Næsta skref í skipulagsvinnu á Keldnalandi

Framundan er uppbygging á nýju hverfi á Keldnalandi í Reykjavík. Markmiðið er að þar rísi spennandi nútímahverfi sem byggir á vistvænum samgöngum og stuðlar að kolefnishlutlausu borgarsamfélagi. Skipulagsvinna er í fullum gangi og áformað er að þessu ferli ljúki í byrjun árs 2026. Þetta er stórt þróunarsvæði og lykilsvæði í húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík en fullbyggt rúmar hverfið 12.000 manns.
Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti á fundi sínum í gær að opna skipulagsferlið með því að forkynna vinnslutillögu að rammahluta aðalskipulags ásamt drögum að þróunaráætlun, hönnunarhandbók og samgönguskipulagi. Málinu var vísað til borgarráðs og eftir afgreiðslu þess verða gögnin gerð aðgengileg á skipulagsgáttinni og þá gefst fólki tækifæri til að rýna þau og koma sínum sjónarmiðum á framfæri, sem horft verður til í ferlinu.
Drögin byggja í meginatriðum á þeirri skipulagsvinnu sem FOJAB og samstarfsaðilar hafa unnið að undanfarin misseri í samstarfi Reykjavíkurborgar og Betri samgangna.
Tillaga í mótun
Áður hefur verklýsing aðalskipulagsbreytingar ásamt verðlaunatillögu FOJAB verið kynnt. Tillagan hefur verið þróuð áfram og meðal annars horft til athugasemda sem bárust við verklýsinguna. Til dæmis:
- Lega Borgarlínu hefur verið aðlöguð betur að landslagi.
- Kálfamóa og öðrum mikilvægum grænum svæðum hefur verið gefið aukið rými.
- Jaðrar nýrra hverfa hafa verið aðlagaðir betur að núverandi byggð.
Friðlýsingarferli Grafarvogs er yfirstandandi og tekið er mið af því við skipulagsgerð. Áin Korpa og umhverfi hennar er hverfisverndað nú þegar samkvæmt aðalskipulagi á grunni náttúrufarsúttektar. Tillaga að byggð er utan verndaða svæðisins.
Fótspor byggðarinnar minnkað
Mótun og þróun tillagna hefur verið unnin í nánu samráði við Veitur og önnur svið borgarinnar meðal annars varðandi staðsetningu skóla og leikskóla. Einnig hefur verið í gangi virkt samtal við hagaðila á svæðinu, meðal annars um þróun atvinnukjarna.
Nákvæm lega Borgarlínu um svæðið hefur verið staðfest. Einnig hafa verið skilgreind ný útivistarsvæði og almenningsrými eins og Kálfamói og borgargarður hefur verið skilgreindur.
Byggð hefur lengi verið áætluð í landi Keldna og nágrennis. Samkvæmt breytingunum nú hefur fótspor þéttbýlis miðað við gildandi skipulag verið minnkað um 28 hektara. Í drögum að umhverfismati segir að þessi breyting dragi úr kolefnisspori byggðarinnar, auki þéttleika hennar og umfang grænna opinna svæða. Hverfið verði því enn gönguvænna, styðji betur við vistvæna ferðamáta, félagsleg samskipti og lýðheilsu.
Atvinnuhúsnæði verður fyrst og fremst í nálægð við Borgarlínustöðvar þar sem aðgengi er gott fyrir vistvæna ferðamáta. Í drögum að umhverfismati segir að það auðveldi fólki að ferðast til vinnu með virkum ferðamátum og styðji við mannlíf frá morgni til kvölds og verslun og þjónustu innan hverfanna.
Viðburðir í ágúst
Áréttað er að hér er um tillögu á vinnslustigi að ræða sem fer í forkynningu í skipulagsgáttinni með athugasemdafresti til 3. september. Tilgangurinn með kynningunni nú er að opna á vinnuferlið og gefa fólki tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Búist er við því að gögnin verði komin inn á skipulagsgatt.is í lok næstu viku og verða þar aðgengileg öllum. Áætlað er að í ágúst fari fram viðburðir að Keldum til kynningar á tillögunni en þeir verða auglýstir síðar.