Mannréttindaráð

Teikning af fimm manneskjum að spjalla.

Mannréttindaráð fer með verkefni í jafnréttismálum, ofbeldisvörnum og í málefnum eldra fólks (öldungaráð) fatlaðs fólks (samráðshópur um málefni fatlaðs fólks) innflytjenda og fólks með erlendan bakgrunn.

Ráðið fer með hlutverk öldungaráðs í Reykjavík samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, 6. gr. laga um málefni aldraðra nr. 125/1999 og eftir því sem lög mæla fyrir um.

Ráðið fer með hlutverk samráðshóps um málefni fatlaðs fólks samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og eftir því sem mælt er fyrir um í lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og 8. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. 

Ráðið fer með verkefni jafnréttisnefndar samkvæmt lögum skv. lögum nr. 10/2008.

Samþykkt fyrir mannréttindaráð var afgreidd í borgarstjórn þann 18. mars 2025.

Mannréttindaráð starfar í umboði borgarráðs með þeim hætti sem nánar er kveðið á um í samþykkt fyrir mannréttindaráðs og samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019 og eftir því sem lög mæla fyrir um.

Mannréttindaráð fer m.a. með eftirtalin verkefni:

  1. Er borgarstjórn, nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar til ráðgjafar á sviði mannréttinda þ.m.t. jafnréttis- og jafnlaunamála, kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunargerðar, ber ábyrgð á kynningu mannréttindastefnunnar og annarri tengdri stefnumörkun auk þess sem ráðið stuðlar að þekkingaröflun og miðlun upplýsinga. Ráðið gerir tillögur til borgarráðs um endurskoðun mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar ef tilefni er til og ber ábyrgð á að henni sé framfylgt.
  2. Er borgarstjórn, nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar til ráðgjafar  á sviði ofbeldisvarna og er virkur þátttakandi í allri stefnumörkun málaflokksins.
  3. Er borgarstjórn, nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar til ráðgjafar um málefni og hagsmuni borgarbúa sem eru 67 ára og eldri. Ráðið skal stuðla að hvers konar upplýsingagjöf og samstarfi Reykjavíkurborgar við hagsmunasamtök hópsins, móta stefnu og gera tillögur til borgarráðs sem varða verksvið þess
  4. Ráðið er vettvangur samráðs borgarbúa sem eru 67 ára og eldri, félagasamtaka þeirra, atvinnulífs í víðum skilningi og borgaryfirvalda og er virkur þátttakandi í allri stefnumörkun málaflokksins. Ráðið er ráðgefandi fyrir starfsemi Reykjavíkurborgar í málaflokknum og stuðlar, í samstarfi við miðstöðvar Reykjavíkurborgar, að eflingu félagsauðs og kynningu á þjónustu borgarstofnana til borgarbúa sem eru 67 ára og eldri. 
  5. Er borgarstjórn, nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar til ráðgjafar um málefni og hagsmuni borgarbúa sem snúa að innflytjendum og fólki með erlendan bakgrunn. Ráðið skal stuðla að hvers konar upplýsingagjöf og samstarfi Reykjavíkurborgar við grasrótarsamtök innflytjenda, móta stefnu og gera tillögur til borgarráðs sem varða málaflokkinn. Ráðið skal leitast við að tengja saman fjölmenningarleg samfélög á Íslandi, stuðla að samtali á milli innfæddra og innflytjenda og koma hagsmunum innflytjenda á framfæri.
  6. Er í fyrirsvari af borgarinnar hálfu á sviði mannréttindamála. Er öðrum borgaryfirvöldum til samráðs og ráðgjafar um verkefni á sviði mannréttindamála. Veitir umsagnir um tillögur að verkefnum á vegum borgarinnar sem varða mannréttindi borgarbúa. Á samvinnu við ríki, önnur sveitarfélög og félagasamtök um mannréttindamál og veitir árlega mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar. 
  7. Að afloknum sveitarstjórnarkosningum skal mannréttindaráð sjá til þess að Reykjavíkurborg setji sér áætlun um mannréttindamál fyrir nýtt kjörtímabil. Skal sú áætlun taka mið af lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lögum nr. 85/2018 um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Áætlunin skal lögð fram til afgreiðslu á vettvangi borgarstjórnar eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar og endurskoðuð eftir þörfum.

Til að vinna að því að bæta þjónustu við fatlað fólk í Reykjavík og að bæta aðgengi þeirra að allri þjónustu Reykjavíkurborgar sem og að borgarlandinu fer mannréttindaráð m.a. með eftirtalin verkefni: 

1. Að allar byggingar í eigu Reykjavíkurborgar og annað húsnæði þar sem almenningur þarf að sækja þjónustu á vegum borgarinnar, svo og götur, gangstéttir og önnur opinber svæði í borgarlandinu, verði aðgengileg fötluðu fólki með mismunandi aðgengisþarfir. Mannréttindaráð veitir árlega aðgengisviðurkenningu Reykjavíkurborgar. 

2. Að hafa áhrif á skipulag og framkvæmd allrar þjónustu við fatlað fólk í Reykjavík með það að markmiði að bæta aðgengi þess í víðum skilningi að m.a. þjónustu, upplýsingum, húsnæði, borgarlandi og samfélagsþátttöku. Ráðið skal vera ráðgefandi fyrir þjónustuveitendur á öllum sviðum Reykjavíkurborgar, hafa aðkomu að stefnumótun er varðar þjónustu við fatlað fólk í Reykjavík og halda utan um og vera vettvangur samráðs vegna þjónustu við fatlað fólk í borginni. Skal aðkoman og umfjöllunin eiga sér stað í ráðinu á öllum stigum vinnu fagsviðanna að málum er varða fatlað fólk, við upphaf, vinnslu og lok vinnunnar.

Formaður ráðsins er Sabine Leskopf.

Mannréttindaráð heldur að jafnaði þrjá fundi í mánuði. 

Þegar ráðið fjallar um málefni sem varðar ofbeldisvarnir eiga eftirtaldir aðilar jafnframt sæti í ráðinu sem áheyrnarfulltrúar: Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Stígamót, Samtök um kvennaathvarf og Embætti landlæknis 

Þegar ráðið fjallar um málefni fatlaðs fólks eiga eftirtaldir fulltrúar jafnframt sæti í ráðinu: ÖBÍ réttindasamtök, Þroskahjálp og NPA miðstöðin 

Þegar ráðið fjallar um málefni aldraðra og fer með hlutverk öldungaráðs eiga eftirtaldir fulltrúar jafnframt sæti í ráðinu: Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, Samtök aldraðra, U3A Reykjavík og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins 

Þegar ráðið fjallar um málefni innflytjenda og fólks með erlendan bakgrunn eiga eftirtaldir fulltrúar jafnframt sæti í ráðinu sem áheyrnarfulltrúar: Samtök kvenna af erlendum uppruna, W.O.M.E.N., og Móðurmál, samtök um tvítyngi. 

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa annast framkvæmd mannréttindastefnu, verkefni ráðsins og samskipti við aðrar stofnanir.

Starfsfólk ráðsins er Elísabet Pétursdóttir verkefnastjóri og Valgerður Jónsdóttir sérfræðingur í jafnréttismálum og starfsmaður samráðshóps um málefni fatlaðs fólks.