Spurt og svarað um stuðningsþjónustu við fatlað fólk

Hér finnur þú algengar spurningar og svör um stuðningsþjónustu fyrir fullorðið fatlað fólk.

Listi spurninga

Á ég rétt á stuðningsþjónustu fyrir fatlað fólk?

Fatlað fólk sem býr í Reykjavík eða ætlar að flytja til Reykjavíkur getur átt rétt á stuðningi. Til að finna út hvort þú eigir rétt á stuðningi er best að panta símtal og við getum upplýst þig um næstu skref.

Formleg skilyrði sem þarf að uppfylla eru þessi:

  • Vera metinn í þörf fyrir stuðning samkvæmt matsviðmiðum í reglum um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fullorðið fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.  
  • Vera með staðfesta fötlunargreiningu. 
  • Vera orðinn 18 ára. 
  • Búa sjálfstætt eða í foreldrahúsum. 
  • Sjá reglur um stoð- og stuðningsþjónustu

Hvað gerist ef ég á ekki rétt á stuðningi?

Ef umsókn er synjað skoðar ráðgjafinn með þér möguleikana og þið ákveðið svo saman næstu skref.

Ef þú telur sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir því að veita skuli þér undanþágu frá reglum getur þú sent inn beiðni um áfrýjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs.

Hvernig er stuðningsþörf mín metin?

Þegar þú hefur undirritað umsókn um stuðningsþjónustu í samráði við ráðgjafa er næsta skref formlegt mat á stuðningsþörf. Þar er litið til heildaraðstæðna fólks. Ef matið leiðir í ljós að ekki sé þörf á stuðningi eða að skilyrði eru ekki uppfyllt er umsókn synjað. 

Ef umsókn er samþykkt er gerður þjónustusamningur í samráði við notanda. Í þjónustusamningi er tekið fram hvaða stuðningur er veittur, hver markmið þjónustunnar eru og hvernig árangur stuðnings er metinn. 

Skiptir aldur minn máli?

Fatlað fólk sem er 18 ára og eldra geta sótt um stoð- og stuðningsþjónustu.

Börn og ungmenni undir 18 ára aldri geta fengið stuðningsþjónustu sem er sniðin að þeirra þörfum.

Þarf ég að fara á staðinn í viðtalinu?

Nei. Þú getur líka talað við ráðgjafa í gegnum síma eða á fjarfundi. Saman ákveðið þið svo næstu skref, til dæmis hvar þið viljið hittast.

Hvaða stuðningur hentar mér best?

Í símtalinu færð þú upplýsingar um hvaða þjónusta er í boði fyrir þig. Þú og ráðgjafinn þinn ákveðið í sameiningu hvernig stuðningnum verður háttað og hvað hentar best fyrir þig. Ráðgjafinn getur verið í reglulegum samskiptum við þig og upplýst um hvernig stuðningurinn verður veittur.

Hvað kostar stuðningurinn?

Greiða þarf fyrir þrif kr. 1.470 fyrir hverja klukkustund, þó aldrei meira en 6 klukkustundir á mánuði. Fólk sem einungis hefur tekjur samkvæmt framfærsluviðmiði Tryggingastofnunar ríkisins eða þar undir þurfa ekki að greiða fyrir þrif.

Þegar félagslegur stuðningur fer fram utan heimilis þarftu sjálf/ur/t að greiða fyrir þig. Starfsmaður greiðir fyrir sig.