Þekkir þú ofbeldi?

Hér eru dæmisögur af fólki í ýmsum erfiðum aðstæðum. Stundum getur verið erfitt að átta sig á muninum á tímabundnum slæmum samskiptum og ofbeldi. Lestu sögurnar og svaraðu því hvað þú heldur að sé ofbeldi.

Dæmisögur

Bylgja

Bylgja er nýflutt að heiman í litla en mjög kósí íbúð stutt frá háskólanum. Í fyrstu finnst henni leigusalinn vingjarnlegur og hjálpsamur en þegar hann fer að banka upp á oft í viku til að athuga eitthvað með íbúðina verður það fljótt uppáþrengjandi. Hún biður hann um að koma ekki óvænt en hann gerir það samt. Hann hringir líka stundum í hana til að spjalla. Hana langar að sleppa því að svara en óttast að símtalið sé eitthvað varðandi íbúðina.

Eitt kvöldið sýnist henni leigusalinn sitja reykjandi í bíl hinumegin við götuna. Þegar hún sér hann fyrir utan skólann sinn þorir hún ekki heim heldur fer til vinkonu sinnar.

Er þetta ofbeldi? 

Já, þetta er ofbeldi.

Að áreita einhvern með óumbeðinni athygli eða samskiptum, hvort sem er í persónu eða gegnum síma, sem er ekki hætt þegar beðið er um er ofbeldi. Eltihrellar nota þessa hegðun til að ógna og stjórna annarri manneskju.

Eltihrellar geta verið ókunnugir en eru oftast tengdir manneskjunni á einhvern hátt, til dæmis fyrrverandi maki eða einhver sem er í reglulegum samskiptum við hana.

Lesa um eltihrelli.

Ingvar

Ingvar er 13 ára og æfir körfubolta. Nýi þjálfarinn hans er hress og unglegur þótt hann sé kominn yfir þrítugt. Þjálfarinn býður stundum strákunum heim til sín eftir æfingu að horfa á bíómyndir um körfubolta. Eitt skiptið mætir Ingvar bara einn og þá hrósar þjálfarinn honum og játar að Ingvar sé uppáhaldið hans.

Eftir það fara þeir að hittast einir og verða góðir vinir án þess að nokkur viti af því. Leyndarmálið veldur því að Ingvar fjarlægist vini sína og fjölskyldu. Þjálfarinn gefur honum föt og áfengi og nuddar hann oft eftir æfingar. Í eitt skiptið horfa þeir á klám saman og það endar í kynmökum. Ingvari finnst þetta spennandi en eitthvað er samt að naga hann. Hann langar að segja einhverjum frá en þorir því ekki núna.

Er þetta ofbeldi?

Já. Þetta er ofbeldi.

Það er ofbeldi þegar eldri og reynslumeiri manneskja tælir ungmenni til kynferðismaka. Tæling byrjar með því að vinna traust þolandans. Sá sem tælir gefur gjafir og peninga, hrósar og veitir athygli, deilir leyndarmálum og byggir upp samkennd. Samskiptin eru leynileg og þannig einangrast þolandinn.

Tæling getur verið í persónu eða á netinu, gegn börnum og ungmennum. Tælingu getur líka verið beitt gegn ungu fólki og fullorðnum einstaklingum í viðkvæmum stöðum.

Lesa um tælingu.

Linh

Linh er 30 ára kona frá Víetnam. Hún og Jón eru gift og eiga 2 börn á leikskólaaldri. Henni fannst erfitt að flytja ein frá Víetnam fyrir 5 árum og þekkir fáa hér á landi. Hún talar ekki ensku en kann íslensku orðið ágætlega.

Jón var í fyrstu duglegur að passa upp á að henni leiddist ekki en eftir að hann missti vinnuna fór hann að drekka meira og varð þyngri í skapinu. Það virðist vera alveg sama hvað Linh gerir, þá finnur Jón eitthvað að því. Eitt skipti þegar Linh er á leiðinni út til að hitta aðrar mömmur af leikskólanum stendur Jón ógnandi í vegi fyrir henni í dyrunum og leyfir henni ekki að komast út.

Er þetta ofbeldi?

Já, þetta er ofbeldi.

Að ógna með svipbrigðum eða líkamanum er ofbeldi. Endurtekin gagnrýni og einangrun eru merki um ofbeldi í sambandi.

Erlendar konur á Íslandi eru sérstaklega útsettar fyrir ofbeldi. Gerendur nýta sér oft veika stöðu þeirra og gefa þeim jafnvel rangar upplýsingar um rétt þeirra og hvaða aðstoð er í boði.

