Djúpgámar

Djúpgámar eru gámar þar sem hluti gámsins, þar sem úrgangur safnast er neðanjarðar. Við stærri fjölbýlishús, fjölbýlishúsakjarna og þéttari húsabyggð þar sem þéttleiki byggðar er mikill geta djúpgámar verið hagkvæm lausn. Ef þú vilt setja upp djúpgáma byrjar þú á því að hafa samband við skipulagsfulltrúa.

Hvað eru djúpgámar?

Djúpgámar eru gámar þar sem hluti gámsins, þar sem úrgangur safnast fyrir, er neðanjarðar en á yfirborði er lúga sem er notuð til að losa úrgang. Lögun á opnun gámsins er breytileg og fer eftir þeim úrgangsflokki sem á að fara í gáminn. Sá úrgangur sem hverjum gámi er ætlað að taka við getur breyst á notkunartíma gámanna og því er mælt með að valin séu op sem henta fleiri en einum úrgangsflokki. Stærð þeirra á yfirborði getur verið fjölbreytileg í ummáli og hæð.

 

Athugið að lóðarhafi ber ábyrgð á að úrgangslausn henti því úrgangsmagni sem til fellur í húsnæðinu. Við ákvörðun á fjölda og stærð gáma verður að tryggja að nægilega margir gámar komist fyrir þar sem erfiðara er að fjölga þeim ef þeir yfirfyllast sem getur orðið til þess að rusl fer að safnast upp í kring um gámanna.

Djúpgámar við Freyjutorg

Staðsetning og fjöldi

Staðsetning djúpgáma skal vera inn á lóð viðkomandi byggingar. Gámarnir skulu vera staðsettir í sömu þyrpingu á lóð og sama aðgengi að þeim öllum en þó er hægt að hafa aukið aðgengi að skilum á endurvinnsluefnum. Fjöldi þeirra og nákvæm staðsetning fer eftir fjölda íbúða og fjarlægð frá inngangi byggingar að djúpgámaþyrpingu skal almennt ekki vera lengri en 75 metrar.

Í gróinni byggð þarf mögulega að forhanna aðgang íbúa og losunarbíla að gámunum. Í undantekningartilfellum þar sem sýnt er fram á, með sérstökum rökstuðningi, að ekki sé unnt að staðsetja djúpgáma á lóð viðkomandi fasteignar er heimilt að staðsetja djúpgáma á sérstakri lóð sem er í tengslum við þá lóð sem fasteign stendur á, svokallaðri fylgilóð. Athugið þó að sami eigandi þarf að vera á lóðunum.

Endanleg gerð djúpgáma og fyrirkomulag staðsetningar þeirra og aðkoma til hirðu er háð samþykki skrifstofu umhverfisgæða Reykjavíkurborgar.

Kostnaður og ábyrgð

Kaup gáma, rekstur þeirra og framkvæmdir við gerða og frágang í kringum þá, hvort sem er kassi, gámur, lúga eða annar tengdur búnaður, skal vera á kostnað og ábyrgð lóðarhafa. 

Þrif á djúpgámum, þ.e. lúgu, öryggispalli og tæming á vatni úr steyptum kassa djúpgáma og umhirða umhverfis, er á ábyrgð lóðarhafa. Sé þrifum og/eða umgengni ábótavant áskilur Reykjavíkurborg sér rétt til að neita tæmingu. Hreinsun getur verið framkvæmd á kostnað lóðarhafa ef hann sinnir ekki áskorunum um slíkt. Viðhald á gámum og tengdum búnaði er á hendi lóðarhafa.

Gjaldskrá