Líðan hinsegin barna og ungmenna

Rannsóknir á Íslandi

Í greininni „Psychological Well-Being of Sexual Minority Young Adults in Iceland: Assessing Differences by Sexual Attraction and Gender“ (2017) er greint frá niðurstöðum rannsóknar þar sem líðan sam- og tvíkynhneigðra nemenda var borin saman við líðan gagnkynhneigðra nemenda í könnun sem var lögð fyrir íslenska menntaskólanemendur árið 2013 (Youth in Iceland). Skoðað var þunglyndi, reiði og upplifun af streitu og voru niðurstöðurnar greindar eftir kyni. Þær sýndu að sam- og tvíkynhneigð ungmenni, stelpur og strákar, búa við verri líðan en gagnkynhneigð ungmenni. Staða stúlkna var sérstaklega slæm, en bæði sam- og tvíkynhneigðar stúlkur upplifa meiri reiði en gagnkynhneigðar stúlkur, og mældust tvíkynhneigðu stúlkurnar með lang verstu líðanina af öllum hópunum. Árið 2010 var birt greinin „Lífsánægja samkynhneigðra unglinga í 10. bekk“, en í henni var sagt frá því að samkynhneigðir unglingar mátu lífsánægju sína mun lakari en gagnkynhneigðir jafnaldrar sínir. Þá var kynjamunur meðal samkynhneigðra nemenda, en samkynhneigðir stúlkur mátu lífsánægju sína lægsta.

Staðan trans barna

Lítið er um rannsóknir og opinberar tölur á Íslandi um trans fólk og þá sérstaklega trans börn, en af viðtölum að dæma sem og tölulegum upplýsingum frá öðrum löndum er trans fólk verr statt en annað þegar litið er til geðheilsu, líkamlegrar heilsu, menntunar og fjárhagsstöðu og er hópurinn í meiri hættu á ofbeldi og fordómum en sís fólk (Ég er enn sami einstaklingurinn. Félagsleg reynsla og upplifun trans einstaklinga." Anna Guðrún Norðfjörð, 2013). Sigríður Birna Valsdóttir, ráðgjafi hjá Samtökunum '78, bendir á að þöggun og bæling á tilfinningum geti leitt til þess að trans börn upplifa mikla reiði, kvíða, þunglyndi, þau stundi sjálfsskaða, eigi við átröskun að stríða og upplifi annan geðrænan vanda ("Kynáttunarvandi barna og unglinga. Frá sjónarhorni barna og foreldra", fyrirlestur Sigríðar Birnu Valsdóttur, 2013). Segja má að trans börn séu sérstaklega viðkvæmur hópur, en fræðsla og stuðningur skiptir gífurlegu máli og getur orðið til þess að auðvelda öllum ferlið við það að koma út og lifa sem trans. Mikilvægt er að hafa í huga að fordómar og útilokun trans barna getur átt sér stað á heimilum þeirra og þá af hálfu fjölskyldumeðlima, rétt eins og með aðra hinsegin hópa. Því er sérlega áríðandi að skólakerfið veiti þeim stuðning og skilning. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar hefur útbúið stuðningsáætlun grunnskóla fyrir trans nemendur sem getur aðstoðað skóla við að styðja við bakið á nemendum.

Intersex Ísland

Lítið efni er til um intersex fólk og börn á íslensku. Helst má nefna samtökin Intersex Ísland sem eru hagsmunafélag intersex fólks og um leið Samtökin '78 sem eru hagsmunafélag hinsegin fólks (og er intersex fólk þar með talið). Einnig er vert að benda á evrópsku intersex samtökin OII Europe, en þau hafa gefið út leiðarvísi fyrir foreldra intersex barna sem hefur verið þýddur yfir á íslensku. 

Staða intersex barna

Sáralítið hefur verið fjallað um stöðu intersex barna í íslensku samhengi. Skólakerfið spilar lykilhlutverki með fræðslu og umræðum. Vert er að nefna álit frá Umboðsmanni barna frá árinu 2015 um aðgerðir á intersex börnum:

„Rökin fyrir aðgerðum á intersex börnum eru gjarnan þau að það sé erfitt fyrir barn með óræðin kynfæri eða önnur frávik frá „hefðbundnum“ karl- eða kvenkynslíkama að finnast það tilheyra samfélaginu og þróa með sér sterka sjálfsmynd. Á móti hafa intersex einstaklingar bent á að þeir líði fyrir þær líkamlegu og andlegu afleiðingar sem slíkar aðgerðir hafa í för með sér, auk þess sem skömm fylgi þeirri leynd sem ríkir yfir stöðu þeirra … Ekki er rétt að líta á það sem lausn við einelti og fáfræði að steypa alla í sama mótið, heldur er réttara að stuðla að fræðslu og auka þannig umburðarlyndi og skilning fólks á margbreytileika mannlífsins.“

Þess má geta að ónauðsynleg inngrip í líkama intersex barna (barna með ódæmigerð kyneinkenni) voru bönnuð með breytingum á lögum um kynrænt sjálfræði árið 2020.