Kosning í Hverfið mitt

Þegar búið er að velja hugmyndir fer fram hverfakosning í öllum hverfum Reykjavíkur á Hverfidmitt.is. Kosið verður í Hverfið mitt 14. til 28. september 2023. Öll sem eru 15 ára og eldri og eiga lögheimili í Reykjavík geta kosið. Kosningin er rafræn og notendur þurfa að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum eða Íslykli. 

Hvernig kýs ég í Hverfið mitt?

Þú getur valið í hvaða borgarhluta þú vilt kjósa, en einungis er hægt að kjósa í einu hverfi. 

Þú getur valið hugmyndir þangað til allri upphæð hverfisins hefur verið ráðstafað. Það þarf ekki að nota alla upphæðina sem hverfið hefur til ráðstöfunar.

Hægt er að kjósa oftar en einu sinni en einungis síðasta kosningin er gild. 

Í hægra horni á hverri hugmynd er valflipi þar sem hægt er að fá nánari upplýsingar um tiltekið verkefni.

Stjarnan - tvöfalt vægi

Er einhver hugmynd í sérstöku uppáhaldi? Þú getur sett stjörnu við eina af hugmyndunum sem þú kýst til að gefa þeirri hugmynd tvö atkvæði.

Rafræn skilríki og Íslykill

Við vekjum athygli á því að til að geta kosið þarf að vera með rafræn skilríki í síma eða Íslykil

 

Aðstoð við að kjósa í Hverfið mitt

Aðstoð við að kjósa er hægt að fá í Þjónustuveri Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12–14, og á öllum fimm þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar á meðan kosning stendur yfir. 

Hvernig er fjármagni skipt á milli hverfa?

Hverfi Reykjavíkur eru tíu: Vesturbær, Miðborg, Hlíðar, Laugardalur, Háaleiti og Bústaðir, Breiðholt, Árbær, Grafarvogur, Grafarholt og Úlfarsárdalur, og Kjalarnes. 

Hægt er að sjá hverfaskiptingu Reykjavíkurborgar inni á Borgarvefsjá. Undir Borgarskipting er hakað við „Borgarhlutar“. 

Svona skiptist fjármagnið

  • Árbær: 41 milljónir 
  • Breiðholt: 67 milljónir 
  • Grafarholt-Úlfarsárdalur: 31 milljónir 
  • Grafarvogur: 56 milljónir 
  • Háaleiti-Bústaðir: 51 milljónir 
  • Hlíðar: 41 milljónir 
  • Kjalarnes: 14 milljónir 
  • Laugardalur: 27 milljónir 
  • Miðborg: 39 milljónir 
  • Vesturbær: 53 milljónir 

Afhverju fá sum hverfi meira en önnur?

Gert er ráð fyrir 450 milljónum króna til verkefnisins. Til að tryggja minnstu hverfunum lágmarksfjárhæð er fjórðungi fjármagnsins skipt jafnt milli hverfa. Það fjármagn sem eftir stendur skiptist á milli hverfanna í réttu hlutfalli við íbúafjölda. 

Fyrstu 112,5 milljónum er þannig skipt jafnt milli hverfanna tíu og koma því að lágmarki 11,25 milljónir króna í hlut hvers hverfis. Því sem eftir stendur, eða 337,5 milljónum króna, er skipt á milli hverfanna í samræmi við íbúafjölda og fæst þá heildarfjárheimild hverfisins. 

 

Framkvæmd verkefna 

Hönnun verkefna sem hljóta kosningu hefst að kosningu lokinni. Að því loknu verða verkefnin boðin út og hefjast framkvæmdir um sumar árið eftir kosninguna. Upplýsingum um framgang þeirra verður miðlað í Framkvæmdasjá. 

 

Leitast verður við að hafa samráð við hugmyndasmiði og íbúaráð um útfærslu verkefna – ekki síst í þeim tilfellum þegar þarf að breyta hugmyndum eða aðlaga þær svo þær séu framkvæmanlegar. 

 

Þeim hugmyndum sem ekki ná kosningu verður eftir atvikum komið áfram sem ábendingu til fagráða eða sem innleggi í skipulagsumræðu. Þannig geta hugmyndirnar nýst áfram. 

Reglur um rafrænar kosningar 

Hverfið mitt 2022-2023

 

Hverfið mitt er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda í hverfum Reykjavíkurborgar. 

 

Vakin er athygli á því að ekki er um að ræða íbúakosningu í skilningi 107. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er tóku gildi 1. janúar 2012.