Klám eða kynlíf?
Það er fullkomlega eðlilegt að vera forvitin um kynlíf, að hugsa um kynlíf, að langa að sjá eitthvað kynferðislegt og að langa til að prófa allskonar kynferðislegar athafnir. Langflestir unglingar hafa á einhverjum tímapunkti áhyggjur af því að þeir viti ekki hvað á að segja og hvað á að gera þegar kemur að kynlífi. Það er eðlilegt.
Klám eða kynlíf
Kynlíf er EKKI eins og að baka köku, það þarf ekki allt að fara eftir réttri uppskrift svo kakan heppnist og verði góð. Kynlíf er meira eins og bland í poka, það er allskonar og það getur verið mjög misjafnt hvað hverjum og einum finnst best. Það getur líka verið misjafnt hvað manni langar í, stundum í svona og stundum í eitthvað allt annað.
Sumir unglingar horfa á klám, stundum af því að það veitir kynferðislega örvun og stundum líka til að læra hvernig kynlíf virkar, hvað á að gera og hvernig. Það sem unglingar aftur á móti vita ekki alltaf er að klám er ömurleg kynfræðsla. Það er alls ekki góð leið að horfa á klám til að læra um kynlíf.
Í klámi eru margt sem þið lærið EKKI, sem getur samt verið MJÖG mikilvægt þegar kemur að kynlífi eins og:
- Það er engin nánd eða forleikur í klámi (eins og falleg orð, að horfast í augu, haldast í hendur, kyssast djúpt og innilega, strjúka hárið eða líkama hinnar manneskjunnar hlýlega)
- Það er ekkert samþykki í klámi. Allir gera bara allt sem þeir vilja við hina manneskjuna án þess að spyrja leyfis eða athuga hvort það er það sem hin manneskjan vill. Fólki er alveg sama hvernig hinni manneskjunni líður. Ef manneskja í klámi sýnir vanlíðan, eins og t.d. að fara að gráta eða nær ekki andanum þá stoppar hin manneskjan samt ekki. Það er ofbeldi!
- Það eru nánast aldrei getnaðar- eða kynsjúkdómavarnir í klámi. Það er mjög mikilvægt að huga að getnaðar- og kynsjúkdómavörnum í kynlífi.
- Það eru engin mörk í klámi, þar má allt og aldrei er athugað hvað hin manneskjan vill, hvort hún vilji breyta til eða jafnvel stoppa. Mörk skipta mjög miklu máli í kynlífi og það verður alltaf að huga að því að báðum aðilum líði vel og vilji gera það sem verið er að gera.
Í klámi er líka margt annað sem þið þurfið að vita, eins og:
- Útlit kynfæra er oft mjög ýkt í klámi. Meðalstærð á typpi er miklu stærri í klámi en í raunveruleikanum. Píkur eru oft eins í klámi en þær eru allskonar í raunveruleikanum.
- Kynferðisleg ánægja er oft mjög ýkt í klámi. Öllum finnst allt gott, allir hafa endalaust úthald og allir fá yfirleitt fullnægingu. Í kynlífi er misjafnt hvað fólki þykir gott, úthald er misjafnt og það fá alls ekki allir alltaf fullnægingu. Kynlífið sjálft skiptir mestu máli, að njóta þess, fullnæging er bónus.
- Það er mikið valdaójafnvægi í klámi og oftast ríkir annar aðilinn yfir hinum. Mjög algengt er að karlar stjórni konum í klámi.
- Það er mikið um niðurlægingu og ofbeldi í klámi. Í heiti klámatriða eru konur mjög oft kallaðar ljótum nöfnum, í kláminu eru þær oft niðurlægðar og meiddar.
- Klám er viðskiptamódel og það snýst um að græða peninga en ekki að kenna fólki um kynlíf. Í þessum bransa er mikið um misnotkun á fólki.
- Mikið klámáhorf getur haft skaðleg áhrif á heilann ykkar, á samböndin ykkar á viðhorf ykkar og kynferðislega ánægju.
- Notið heilann ykkar frekar en klám til að segja ykkur hvað er kynæsandi.