Áslaug

Áslaug er í stormasömu sambandi og er sífellt að segja manninum sínum hvað henni finnst ekki í lagi í samskiptum þeirra en hann fer sífellt yfir mörkin hennar. Eftir að hún varð ólétt hefur ástandið bara versnað. Hún er farin að forðast að tala um vissa hluti því þá verður hann bara reiður.

Áslaug veit vel að hún er enginn engill sjálf og hún gerir oft eitthvað sem hún veit að gerir hann reiðan. Áslaug hefur öskrað og ýtt við honum til baka til að komast úr ofbeldisaðstæðum. Hann hefur aldrei lamið hana en heldur henni stundum fastri og kastar hlutum.

Er þetta ofbeldi?

Já þetta er ofbeldi

Að hlusta ekki á maka þinn, fara yfir mörk hans, kasta hlutum og líkamlegar þvinganir, eins og að halda manneskju fastri, er allt ofbeldi. Oft byrjar ofbeldið í sambandinu eða versnar þegar konan verður ólétt.

Samband sem er „stormasamt“ gæti mögulega verið ofbeldissamband. Þolendum finnst þeir oft líka beita ofbeldi þegar þeir svara fyrir sig en við nánari athugun er oftast auðvelt að átta sig á hvor er valdameiri og er því líklegri til að vera stjórnandinn í aðstæðunum.

Fjóla

Eftir að barnsfaðir Fjólu fór skyndilega frá henni og 3 ára stelpunni þeirra, Ásdísi, leitaði hún meira og meira í áfengi. Því meira sem Fjóla drekkur því oftar gerist það að hún reiðist við Ásdísi sem er mjög lík pabba sínum. Fjóla hefur oft hreytt í Ásdísi að það sé henni að kenna að pabbi hennar fór frá þeim eða segir henni að fara inn í herbergi því hún getur ekki horft upp á hana.

Nágrannakona Fjólu passar oft Ásdísi en þegar Fjóla sækir ekki dóttur sína eitt skiptið fyrr en morguninn eftir veit nágrannakonan ekki alveg hvað hún eigi að gera.

Er þetta ofbeldi

Já þetta er ofbeldi

Að segja barni að það sé einskis vert eða að einhverjum þyki ekki vænt um það er andlegt ofbeldi. Það er vanræksla að skilja barn eftir hjá einhverjum óeðlilega lengi. Í þessum sporum ætti nágrannakonan að láta Barnavernd vita um aðstæður barnsins svo hægt sé að aðstoða Fjólu og Ásdísi.

Ofbeldi gegn börnum

Er einhver að meiða þig eða særa heima? Eða þekkirðu barn eða ungling sem líður illa út af ofbeldi? Ef þú hringir í 112 getur lögreglan hjálpað. Börn geta líka hringt í 1717 sem er hjálparsími Rauða krossins eða notað netspjallið þeirra.

Friðrik

Friðrik rakst einu sinni á aðgangsorðin á samfélagsmiðla sem kærastan hans, Katla, notar og lagði þau á minnið. Hann skráir sig stundum þar inn án þess að hún viti til að skoða skilaboðin hennar. Hann skoðar líka reglulega símann hennar og stillti á „deila staðsetningu“ á Snapchat hjá henni til að sjá hvar hún er. Hann veit að hann ætti ekki að gera þetta en getur ekki hamið sig, hann er svo hræddur um að Katla sé að halda fram hjá.

Eitt kvöldið þegar Katla segist vera að fara út að hitta gamla bekkjarfélaga úr menntaskóla lenda þau í rifrildi því Friðrik er handviss um að Katla sé að fara að halda framhjá. Það endar með því að Friðrik hótar að drepa hana ef hún fer út.

Er þetta ofbeldi?

Já, þetta er ofbeldi.

Það er ekki í lagi að njósna um athafnir annarra og fylgjast með ferðum þeirra og alls ekki í lagi að stela lykilorðum annarra. Það er stafrænt ofbeldi. Hótun um sjálfsmorð getur verið andlegt ofbeldi þegar því er beitt sem stjórnunartæki.

Sjúk ást

Er ástin sjúklega mikil eða er hún „sjúkleg“?

Hulda

Hulda er búin að vera í sambandi með Elísu í næstum eitt ár. Hulda er mjög hrifin af Elísu en líður ekki alveg nógu vel. Hún hefur ekki enn hitt fjölskyldu Elísu þrátt fyrir að hana langi til þess. Elísa segir alltaf að það sé út af einhverju drama fyrrverandi kærustu sinnar en Hulda er hrædd um að ástæðan sé að hún sé trans kona.

