Mitt hverfi

Borgin er í stöðugri þróun. Markmið hverfisskipulags er að gróin hverfi fái að þroskast og þróast svo þau geti tekist á við breyttar áherslur en um leið viðhaldið sérkennum sínum og karakter.

Þannig er hægt að horfa til framtíðar en standa vörð um hverfisandann - hjartsláttinn í hverju hverfi.

Blómlegir hverfiskjarnar

Margir hverfiskjarnar í grónum hverfum Reykjavíkur eru með blómlegri verslun og þjónustu. Sumir hafa hinsvegar mátt muna fífill sinn fegurri. Hverfisskipulag hefur það að markmiði að styrkja þessa kjarna svo að sem fjölbreyttust nærþjónusta sé í boði fyrir flesta íbúa í þægilegu göngufæri.

Oft þarf að fegra og bæta umhverfi kjarnanna og í sumum tilfellum geta auknar byggingarheimildir styrkt kjarnann. Með nýjum byggingarheimildum má útbúa nýjar íbúðir á efri hæðum eða bæta við atvinnurýmum, enda þrífast hverfiskjarnar best í þéttri byggð þar sem samgöngumátar fólks eru fjölbreyttir.    

Borgargötur

Í hverju hverfi eru skilgreindar sérstakar borgargötur. Borgargötur eru lykilgötur innan hvers hverfis og við þær standa gjarnan verslunar- og þjónustukjarnar hverfisins. Borgargötur geta sömuleiðis verið mikilvæg tenging milli hverfa og hverfishluta.

Í hverfisskipulagi er lögð sérstök áhersla á að umhverfi borgargatna verði fegrað og að gert sé ráð fyrir öllum samgöngumátum við þær. Ítarlegir skilmálar og leiðbeiningar hverfisskipulags fyrir borgargötur gera ráð fyrir að gatan og umhverfi hennar sé endurhannað með það að markmiði að auka trjágróður eins og hægt er, gera yfirborð götu og stíga fallegra og setja gangandi vegfarendur í forgang. Við göturnar er sömuleiðis lögð áhersla á hverfistorg og almenningsrými sem nýtast íbúum.

Endurhönnun borgargatna getur gerbreytt ásýnd hverfa og styrkt hverfisvitund, dregið úr umferðarhraða og aukið öryggi og lífsgæði íbúa. Aðstæður eru ólíkar milli hverfa borgarinnar og útfærslur geta því verið margskonar en nauðsynlegt er að reyna að standa vörð um sérkenni hvers hverfis.

Grenndarstöðvar

Mikil áhersla er á aukna sorpflokkun og endurnýtingu. Á næstu árum má gera ráð fyrir að enn frekari kröfur verði gerðar til flokkunar og því mikilvægt að tryggja að grenndarstöðvar séu víða og aðgengilegar. 

 

Stefna Reykjavíkur er að grenndarstöð sé í góðu göngufæri við alla íbúa borgarinnar og í hverfisskipulagi er skoðað hvort tilefni er til að fjölga stöðvum eða breyta staðsetningum. Í hverfisskipulagi er reynt að koma grenndarstöð fyrir miðsvæðis í hverfinu, t.d. í tengslum við endurhönnun borgargötu eða nærri þjónustukjörnum. Á slíkum svæðum er alla jafna reynt að koma grenndarstöð í djúpgáma enda eru þeir snyrtileg lausn og ekki eins plássfrekir á yfirborðinu eins og hefðbundnir endurvinnslugámar.

 

 

Djúpgámar

Djúpgámar eru gámar þar sem hluti gámsins, þar sem úrgangur safnast fyrir, er neðanjarðar en á yfirborði er lúga sem er notuð til að losa úrgang. Í þéttri byggð, svo sem við borgargötur og hverfiskjarna, þar sem pláss er af skornum skammti geta djúpgámar verið hagkvæm lausn fyrir grenndarstöð. Djúpgámar eru einnig snyrtileg lausn sem hentar betur en hefðbundnir gámar í hjarta hverfisins.

 

Hverfisskipulag heimilar sömuleiðis að djúpgámum sé komið fyrir á lóðum fjölbýlishúsa og atvinnuhúsnæðis þar sem aðstæður leyfa. Samráð þarf að hafa við skrifstofur skipulagsfulltrúa og umhverfisgæða á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur um staðsetningu og fyrirkomulag djúgámanna.  

Hverfisvernd

Til að standa vörð um merkilegar og mikilvægar byggingar og mannvirki, götumyndir, sagnfræðilegar minjar, náttúruminjar eða annað er hægt að setja á svokallaða hverfisvernd í skipulagi. Hverfisvernd getur verið af sagnfræðilegum, menningarlegum eða líffræðilegum ástæðum og er ætlað að vernda þau atriði sem eiga þátt í að skapa hverfinu sérstöðu og móta ímynd þess og anda.

 

Verndartillögur í hverfisskipulagi eru byggðar á byggðakönnun fyrir hvert hverfi, sem unnin er í aðdraganda hverfisskipulags. Húsavernd er alla jafna einna fyrirferðamest í skilmálum hverfisskipulags, hvort sem um er að ræða verndun á einstökum húsum eða stærri byggðarheildum. Í skilmálum hverfisskipulags kemur nánar fram hvað felst í vernduninni sem getur takmarkað eða komið í veg fyrir breytingar á húsum eða öðru því sem verndin nær til.