Sýning um Keldnaland í Borgartúni
Sama sýning og var uppi á opnu húsi að Keldum í síðustu viku hefur verið sett upp í þjónustuveri Reykjavíkur í Borgartúni. Þar er hægt að fræðast um skipulag og uppbyggingu á Keldnalandi og skoða þrívíddarlíkan af fyrirhugaðri byggð.
Sýningin er haldin af því tilefni að nú stendur yfir kynning á vinnslutillögu rammahluta aðalskipulags Keldna og nágrennis. Íbúar og aðrir hagsmunaaðilar geta kynnt sér tillöguna ásamt þróunaráætlun Keldnalands og öðrum fylgigögnum sem eru útprentuð á staðnum. Til þess að auðvelda fólki að kynna sér málið einnig búið að gera tvö myndbönd sem kynna tillöguna og segja frá heildarhugmyndinni um hverfið sjálft. Sömuleiðis er hægt að horfa á myndböndin á staðnum.
Keldnaland verður þétt, fjölbreytt og grænt borgarhverfi sem nýtur góðs af nálægð við náttúruna, góðum almenningssamgöngum og áherslu á fjölbreytta ferðamáta. Borgarlínan mun fara um svæðið sem þýðir fleiri valkosti fyrir íbúa með auknum lífsgæðum og góðri þjónustu. Íbúar eiga að geta lifað sjálfbæru og heilbrigðu hversdagslífi með grænum svæðum, hverfisgörðum og torgum en markmiðið er lifandi borgarumhverfi. Keldnaland er byggt upp í samvinnu Reykjavíkurborgar og Betri samgangna.
Skipulagstillagan og fylgigögn eru aðgengileg á skipulagsgáttinni þar sem áhugasöm geta sent inn athugasemdir og ábendingar til 10. september 2025. Sýningin verður uppi út auglýsingatímann. Verið velkomin!
- Skoða í skipulagsgáttinni
- Frétt með hlekk á kynningarmyndböndin
- Upplýsingasíða um Keldur og nágrenni