Þegar Hulda gengur á Elísu með þetta segir Elísa að hún vilji ekki kynna hana fyrir fjölskyldu sinni nema Hulda fari í leiðréttingaraðgerð.

Er þetta ofbeldi?

Já, þetta er ofbeldi.

Að afneita sambandi, eins og með því að kynna ekki maka fyrir fjölskyldu sinni, og að þrýsta á líkamlegar breytingar er bæði andlegt ofbeldi.

Hinsegin fólk verður frekar fyrir fordómum og mismunun í samfélaginu en þau sem eru ekki hinsegin og það hefur í för með sér álag, oft nefnt öráreiti. Auk þess getur hinsegin fólk verið beitt ofbeldi heima. Þannig eru engir staðir öruggir og áfallið enn meira.

María

María er fötluð kona sem þarf aðstoð við ýmsar athafnir í daglegu lífi. María býr í íbúðakjarna þar sem henni líður oftast vel. Henni finnst samt stundum að sumir starfsmenn taki ekki tillit til hennar þarfa.

Hún átti erfiðan morgun og starfsmaðurinn sem var að hjálpa henni, Björn, var ekki sáttur við hvernig hún talaði til hans. Núna segir Björn ekkert þegar María talar við hann heldur hunsar hana. Þögnin er svo þrúgandi að hún þorir ekki að biðja um hádegismat þótt hún sé mjög svöng.

Er þetta ofbeldi?

Já þetta er ofbeldi.

Að nota þögn eða fýlu sem stjórntæki er andlegt ofbeldi. Það getur alltaf komið upp ágreiningur milli aðila í sambandi og stundum erfitt að átta sig á hvað er andlegt ofbeldi. Það er alltaf ofbeldi þegar annar aðilinn hefur yfirtökin og notar það til að fá sínu framgengt.

Rannsóknir sýna að fatlað fólk er líklegra til að verða fyrir ofbeldi en ófatlað fólk. Á sama tíma er oft ekki hlustað á fatlaða þolendur og mál þeirra jafnvel þögguð niður.

Einhverf kona segir frá

Fatlað fólk á rétt á vera öruggt og að á það sé hlustað í erfiðum aðstæðum.

Ólafur

Ólafur er nægjusamur maður sem er nýorðinn 80 ára og býr enn á eigin heimili. Eitt barnabarna hans, Hrafnhildur, hjálpar honum oft við hluti sem eru honum erfiðir, eins og að fara út í búð og borga reikninga. Ólafur lét Hrafnhildi fá aðgang að netbankanum sínum í þessum tilgangi.

Nokkrum mánuðum seinna þegar Ólafur ætlaði að kaupa sér nýjan sófa kemur í ljós að Hrafnhildur hafði millifært reglulega af reikningnum hans yfir á sig. Hann heldur fyrst að þetta sé misskilningur en þegar hann spyr Hrafnhildi segir hún að sér finnist hún eiga þetta skilið og ætli ekki að borga honum til baka.

Er þetta ofbeldi?

Já, þetta er ofbeldi.

Ef einhver notar peningana þína í leyfisleysi er það fjárhagslegt ofbeldi. Önnur dæmi um fjárhagslegt ofbeldi er að skrá þig fyrir sameiginlegum skuldum, koma í veg fyrir að þú sjáir upplýsingar um sameiginlegan bankareikning, setja þína peninga á sinn bankareikning og skammta þér peninga.

Eldra fólk þarf oft á aðstoð að halda frá öðrum og er því útsettara fyrir ofbeldi en margir aðrir hópar. Sumt eldra fólk gerir sér jafnvel ekki grein fyrir að verið sé að beita það ofbeldi.

Andri

Andri var mjög glaður þegar hann sópaði myndinni af Helgu til hægri og komst að því að hún hafði líka áhuga á honum. Þau voru í sama menntaskóla, Helga einu ári eldri, vinsæl og miklu sætari – að Andra mati. Þau byrja að spjalla gegnum appið og fara fljótlega að daðra.

En nú líður Andra mjög illa, Helga bað hann um nektarmynd af sér og ætlaði að senda af sér til baka sem hún gerði svo aldrei. Helga sendi myndina á vini sína og nú eru þeir allir að mæla út nakinn líkama Andra. Helgu finnst þetta allt saman fyndið og gerir lítið úr mótmælum Andra. Hún birti meira að segja spjallið þeirra á Insta og allir krakkarnir í skólanum eru búnir að læka það.

