Bústaðavegur

Til að tryggja betur öruggar tengingar milli hverfa og gera um leið austurhluta Bústaðavegar meira aðlaðandi er það hugmynd ráðgjafa hverfisskipulagsins að gera svæðið frá Grímsbæ að Tunguvegi að sérstöku þróunarsvæði þar sem þjónusta og íbúðabyggð verði efld, samtímis því sem götunni verði breytt í borgargötu. Þetta er liður í samráði við íbúa um framtíðarhlutverk og fyrirkomulag þessarar miklu samgönguæðar í borgarhlutanum, sem er þannig tekin út fyrir ramma hverfisskipulagsins.

Þegar hefur verið ákveðið að lækka hámarkshraða á Bústaðavegi í 40 km/klst. og með því að gera hann að borgargötu skapast líka tækifæri til að fjölga þar íbúðum að mati ráðgjafa hverfisskipulagsins og búa til heildstæða götumynd með auknu umferðaröryggi, íbúum, vegfarendum og umhverfinu til heilla.

Tillaga ráðgjafa hverfisskipulagsins er að svæðið frá Grímsbæ að Tunguvegi verði þróunarsvæði þar sem bæði þjónusta og íbúðabyggð verði efld.

Aukið mannlíf og betri landnýting

Verði þessi áform að veruleika hefur það í för með sér aukið mannlíf á svæðinu og betri nýtingu lands sem er nú lagt undir veghelgunarsvæði og ónýtt jaðarsvæði. Stefnt er að því að fjölga búsetutækifærum og auka fjölbreytni íbúðagerða á svæðinu og vera með verslunar- og þjónusturými á jarðhæðum í bland við íbúðarhúsnæði. Hugmyndir eru um að reist verði viðbygging sunnan við Grímsbæ, þar sem t.d. mætti koma fyrir kaffihúsi, en margir íbúar kölluðu eftir slíkri þjónustu í fyrra samráðsferli hverfisskipulagsins.

Ný hús tækju mið af núverandi byggð

Verði þær heimildir nýttar sem lagðar eru til í vinnutillögum hverfisskipulagsins getur nýjum íbúðum fjölgað umtalsvert innan þéttingarreitanna meðfram Bústaðaveginum. Horft er til þess að nýju byggingarnar tækju mið af núverandi byggð, fléttuðust inn í byggðarmynstrið, jafnframt því sem skjólgóð garð- og útisvæði yrðu til. Þannig gætu tveggja til þriggja hæða fjölbýlishús raðast sitt hvoru megin við borgargötuna Bústaðaveg og myndað heildsteypta götumynd. Stuðst yrði við blágrænar ofanvatnslausnir og landhalli til suðurs opnar möguleika á að vera með bílskýli og þakgarða í nýju byggingunum. Íbúðir yrðu fjölbreyttar að stærð og gerð og gætu hentað öllum hópum, s.s. námsfólki, ungu fólki og fyrstu kaupendum, sem gætu nálgast mest af daglegum nauðsynjavörum innan hverfisins.