Frá fortíð til framtíðar á Kjalarnesi
Byggð á Kjalarnesi nær allt aftur til landnámsaldar en þéttbýliskjarninn í Grundarhverfi fór að byggjast upp í kjölfar þess að skipulag fyrir hverfið var samþykkt árið 1973. Kjalarneshreppur sameinaðist Reykjavík 1998.
Byggð á Kjalarnesi nær allt aftur til landnámsaldar. Jarðarinnar Hofs er getið í Landnámu þar sem Helgi Bjóla byggði bæ og settist að. Þéttbýliskjarninn í Grundarhverfi fór hinsvegar að byggjast upp í kjölfar þess að skipulag fyrir hverfið var samþykkt árið 1973.
Kjalarneshreppur sameinaðist Reykjavík 1998, sama ár og gildandi deiliskipulag Grundarhverfis tók gildi. Síðan þá hafa verið haldin nokkur íbúaþing og samráðsfundir þar sem rætt hefur verið um framtíðarþróun hverfisins, meðal annars árin 2005, 2010 og 2017.
Grunnur að vinnu við hverfisskipulag Grundarhverfis var lagður árið 2017 þegar börn í Klébergsskóla byggðu líkan af hverfinu og borgarstjóri hélt íbúafund. Þar sem lögð var áhersla á að klára hverfisskipulag annarra hverfa á undan Grundarhverfi hefur vinna við skipulagið legið niðri undanfarin ár.
Nú er stefnt að því að hefja vinnuna á ný og klára hverfisskipulag Grundarhverfis snemma á árinu 2026. Horft verður til þeirra hugmynda sem áður hafa komið fram en íbúar eru hvattir til að koma hugmyndum sínum og athugasemdum á framfæri í samráðsferlinu sem framundan er á næstu vikum og mánuðum.