Rekstrarleyfi veitinga- og gististaða

Reykjavíkurborg er lögbundinn umsagnaraðili samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 og annast skrifstofa borgarstjórnar utanumhald og þjónustu við umsækjendur þegar umsóknir um rekstrarleyfi vegna veitingastaðar/gististaðar berast frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu til meðferðar hjá Reykjavíkurborg.

Umsagnarferlið

1. skref

Umsóknin er metin með tilliti til landnotkunarákvæða í skipulagi.

2. skref

Ef umsóknin er í samræmi við skipulagsáætlanir óskar skrifstofa borgarstjórnar eftir umsögnum frá eftirtöldum aðilum:

 

a. Byggingarfulltrúa – sem kannar hvort áætluð starfsemi sé í samræmi við gildandi byggingarleyfi og að lokaúttekt á húsnæðinu hafi farið fram.

 

b. Heilbrigðiseftirliti – sem kannar hvort starfsemi sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti  og mengunararvarnir, laga um matvæli og eftir atvikum, mat heilbrigðisnefndar á grenndaráhrifum starfseminnar þ.m.t. hljóðvist.

3. skref

Þegar/ef byggingarfulltrúi hefur sent frá sér jákvæða umsögn óskar skrifstofa borgarstjórnar eftir umsögn frá:

 

a. Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins – sem kannar hvort að kröfum um brunavarnir sé fullnægt samkvæmt mati slökkviliðs.

4. skref

Þegar allar þessar umsagnir liggja fyrir gefur skrifstofa borgarstjórnar heildarumsögn til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli þeirra.

 

a. Ef umsagnaraðilar eru allir jákvæðir er heildarumsögn Reykjavíkurborgar jákvæð.

 

b. Ef einhver/sumir/allir umsagnaraðilar er/u neikvæður/ir er heildarumsögn Reykjavíkurborgar neikvæð.

5. skref

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu afgreiðir umsóknina í samræmi við ákvæði laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Athugið að afgreiðsla sýslumannsins er opin kl. 8:30–15:00 virka daga.

Fyrirspurnir og erindi

Fyrirspurnum og erindum vegna rekstrarleyfa veitinga- og gististaða ber að beina í netfangið rekstrarleyfi@reykjavik.is.

Símatími er á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum kl. 13:00–14:00. 

Hringdu í síma 411 1111 og biddu um rekstrarleyfisdeild.