Er þetta ofbeldi?

Já þetta er ofbeldi

Að dreifa kynferðislegum myndum af öðrum án leyfis er stafrænt kynferðisofbeldi og getur haft langvarandi áhrif á líf viðkomandi. Það er líka ofbeldi að senda öðrum kynferðislegar myndir án þess að vilji sé fyrir hendi eða þrýsta á aðra til að senda kynferðislegar myndir, til dæmis gegn greiðslu.

Lára

Á fyrstu mánuðum sambandsins fannst Láru aðdáunarvert og sexý hversu auðvelt var að tala við Þránd um kynlíf. En með tímanum virtist þörf hans fyrir að ræða og stunda kynlíf bara aukast og henni fór að finnast það óþægilegt. Sérstaklega þegar hann sagði henni frá nauðgunarfantasíu sem hann var með.

Eina nóttina vaknar Lára upp við að Þrándur er að stunda mök með henni. Hún veit ekki hvað hún á að gera svo hún gerir ekki neitt. Eftir á þakkar Þrándur henni, snýr sér á hina hliðina og sofnar.

 

Er þetta ofbeldi?

Já, þetta er ofbeldi.

Sofandi eða meðvitundarlaust fólk getur ekki veitt samþykki fyrir kynlífi. Það skiptir engu máli hvort aðilar séu í ástarsambandi eða ekki, kynferðismök án samþykkis er kynferðislegt ofbeldi. Í mörgum tilvikum kynferðisofbeldis er sá sem beitir ofbeldinu einhver sem þolandinn þekkir.

Haukur

Haukur er nýlega byrjaður með Kalla sem er þó nokkuð eldri en hann. Sambandið er nýtt og spennandi og Haukur er mjög ástfanginn. Kalli er fyrsti kærasti Hauks sem er ekki ennþá tilbúinn að koma út gagnvart fjölskyldu sinni.

Kalli hefur nokkrum sinnum sagt við Hauk að hann sé ekki nógu hommalegur í útliti. Hauki sárnar við það en hugsar að Kalli hafi kannski rétt fyrir sér. Eftir nokkra mánuði fara þeir að rífast æ oftar. Kalli tönglast á því að Haukur sé ekki raunverulegur hommi fyrst hann hafi verið áður í sambandi með stelpu og hótar að „outa“ Hauk.

Er þetta ofbeldi?

Já, þetta er ofbeldi.

Að hóta og gagnrýna endurtekið er andlegt ofbeldi. Það getur auðvitað alltaf komið upp ágreiningur milli aðila í sambandi og stundum erfitt að átta sig á hvað er andlegt ofbeldi. Það er alltaf ofbeldi þegar það er valdaójafnvægi, til dæmis vegna aldurs og reynslu, og valdameiri aðilinn notar það til að fá sínu framgengt.

Í ofanálag við annað ofbeldi getur hinsegin fólk átt hættu á að hinseginleiki þess sé nýttur til að beita það ofbeldi.

Sönn saga um andlegt ofbeldi

Hans var í fjögur ár í andlegu ofbeldissambandi með eldri manni. Til að byrja með var sambandið gott en síðan fór kærastinn að setja í sífellu út á Hans. Kærastinn stjórnaði fjárhag þeirra, heimilishaldi og sambandi Hans við fjölskyldu og vini. Þannig var stöðug pressa á þúsund litlum punktum.

 

Kristjana

Kristjana er listakona og Jói eiginmaður hennar vinnur í banka. Jói bauðst til að hafa umsjón með fjármálunum þeirra þar sem það er hans sérsvið. Í fyrstu var hún fegin því en núna finnst henni óþægilegt að hafa ekki aðgang að bankareikningum þeirra. Henni finnst líka ósanngjarnt að Jói neiti stundum að láta hana fá pening fyrir nauðsynjahlutum þrátt fyrir að hann kaupi sjálfur tóbak og áfengi fyrir peningana þeirra.

Þegar hún biður Jóa um að koma sér inn í fjármálin þeirra gerir hann alltaf lítið úr því með hnyttnum svörum um að þetta sé of flókið fyrir hana og að hún þurfi ekki að hafa áhyggjur og spyr hvort hún treysti honum virkilega ekki fyrir fjármálunum.

Er þetta ofbeldi?

Já þetta er ofbeldi.

Já, þetta er ofbeldi.

