Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa sér um að framfylgja mannréttindastefnu borgarinnar. Mannréttindastefnan byggir á mannréttindum og jafnræðisreglunni.

Jafnræðisreglan eða bann við mismunun er ein grunnhugmynd mannréttinda. Hana er að finna í helstu mannréttindasamningum og í 65. gr. stjórnarskrárinnar en reglan kveður á um að bannað sé að mismuna fólki á grundvelli tiltekinna eiginleika þess eða af öðrum ómálefnalegum ástæðum.

Mannréttindastefna borgarinnar var fyrst samþykkt í borgarstjórn 16. maí 2006. Núverandi stefna var samþykkt í borgarstjórn 18. október 2016. Stefnan leggur áherslu á heildstæða sýn í þágu borgarbúa þar sem margir tilheyra fleiri en einum þeirra hópa sem stefnan nær til.

Stjórnendum og starfsfólki ber að tryggja virðingu fyrir mannréttindum innan stjórnkerfis borgarinnar, á vinnustöðum hennar og í þjónustu.

Rauði þráðurinn í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar er áherslan á jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Þessi áhersla skal vera sýnileg og samþætt allri starfsemi og stefnumótun borgarinnar.

Eftirfylgni

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar, ásamt mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði, fylgir mannréttindastefnu borgarinnar eftir og stendur vörð um að borgarbúum sé ekki mismunað. Telji borgarbúar, starfsfólk borgarinnar, hagsmunafélög eða gestir borgarinnar að á sér sé brotið með tilliti til þeirra þátta sem tilgreindir eru í stefnunni er hægt að senda ábendingar eða kvartanir.

Borgarbúar, starfsfólk borgarinnar, hagsmunafélög eða gestir borgarinnar geta sent ábendingar eða kvartanir og er úrvinnsla þeirra þeim að kostnaðarlausu. 

Aðgerðaáætlun í jafnréttis- og mannréttindamálum

Út frá mannréttindastefnunni er unnin aðgerðaáætlun sem snertir ólíka kafla hennar. Ýmis svið og skrifstofur borgarinnar bera ábyrgð á einstaka aðgerðum en mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa ber ábyrgð á aðgerðaáætluninni í heild sinni. Skoða má aðgerðaáætlun fyrir árin 2023 til og með 2026 hér fyrir neðan.

Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar

Fyrirspurnir og ábendingar

Hægt er að koma fyrirspurnum og ábendingum á framfæri við mannréttindastjóra, Önnu Kristinsdóttur, bréflega eða í tölvupósti á netfangið anna.kristinsdottir@reykjavik.is.