eru ekki innifaldir í mánaðargjaldinu og kostar hver dagur 4000 krónur sem bætist við gjald mánaðarins.
Hvers vegna þarf að skrá barn á skráningardögum?
Skráningin hjálpar leikskólanum að skipuleggja starfsemina. Með henni er hægt að áætla hversu margt starfsfólk þarf að vera við störf og hversu mörg verða í mat.
Hvað ef barnið er ekki skráð á skráningardaga?
Ef barnið er ekki skráð á skráningardaga má það ekki mæta í leikskólann þá daga. Ef foreldrar nýta enga skráningardaga frá september til apríl, fellur námsgjaldið í maí niður.
Mönnun og fáliðun
Hvernig er skipulagt hversu margt starfsfólk þarf á hverjum tíma dags?
Áhersla er lögð á hámarksmönnun miðað við barnafjölda frá kl. 8–16 mánudaga til fimmtudaga og frá 8–14 á föstudögum. Á öðrum tímum er gert ráð fyrir minni mannaflaþörf.
Hvaða áskoranir hafa verið í tengslum við vinnuskyldu starfsfólks og dvalartíma barna?
Starfsfólk vinnur 36 stundir á viku en mörg börn dvelja í 40 stundir eða meira á viku. Þetta veldur misræmi og skapar álag á starfsfólk, börn og foreldra. Tillögurnar eru liður í því að samræma þetta betur.
Hversu margir leikskólar þurftu að grípa til fáliðunaraðgerða árið 2024?
49 af 67 borgarreknum leikskólum þurftu að grípa til slíkra aðgerða einhvern tíma á árinu. Í flestum tilfellum var það vegna öryggissjónarmiða vegna of fárra starfsmanna.
Leikskólastarf, leyfi og opnunartímar
Hvenær verða leikskólarnir opnir?
Leikskólar verða áfram opnir frá klukkan 7:30–16:30 alla virka daga.
Leikskólar eru lokaðir sex daga á ári vegna skipulagsdaga. Þar af eru þrír á sama tíma og starfsdagar starfsfólks eða frídagar nemenda í grunnskólum. Skipulagsdagar eru birtir í skóladagatali og auglýstir með góðum fyrirvara.
Leikskólar eru lokaðir á aðfangadag, gamlársdag og í að meðaltali 20 virka daga vegna sumarleyfa.
Hvernig verður leikskólastarfi háttað í kring um jól, nýár, dymbilviku og í vetrarfríum?
Leikskólinn verður opinn börnum sem skráð eru í vistun á skráningadögum. Mönnun verður í samræmi við fjölda barna sem óska eftir vistun þessa daga. Kostnaður er 4000 kr fyrir hvern skráningardag.
Hvenær er sumarleyfi í leikskólanum?
Börn í leikskólum Reykjavíkur taka að lágmarki tuttugu virka daga í sumarleyfi. Leikskólastjóri ákveður hvort leikskólinn verði opinn allt sumarið eða loki samfellt í 10–20 virka daga. Ef leikskólinn sem barnið er í er opinn allt sumarið er hægt að óska eftir að skipta upp sumarleyfinu í tvo hluta. Beiðni um að skipta upp sumarleyfi barns skal senda til viðkomandi leikskólastjóra.
Hvað þýðir að leikskólinn skipuleggi helstu þætti skólanámsskrár innan 5–6 stunda á dag?
Allar stundir í leikskólanum eru gæðastundir sem miða að aldri, þroska og aðstæðum barna. Hins vegar skal leikskólinn leitast við að skipuleggja helstu þætti skólanámskrár innan 5–6 stunda á dag, á fyrirsjáanlegan og markvissan hátt.
Leikskólastjóri ákveður nánar hvernig þessi tími er nýttur. Þá fer fram meginstarf leikskólans: faglegt starf byggt á aðalnámskrá, stefnu og hugmyndafræði leikskólans og menntastefnu Reykjavíkur.
Undir þetta fellur meðal annars hópastarf, vettvangsferðir, leikur undir leiðsögn kennara og uppeldisfræðilegar skráningar. Utan þessa tíma er skipulag frjálslegra og leggur áherslu á frjálsan, sjálfsprottinn leik, öryggi, vellíðan og einstaklingsbundna umönnun.