Það er fjárhagslegt ofbeldi þegar einhver stjórnar því hvernig þú notar peningana þína eða notar sameiginlega peninga án leyfis. Það er eðlilegt að ágreiningur komi upp milli aðila í sambandi en það er ofbeldi þegar annar aðilinn hefur yfirtökin og notar þau til að ná sínu fram gegnt vilja hins.

Að gera maka sinn fjárhagslega háðan sér er eitt af stjórntækjum geranda í ofbeldissambandi.

Katrín

Katrín var búin að vera einhleyp í töluverðan tíma þegar hún kynnist Sigga. Hann er mjög heillandi og hress. Katrín hefur aldrei skemmt sér eins vel. Allt gerist mjög hratt og eftir nokkra mánuði flytur Siggi inn til hennar. Þau eru mikið saman og þegar þau eru í sundur hringjast þau mikið á og senda skilaboð.

Undanfarið er farið að bera á afbrýðisemi hjá Sigga. Hann ásakar Katrínu um að daðra við aðra karlmenn og finnst hún klæða sig í alltof flegin og þröng föt. Þótt hann segi það aldrei berum orðum þá er eins og hann vilji ekki að hún hitti vinkonur sínar. Katrín fer að passa hvernig hún hegðar sér og hvað hún segir svo að Siggi verði ekki reiður út í hana.

Er þetta ofbeldi?

Já þetta er ofbeldi.

Að ásaka maka sinn um daður og reynir að stjórna því með skapofsa hvernig hann klæðir sig og hverja hann hittir er andlegt ofbeldi.

Það getur verið erfitt að átta sig á stjórnun sem er ekki sögð beinum orðum. Að nota reiði, fýlu eða þögn til að fá aðra til að gera eins og maður vill er líka stjórnun.

Huang-Kai

Huang-Kai var ráðinn til að vinna sem kokkur á veitingahúsi í Reykjavík. Vinnuveitandi hans útvegaði honum gistingu í nágrenninu og lofaði að senda hluta af laununum hans út til fjölskyldu hans.

Þegar Covid byrjaði þá breyttist framkoma vinnuveitanda í garð Huang-Kai, skyndilega var vegabréfið tekið af honum og hann fékk engin laun. Huang-Kai var bannað að fara út af veitingastaðnum, vinnuveitandinn setti staðsetningarforrit í símann hans og hann var látinn sofa á gólfinu í eldhúsinu á veitingastaðnum.

Er þetta ofbeldi?

Já þetta er ofbeldi.

Að borga einhverjum ekki laun fyrir vinnu sína er lögbrot og getur verið eitt af mörgum einkennum mansals. Að halda einstaklingi innilokuðum og taka af honum vegabréf er einkenni mansals. Þú getur komið í veg fyrir mansal með því að fylgjast vel með fólki í þínu nánasta umhverfi, þekkja einkennin og tilkynna það til 112.

Bella

Bella er ung stúlka frá Suður-Ameríku sem kom til Íslands til að vera au-pair á íslensku heimili. Hún finnst gaman að passa börnin og matreiða öðru hvoru eins og samið var um. Fljótlega fara störfin að þyngjast og ætlast er til að hún vinni fleiri tíma á dag en er löglegt.

Þegar hún er lánuð til að þjóna í veislum hjá vinum fjölskyldunnar auk þess að fá minni vasapening en hún á að fá gerir Bella athugasemd. Fjölskyldan hótar að hún missi dvalarleyfið og að samningnum verði rift ef hún gerir mál úr þessu.

Er þetta ofbeldi?

Já þetta er ofbeldi.

Í þessu tilviki hefur fjölskyldan ekki leyfi til að láta Bellu vinna önnur störf en að passa börn og létt heimilisverk, hún má ekki vinna meira en 5 tíma á dag og á að fá greitt eins og samið var um. Annars verið að nýta starfskrafta manneskju í eigin þágu sem er mansal og mansal er ofbeldi.

Manneskja hefur rétt á að henni sé ekki hótað. Að nýta sér ótta manneskjunnar og óöryggi í nýju landi með hótunum er leið til að hafa stjórn á henni og er hluti af aðferðum gerenda mansals.

Mihael

Michael er nýfluttur til Íslands í gegnum félaga sinn Fred sem hafði lofað að útvega honum vinnu og gistingu. Til að byrja með voru þetta hlutastörf við þrif en fljótt fór Fred að taka hann með í bíltúra að næturlagi að skoða hús í hverfum borgarinnar. Eitt skiptið skorar Fred á Michael að brjótast inn í hús með kúbeini og hótar að skaða börnin Michaels ef hann gerir það ekki.

