Íbúafundur borgarstjóra – Vesturbær

Borgarstjóri býður til opins íbúafundar í Vesturbæjarskóla miðvikudaginn 9. febrúar kl. 20:00.  Í þessum borgarhluta eru Skerjafjörður, Litli Skerjafjörður, Hagar, Melar, Skjól, Grandar, Vesturbær, Vesturhöfn og Örfirisey.  Kynning á því sem er efst á baugi í borgarhlutanum.

Streymi

Streymt verður frá íbúafundinum á þessa vefsíðu og hér verður allt efni aðgengilegt að loknum fundi. Upptaka og kynningar. 

Fundurinn verður haldinn í Vesturbæjarskóla  fyrir þau okkar sem vilja mæta og að sjálfsögðu gætum við að smitvörnum.  Gengið er inn frá Framnesvegi.

 

 

Dagskrá fundarins

  • Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri: Vesturbær
    - skoða kynningu borgarstjóra
  • Nadine Guðrún Yaghi, íbúi: Vesturbærinn - borg í bæ 
    - horfa á myndband
  • Lúðvík S. Georgsson, formaður KR: Hjarta Vesturbæjarins - Kynning á nýju deiliskipulagi fyrir KR-svæðið og hugmyndum félagsins.
    - skoða kynningu KR
     
  • Spurt og svarað
     
  • Fundarstjóri er Birgir Þröstur Jóhannsson, formaður íbúaráðs Vesturbæjar

Hefur þú spurningu?

Sendu endilega fyrir fundinn spurningar sem þú hefur. Fylltu út formið hér að neðan eða sendu tölvupóst á netfangið: ibuafundir@reykjavik.is.

Spurningar og svör

Græn svæði

Tún bak við Sundlaug Vesturbæjar

Sundlaugartún) hafa íbúar þriggja húsa (Einimel 22-26) girt af 1000 m2 skika af borgarlandi þannig að aðrir borgarbúar geta ekki notið. Er hægt að gefa skýrt svar hvers vegna Reykjavíkurborg hefur ekkert brugðist við í mörg ár?  

Svar:

Umrædd girðing er hluti af eldri girðingu frá því að þarna stóð bærinn Víðimýri. Borgin hefur átt í samtali við umrædda lóðarhafa og til stendur að fjarlægja girðinguna næsta sumar. Þá hefur verið samþykkt að auglýsa tillögu að einfaldri breytingu á deiliskipulagi svæðisins sem gerir ráð fyrir að lóðir við Einimel 18-26 stækki lítillega þannig að lóðarmörk verði í þeirri línu sem núverandi girðing á vegum borgarinnar liggur við Einimel 18 og 20, sjá: https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/vesturbaejarlaug2.pdf     

Vesturbæjarlaug

Samkvæmt tillögu sem samþykkt hefur verið í Skipulags- og samgönguráði og verður lögð fyrir Borgarráð mun opið svæði við Sundlaug Vesturbæjar minnka um 389m2 frá því sem áður var. Þar með minnkar þetta svæði sem almenningur ætti með réttu að hafa til afnota og fer undir einkalóðir. Hvers vegna er þessi ákvörðun tekin, þ.e. að stækka einkalóðir á kostnað almenningslóða sem takmarkaðar eru í Vesturbænum? Er þetta fordæmisgefandi að ef fleiri íbúar Vesturbæjar girða af borgarland án nokkurs leyfis í lengri tíma að þá sé hægt að semja síðar í nafni sáttar og einu sem fá eitthvað í sinn snúð eru lóðarhafar einkalóða en almenningur ber minna úr býtum https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/vesturbaejarlaug2.pdf  

Svar:

Þetta fer núna í almenna auglýsingu og kynningu eftir samþykkt í borgarráði, þar sem hægt er að benda á þetta og gera athugasemdir. 

 

 

Um bílastæði í hverfinu og gjaldtökur

Bifreiðum er ítrekað lagt ólöglega í Gamla Vesturbænum

Hvað ef eitthvað ætlar Reykjavíkurborg að gera til þess að skera upp herör gegn ólöglega lögðum bílum sem skapa hættu og kemur til greina að fela einkaaðilum að taka að sér umsjón með útgáfu sekta á ólöglega lagða bíla í hverfum borgarinnar svo þessu sé mögulega sinnt? 

Svar:   

Bílastæðasjóður og lögreglan hafa eftirlit með bifreiðastöðum á gangstéttum og öðrum svæðum sem óheimilt er leggja á. Bílastæðasjóður sinnir eftirlitinu með tveimur til þremur bifreiðum sem eru á ferðinni um hverfi borgarinnar, utan svæða með gjaldskyldu, mest á dagvinnutíma.  Til greina kemur að auka eftirlit með bifreiðastöðum í borginni.

Bílastæði á lóð Háskóla Íslands

Á lóð HÍ eru hundruð ef ekki þúsund gjaldfrjáls bílastæði. Hefur Reykjavíkurborg og getur beitt sér eitthvað í því að hafin verði gjaldtaka á þessum bílastæðum í Vesturbænum sem myndi leiða til betri landnýtingar, minni kolefnislosunar og meiri loftgæða? 

Svar:   

Það er í höndum Háskóli Íslands að koma á gjaldskyldu á lóð sinni. Nú þegar er gjaldskylda á bílastæðum næst aðalbyggingu Háskóla Íslands, í Skeifunni. Reykjavíkurborg hefur hvatt skólann til að útvíkka gjaldskyldu á svæðinu. Vel hefur verið tekið í þær hugmyndir.

Greiðsluvél á Nýlendugötu

Hvernig stendur á því að aðeins ein greiðsluvél er fyrir bílastæði á Nýlendugötunni og hann staðsettur nær öðrum enda götunnar í vestri? Hún er sunnan meginn götunnar við leikvöllinn. Fólk sem leggur bílum sínum austan meginn frá horni Ægisgötu þarf ekki bara að ganga langt til að greiða stöðugjöldin það er líka algerlega ómögulegt að sjá hvar greiðsluvélin er staðsett vegna útstæðra húsa. Það eru heldur engar merkingar í götunni sem gefa til kynna hvar greiðsluvélin er. Skynsemin bíður að greiðsluvél væri staðsett norðan megin götunnar um það bil við Nýlendugötu 20. "Tölvan segir nei" þegar þetta er rætt við Bílastæðasjóð.

Svar:

Greiðsluvél bílastæða á Nýlendugötu er staðsett u.þ.b. á miðja vegu milli Seljavegar og Ægisgötu, um 170 m eru lengst að vélinni. Með aukinni notkun á rafrænum greiðslulausnum, öppum, hefur þörf fyrir greiðsluvélar minnkað.

Skipulag og framkvæmdir

Lóð á Bræðraborgarstíg 1, 3 og 5

Mig langar að vita hvernig gengur að skipuleggja lóðina á Bræðraborgarstíg 1, hún hefur nú staðið auð í töluverðan tíma og nokkur styr staðið um fyrirhugaðar framkvæmdir þar. Hefur verið athugað hvort hægt væri að flytja þangað gamalt hús frekar en byggja nýtt?

Svar:

Nýverið barst skipulagsfulltrúa skipulagslýsing nýs deiliskipulags fyrir lóðir nr. 1, 3 og 5 við Bræðraborgarstíg. Skipulagslýsing þessi verður send út til kynningar á meðal almennings eftir meðferð á skrifstofu skipulagagsfulltrúa og eftir umfjöllun í skipulags- og samgönguráði. Tilgangur hins nýja deiliskipulags gengur m.a. út á að skilgreina og setja skilmála fyrir umfang nýbyggingarmagns á lóðum Bræðraborgarstígs 1 og 3. Markmiðið er að ná fram tillögu sem tekur tillit til nærumhverfis síns og virðir sögu staðarins. Það hefur ekki komið til álita að koma fyrir  flutningshúsi á lóðum nr. 1 og 3 heldur tvinna saman af næmni nýjan arkitektúr við eldri stíltegundir á svæðinu.

Aðgengi fyrir fatlað fólk í Melaskóla

Tvær spurningar bárust um aðgengi fyrir fatlað fólk í Melaskóla. 

Annars vegar var spurt sérstaklega hvenær von væri á lyftu í húsnæði skólans og hins vegar hvort úrbætur fyrir aðgengi fatlaðs fólks í skólanum yrðu hluti af stærri framkvæmdum eða hvort von væri á þeim fyrr.

Svar:

Þessa dagana er unnið að því að forgangsraða viðhalds og endurbótaverkefnum í skóla og frístundahúsnæði borgarinnar. Aðgengismál vega þar mjög þungt og ljóst er að mikil þörf er á úrbótum í Melaskóla. Borgarráð samþykkti nýverið að stórauka fjárframlög til viðhalds og endurbóta á skólahúsnæði og er von á skýrslu um forgangsröðun framkvæmda í næsta mánuði. Úrbætur til að bæta aðgengi í gömlu húsnæði eins og Melaskóla eru umfangsmiklar og verða mikilvægur hluti framkvæmda sem framundan eru við skólann. Ekki er ráðlegt að ráðast í framkvæmdir sem bæta aðgengi fyrr en heildaráætlun liggur fyrir um viðhald og mögulega stækkun skólans.

KR

Battavellir/Sparkvellir

Fyrir nokkrum árum var farið í nokkuð átak að fjölga battavöllum og voru nokkrir slíkir reistir í hverfum borgarinnar. Til skýringar er battavöllur/sparkvöllur upphitaður og upplýstur gervigrasvöllur með grindverki í kring þannig að boltinn haldist sem lengst í leik en ekki hefðbundinn skólavöllur. Sjá hér frekari skýringar https://www.ksi.is/library/Skrar/Mannvirki/sparkvollur_2004_baklingur.pdf Í stuttu máli er enginn svona völlur í Vesturbænum og sá eini sem gæti talist líkur þessum er á æfingasvæði KR og í eigu KR og skipulagðar æfingar þar. Í öðrum hverfum borgarinnar eru allt að fimm vellir á vegum borgarinnar og því alveg ljóst að hallar mjög á Vesturbæinn hvað þetta varðar. https://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_svida/Sparkvellir___Reykjav_k_2012.pdf. Athugið að inni á þessu korti er völlur á KR svæði í eigu KR en aðrir vellir eru flestir ef ekki allir á skólalóðum. Því er spurningin. Stendur til að jafna þennan aðstöðumun á milli hverfa með því að setja upp 4-5 battavelli með girðingu í Vesturbænum líkt og öðrum hverfum. Staðsetningar gætu þá verið t.d. í Stóra Skerjó, Starhaga, Grandasvæði, Landakotstúni, Melaskólalóð.

 Svar:

  • Battavöllur á lóð Vesturbæjarskóla: Árið 2014 var gerður upphitaður battavöllur, án timbur batta á lóð.
  • Battavöllur á lóð Vesturbæjarskóla: Árið 2021 var gerður upphitaður battavöllur (fjölnota), með þráðgirðingu kringum völlinn.
  • Battavöllur á lóð Grandaskóla: Árið 2018 var gerður upphitaður battavöllur(fjölnota), með þráðgirðingu kringum völlinn.
  • Battavöllur á lóð Melaskóla: Árið 2014 var gerður upphitaður battavöllur(fjölnota), með þráðgirðingu kringum völlinn.
  • Battavöllur á lóð Hagaskóla: Árið 2018 var gerður upphitaður battavöllur(fjölnota), með þráðgirðingu kringum völlinn.

Íþróttafélag í Skerjafirði

fyrirhuguð er ný íbúðabyggð í Skerjafirði (Nýi Skerjafjörður). Mun þetta svæði vera innan þess svæði sem KR þjónustar eða verður þetta skilgreint fyrir Val sem íþróttahverfi þó öllum sé auðvitað velkomið að sækja íþróttir utan hverfis? Ef KR mun þjónusta þetta hverfi hvað íþróttir varðar, hvernig verður almenningssamgöngum þaðan að Frostaskjóli 2 háttað? Núna er enginn strætó sem gengur úr Skerjafirði inn í Vesturbæ og mjög illa skipulagt að þurfa að taka leið 12, ganga að Hagatorgi og síðan taka strætó þaðan. Eins í þessu samhengi er vert að nefna að Reykjavíkurborg tók þátt í kostnaði við byggingu fimleikahúss Gróttu og þjónustar þá Vesturbæinga og strætóleiðir ættu því að vera góðar. Stelpur eru í miklum meirihluta sem stunda fimleika og eins eru yngri flokkar KR í knattspyrnu kvenna farnir að sameinast Gróttu og æfa út á Nesi og því mikilvægt að almenningssamgöngur séu góðar úr Skerjafirði til að koma í veg fyrir brottfall.  

Svar:

Ákvörðun sem snýr að því hvaða íþróttafélag verður fyrir valinu sem hverfisfélag er almennt ekki viðfangsefni skipulagshöfunda og er því ekki ávarpað beint í skilmálum deiliskipulagstillögu nýrrar íbúabyggðar Nýja Skerjafjarðar. Ekki er gert ráð fyrir sérstakri aðstöðu undir íþróttafélag í Nýja Skerjafirði út yfir hefðbundna íþróttaaðstöðu nýs grunnskóla í hverfinu. Tíminn verður að leiða í ljós hvort Skerjafjörðurinn verður eiginlegt Valshverfi eða hvort Valur deili Skerjafirðinum og íbúum hans með KR sem er nú ríkjandi íþróttafélag meðal barna og unglinga í litla- og stóra Skerjafirði.  

Rétt er að taka fram að vegalengd hjólandi og gangandi iðkenda er svipuð hvort heldur á Meistaravelli eða Hlíðarenda eftir strandleiðinni (mælt frá miðju Skeljanesi). Einnig er rétt að minna á að börnum og unglingum í Skerjafirði er frjálst að leita til annara íþróttafélaga en hverfisfélags og fá til þess óskerta íþróttastyrki frá Reykjavíkurborg, t.a.m. Frístundakortið.  

Á meðal meginmarkmiða nýrrar íbúðabyggðar í Skerjafirði er að skapa sjálfbæra íbúabyggð sem verður vel tengd við nálæga þjónustu- og atvinnukjarna með öruggum og vistvænum samgönguinnviðum við aðliggjandi hverfi, þá sér í lagi fyrir gangandi, hjólandi auk almenningssamgangna. Síðustu misseri hefur staðið yfir vinna við heildar endurskoðun á leiðarkerfi Strætó bs. samhliða innleiðingu Borgarlínu. 

Gervigrasvöllur KR

Reykjavíkurborg á og rekur stóra gervigrasvelli KR og sér því um viðhald og kostnað við rafmagn og hita. Framkvæmdadeild USK sér því um endurnýjun vallarins og var farið í útboð í haust þar sem völlurinn var ónýtur. 30. nóvember 2021 fengu foreldrar og iðkendur póst um að framkvæmdir væru hafnar og talað um það myndi taka 2-3 vikur og æfingar gætu því hafist á nýju ári. Nú 3. febrúar eru æfingar ekki hafnar enn og talað um að ekki sé hægt að hefja æfingar fyrr en frostlaust og þurrt verði í nokkra daga í röð. Það verður kannski ekki fyrr en í mars að slíkar aðstæður skapist og börn í fótbolta í Vesturbæ þá búin að vera í 2-3 mánuði án æfingaaðstöðu heldur á skólavöllum. Spurningar eru því. Hvað veldur því að þetta hefur tekið svona óhóflega langan tíma og hvenær má vænta að krakkar getir byrjað að æfa aftur á gervigrasvellinum?  

Svar:

Verktakinn Metatron hefur sent Reykjavíkurborg greinargerð um ástæður margvíslegra tafa. Þar segir í lokin: “Það má því vera ljóst að það er okkar hagur að geta lokið þessu verki sem fyrst. Við munum gera það sem í okkar valdi stendur til að svo verði án þess að gæði verks verði fyrir borð borin”. Frekari upplýsingar: pwj@sportverk.is.

Römpum upp Reykjavík

Römpum upp Reykjavík er frábært verkefni. Hvenær verður Vesturbærinn rampaður upp? 

Svar:

Verkefnið er unnið að einstaklingi, https://rampur.super.site/ Haraldi Inga Þorleifssyni og það væri hans að skoða. Borgin kom inn í þetta sem styrktaraðili.