Íbúafundur borgarstjóra – Breiðholt
Borgarstjóri býður til opins íbúafundar í Breiðholtsskóla miðvikudaginn 9. mars kl. 20:00. Þar verður kynning á því sem er efst á baugi í hverfinu. Heitt á könnunni frá kl. 19:30
Streymi
Streymt verður frá íbúafundinum á þessa vefsíðu og verður það aðgengilegt sem upptaka að loknum fundi. Mögulegt er að fundurinn verði eingöngu í streymi – ef reglur leyfa kynnum við staðsetningu.
Dagskrá fundarins
- Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri: Breiðholt
Kynning borgarstjóra - Breiðholtið mitt - Magdalena Mejia lögfræðingur og rithöfundur
Myndband - Framkvæmdir við íþróttamannvirki í Suður Mjódd, Yrsa Sigurðardóttir byggingaverkfræðingur hjá Verkís.
- Fyrirspurnir íbúa
Hefur þú spurningu?
Sendu endilega fyrir fundinn spurningar sem þú hefur. Einnig er velkomið að bera fram spurningar á fundinum. Fylltu út formið hér að neðan eða sendu tölvupóst á netfangið: ibuafundir@reykjavik.is.
Spurningar og svör
Skipulag í Norður-Mjódd og samráð við íbúa
Fjöldi íbúða sem á að byggja í Mjódd er mjög á reiki. Húsnæðisáætlun sem samþykkt er í borgarstjórn - án kynningar eða samráðs við íbúa - setur fram töluna 800 nýjar íbúðir í Mjódd. Í dag eru 1500 íbúðir í hverfinu Neðra-Breiðholti. Svona mikil fjölgun íbúða er mikið álag á innviði hverfis og skerðing á lífsgæðum núverandi íbúa svo um munar með auknu skuggavarpi og umferð. Hvernig stendur á því að ekki er farið í samráð við íbúa hverfisins þegar fjölga á íbúðum hverfisins um 53%?
SVAR: Deiliskipulagsvinna fyrir svæðið er ekki hafin og þ.a.l. ekkert samráðsferli farið af stað. Aðalskipulag segir eingöngu til um hvaða íbúðafjölda mætti skoða á svæðinu ekki hvaða íbúðafjöldi verður á svæðinu.
Nýbyggingar og truflanir/skemmdir vegna framkvæmda
Góðan dag, Þegar fjárfest var í sérbýli dýrum dómi á sínum tíma við stekkina í fallegt og rótgróið hverfi var aldrei neitt sem benti til þess að þegar þú ætlar út að njóta í sólinni í garðinum þínum og baða þig í góða veðrinu í kósý reitnum þínum, búin að fjárfesta aleigunni í þína paradís að þar væru allt í einu mögulega hundruði manna að horfa á þig! Sólin allt í einu af skornum skammti vegna risa byggðar! Fyrir utan caosið í umferðar og samgöngumálum sem verður sér kafli bara að reyna að komast út úr götunni þinni. Það er ekkert samræmi í þessum aðgerðum né tillit til næstu byggðar eins og tíðkast. Að mínu mati skýrt brot á einkalífi og rýrnun á fjárfestingu sem ber að svara eða bæta vel fyrir. Það fylgja svona miklum framkvæmdum hávaði, læti, rask, vinnuvélar og mögulega sprengingar við byggingu á nýjum kjarna, þekki persónulega vel til þess í gegnum ævina. Við munum taka myndir af húsinu okkar áður en það gerist og við fyrstu sprungu í vegg verður send á ykkur athugasemd og málinu fylgt eftir á einn eða annan hátt.
1.Hver er ábyrgð Reykjavíkur borgar á slíkum skemmdum á nærliggjandi íbúðarhúsnæði?
SVAR: Ekki skal gert lítið úr áhyggjum borgarbúa yfir eignum sínum þar sem ævisparnaður meginþorra fólks liggur í fasteignum. Erfitt getur hinsvegar verið að fallast á röksemdir varðandi meinta verðrýrnun eigna en bent skal á að skv. 1. mgr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, "Bætur vegna skipulags og yfirtaka eigna í skipulags- og byggingarlögum", á sá sem sýnt getur fram á tjón vegna gildistöku skipulags e.a. rétt á bótum úr sveitasjóði, en grein þessi er svohljóðandi: “Nú veldur gildistaka skipulags því að verðmæti fasteignar lækkar, nýtingarmöguleikar hennar skerðast frá því sem áður var heimilt eða að hún rýrnar svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður og á þá sá sem sýnt getur fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði eða ríkissjóði eftir atvikum vegna landsskipulagsstefnu eða að sveitarsjóður leysi fasteignina til sín”. Telji athugasemdaraðili að sínum rétti hallað skal hann beina kröfu til borgarstjórnar.
2.Sjáið þið það fyrir ykkur að bæta þessu fólki sem býr næst við nýja kjarnan upp þann fjárhagslega skaða, skuggavarpi og rýrnun á sínum fasteignum sem þetta mun valda?
SVAR: Tillaga að skipulagi svæðisins liggur ekki fyrir og öll deiliskipulagsvinna fyrir viðkomandi reit ekki hafin. Það er því með öllu ótímabært að ræða um skuggavarp og/eða rýrnun á fasteignum á þessum tímapunkti. Aðalskipulag fjallar eingöngu um hvaða uppbyggingarheimildir mætti mögulega skoða á reitnum, ekki hvaða heimildir verði á reitnum skv. Deiliskipulagi.
Skipulag í Norður-Mjódd og fyrirhuguð hæð bygginga
„Hæðir húsa skulu almennt ákvarðast af hnattrænni legu borgarinnar, náttúrulegri umgjörð hennar, sögulegu byggðamynstri, gatnaskipan og rýmismyndum, og yfirbragði aðliggjandi byggðar.“ Þetta eru falleg orð í nýsamþykktu Aðalskipulagi Reykjavíkur. Þau virðast hins vegar ekki eiga við á reitum þar sem byggt er nú til dags og tekið er sérstaklega fram í aðalskipulaginu að þau eigi ekki við á þéttingarreitum. Þar þarf ekki að taka tillit til yfirbragðs eða aðliggjandi byggðar. Íbúar sem búa í þessari aðliggjandi byggð, eins og þau sem búa í nágrenni við Mjódd, geta því ekki treyst því að þessi orð um hnattræna legu og náttúrulega umgjörð eigi við um þau. Sólin er jafnhátt á lofti nú árið 2022 og hún var þegar Guðmundur Hannesson læknir, sem oft er vitnað í, benti á hnattræna stöðu Reykjavíkur m.t.t. hæða húsa og þéttleika. Hámarkshæðir voru miðaðar við þrjár í elstu hverfunum og eins í bökkunum. Aðalskipulagið sýnir svart á hvítu hvernig áhrif háreist byggð hefur á sólarleysi íbúða neðstu hæða, svo að ekki sé talað um nágranna sem eru í rað- eða einbýlishúsum á einni til tveimur hæðum. Þannig sér íbúi á fjórðu hæð og neðar í 7 hæða íbúðarandbyggð aðeins sól frá vorjafndægri til haustjafndægurs. Nú er bráðum vorjafndægur og því hægt að setja sig í spor viðkomandi ef hann hefur ekki séð sól koma inn um gluggann síðan í haust. Miðað við byggingarmagn sem gert er ráð fyrir í aðalskipulagi í Mjódd er gert ráð fyrir 60.000 m2 nýju atvinnuhúsnæði og um 80.000 m2 íbúðarhúsnæði fyrir utan núverandi byggingar sem eru um 45.000 m2 = 185.000 m2 byggingarmagn. Svæðið er um 100.000 m2 og nýtingarhlutfall verður 1,85 sem eru engin eðlileg viðmið ef hlúa á að gæðum byggðar, og þrisvar sinnum meira en almenn viðmið aðalskipulags hafa verið hingað til. Íbúar í neðra-Breiðholti fagna uppbyggingu í Mjódd, fagna þéttingu og fagna komu Borgarlínu en ég get fullyrt að íbúarnir vilja ekki að sturluð viðmið um byggingarmagn, hæðir húsa og þéttleika sem ganga á lífsgæði núverandi og komandi íbúa hverfisins. Ég horfði á opinn fund um samgöngur s.l. föstudag þar sem borgarstjóri talaði um mótmæli íbúa fyrri tíma vegna Fossvogsbrautar og Bernhöftstorfu. Þar lýsti hann ánægju yfir því að áform borgaryfirvalda náðu ekki fram að ganga þá.
Ætlar borgarstjóri að stöðva skipulagsslys í uppsiglingu í Mjódd og hlusta á okkur íbúa í nágrenninu núna eða skipta málefnaleg rök og undirskriftalisti næstum allra íbúa á svæðinu engu máli?
SVAR: Tillaga að skipulagi svæðisins liggur ekki fyrir og öll deiliskipulagsvinna fyrir viðkomandi reit ekki hafin. Það er því með öllu ótímabært að ræða um skuggavarp og/eða rýrnun á fasteignum á þessum tímapunkti. Aðalskipulag fjallar eingöngu um hvaða uppbyggingarheimildir mætti mögulega skoða á reitnum, ekki hvaða heimildir verði á reitnum skv. deiliskipulagi.
Skipulag í Norður-Mjódd og skólamál
Skipulag Breiðholtshverfis er talið vel heppnað m.t.t. blöndunar íbúðagerða í öllum skólahverfum Breiðholtsins. Ef áætlanir ganga eftir með byggingu 800 íbúða í Mjódd er fyrirséð að Breiðholtsskóli tekur ekki við svo mikilli fjölgun. Ef nýr grunnskóli verður byggður í Mjódd - innan um öll háhýsin - er gengið gegn þeirri góðu hugmyndafræði sem skipulag hverfisins er byggt upp með, með dreifingu íbúðastærða og gerða og þar með tekjuhópa í sama skólahverfi. (Það má benda á að erlendis er verið að reyna að laga slík hverfi með því að tengja þau betur umhverfi sínu og setja inn fjölbreyttari íbúðagerðir). Verður það á ábyrgð félagshyggjustjórnar að byggja upp einangraða eyju í Mjódd þar sem börnin í háhýsunum fara í leik- og grunnskóla bara með sínum líkum?
SVAR: Það er rétt hjá fyrirspyrjanda að huga þurfi vel að skólamálum samhliða þéttingu byggðar og á það jafnframt við um alla uppbyggingu á Mjóddarsvæðinu. Skólamál eru því órjúfanlegur hlutur af allri áætlaðri skipulagsgerð fyrir svæðið. Sú vinna er ekki farin af stað enn sem komið er.
Vetrarþjónusta - Skógahverfi
Er búin að búa í skógahverfinu í 46 ár. Hvers vegna eru göturnar ekki mokaðar? Hef ekki komist út götuna (Hléskógar) vikum saman. Ég fer helst ekki út fyrir hverfið, hér er gott að búa. Hér er næstum öll þjónusta sem ég þarf. Hef ekki farið í 101 árum saman. Á að taka alla þjónustu af okkur sem Reykjavíkurborg á að sjá um. Við borgum okkar skatta og skilur eins og aðrir borgarbúar. Vonandi kemst ég út götuna mína sem fyrst og fæ áfram að njóta hverfisins.
SVAR: Við höfum átt í erfiðleikum með klakamyndun í húsagötum frá 7.febrúar vegna mikillar ofankomu. Eftirlitsmenn verða að forgangsraða þeim tækjum sem við höfum til að brjóta klaka og leitast er við að klára fyrst þær götur sem eru í hvað verstu ástandi. Sama verklag er viðhaft um alla borg.
Vetrarþjónusta - Fell
Hvernig stendur á því að jafn langan tíma og raun ber vitni, tekur að hreinsa snjó - sem nú er reyndar orðinn að klaka - úr húsagötum sem hafa merkinguna þjónustu flokkur 3? Ég sendi ábendingu til borgarinnar 24. febrúar um slaklegan snjómokstur á götunni sem ég bý við og fékk eftirfarandi svar sama dag: "Rétt ábending, eftirlit hefur verið látið vita. Þetta hefði átt að taka með í gær. Vonandi verður þetta hreinsað síðar í dag. kv, Björn" Enn hefur ekki nokkurt einasta tæki á vegum borgarinnar komið í þessa götu að moka burtu snjónum/klakanum sem er löngu orðinn illfær.
SVAR: Umrædd gata, inn að Norðurfelli 1-11, fór í vinnslu til verktaka sama dag og ábendingu var svarað og starfsfólk vetrarþjónustu er á þeirri skoðun að þá hafi verktaki hreinsað þá götu. Sé upplifun íbúa önnur, er það miður. En auðvitað geta okkar verktökum alltaf orðið á mistök, sem og okkur sjálfum og þá þiggjum við ítrekun í ábendingavef.
Umferðarmál - Höfðabakki/Stekkjarbakki
Er það rétt að banna eigi hægri beygju frá Stekkjabakka í att að Höfðabakka? Ef svo er bið ég Borgarstjóra að hugsa það mál betur, þetta er leið sem margir fara áleiðis í Árbæinn, Heilsugæslu Höfða, Grafarvog og Vesturlandsveg. Ef þessari leið verður lokað beinist umferð i gegnum hverfin, t.d. Fálkabakka eða Vesturberg. Takk.
SVAR: Ekki er kannast við að til standi að banna hægribeygju frá Stekkjarbakka í átt að Höfðabakka.