Michael óttast Fred og fer að brjótast inn í hús sem Fred velur. Hann þorir ekki að neita Fred þó að Fred hirði allan ágóðann úr innbrotinu.

Er þetta ofbeldi?

Já þetta er ofbeldi.

Já, þetta er ofbeldi. Að neyða einhvern til að fremja glæp fyrir sig jafngildir sekt þess sem þvingar. Þetta kallast að hagnýta manneskju og það er mansal.

Hluti af aðferðum gerenda mansals er að nýta sér viðkvæmar aðstæður manneskju í nýju landi með hótunum og það er leið til að hafa stjórn á henni. Það getur verið erfitt að sjá merkin því þau eru oft falin. Þótt einhver beiti mann hótunum um ofbeldi er alltaf hægt að leita sér aðstoðar. Fyrsta skrefið er að hafa samband við 112 og fá ráðleggingar um hvernig sé hægt að komast út úr þessum aðstæðum.

Miriam

Miriam var svipt frelsi sínu og neydd til að stunda vændi í heimalandi sínu. Það næsta sem hún veit er að hár hennar er klippt og litað og hún er send í flugvél til Íslands með fölsuð skilríki. Á Íslandi er hún látin stunda vændi áfram, án þess að fá nokkru um það ráðið.

Miriam á enga peninga né vini sem hún getur leitað til. Hún þorir ekki að andmæla aðstæðum sínum því þá verður fjölskylda hennar heima í Lettlandi beitt ofbeldi. Hún veit ekki hvert hún verður send næst eða hvernig hún kemst út úr þessum vítahring.

Er þetta ofbeldi?

Já þetta er ofbeldi.

Margir tengja orðið vændi við kynlífsmansal. Að selja vændi er löglegt á Íslandi en það er ólöglegt að einhver annar hagnist á að selja aðgang að líkama manneskju.

Ef einhver hótar þér eða fjölskyldu þinni ofbeldi ef þú neitar að gera eitthvað, þá er það andlegt ofbeldi.

Það er hægt að brjótast út úr vítahringnum með því að leita sér aðstoðar hjá 112. Þar eru fagaðilar sem geta leitt þig í gegnum ferlið, skref fyrir skref, án þess að tefla öryggi þínu í hættu.

Fatima

Fatima er írönsk stúlka sem fluttist hingað með fjölskyldu sinni fyrir nokkrum árum. Hún er í 8. bekk í grunnskóla í Reykjavík og á marga góða vini í bekknum, bæði af íslenskum og erlendum uppruna. Undanfarnar vikur hefur Fatima labbað heim með Jóhanni bekkjarfélaga sínum og finnst það gaman af því hann er fyndinn, skemmtilegur og klár.

Bróðir Fatimu er ekki hrifinn af vináttu þeirra og gefur Jóhanni illt auga í hvert sinn sem þeir mætast. Stuttu seinna tæklar hann Jóhann harkalega í íþróttum en Jóhann gerir ekki mál úr því. Fatima og Jóhann hittast óvænt úti í sjoppu eitt kvöldið og tala lengi saman. Daginn fyrir sumarfrí birtist pabbi hennar skyndilega í skólanum og fylgir henni heim. Sumarið líður án þess að neinn hitti Fatimu og þegar skólinn byrjar aftur kemur Fatima ekki í skólann.

Er þetta ofbeldi?

Já þetta er ofbeldi.

Já, það er ofbeldi þegar þú hefur ekki frelsi til að sækja menntun eða eiga samskipti við þá sem þú vilt. Þetta er líklegt til að vera heiðursofbeldi, sérstaklega ef gerendur eru fjölskylda þolanda sem kemur af öðrum menningarheimi. Ungum stúlkum hefur verið meinað að snúa aftur til Íslands þegar fjölskyldunni finnst þær orðnar of vestrænar eða hafa aðlagast nýju menningunni of mikið.

Upplýsingar

Sögurnar eru fengnar af vef 112. 

Netspjall 1717 er alltaf opið. Trúnaði og nafnleynd er heitið. Ekkert vandamál er of lítið eða stórt.

Smellið hér fyrir netspjall 1717.

Hafðu samband

  • Vinsamlegast hafið samband við Halldóru Dýrleifar Gunnarsdóttur vegna Saman gegn ofbeldi.

  • Netfang: halldora.gunnarsdottir@reykjavik.is

  • Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar.