Húsnæðisstefna og -áætlun
Það er stefna Reykjavíkurborgar að allir borgarbúar hafi öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði, hvort sem fólk þarfnast stuðnings með húsnæðismál sín eða ekki. Húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar nær þannig utan um húsnæðisþarfir allra borgarbúa, óháð eignarformi, stærð og gæðum húsnæðis.
Uppfærð húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar var lögð fyrir borgarráð 10. nóvember 2022
Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er sett fram til að mæta áskorunum á húsnæðismarkaðnum og markmiðum Reykjavíkurborgar í húsnæðismálum. Hún byggir á stefnumörkun Reykjavíkurborgar á sviði húsnæðismála og á lagaumgjörð og greiningum á stöðu á húsnæðismarkaðinum. Í henni eru skilgreind helstu byggingarsvæði í Reykjavík og hvernig uppbyggingu íbúðahúsnæði í þágu allra borgarbúa verður háttað í samvinnu við verkalýðshreyfinguna, húsnæðissamvinnufélög, samtök eldri borgara, stúdenta og einkaaðila.
Húsnæðisstefna
Á þessum vef má sjá ýmsar upplýsingar um húsnæðisstefnu og húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar. Á vef Græna plansins má jafnframt fylgjast með uppbyggingu íbúða í Reykjavík samkvæmt húsnæðisáætluninni. Uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík voru gerð skil á kynningarfundi sem borgarstjórinn í Reykjavík bauð til þann 29. október 2021.
Stefnumótun
Stefnumótun Reykjavíkur á sviði húsnæðismála er að finna í samþykktum stefnuskjölum og samþykktum borgarstjórnar og borgarráðs.
Helstu stefnuskjöl sem taka til húsnæðismála eru húsnæðisstefna Reykjavíkur, Samstarfssáttmáli við myndun meirihluta borgarstjórnar 2018-2022, Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 og Samningsmarkmið Reykjavíkurborgar á nýjum uppbyggingarsvæðum.
Stefnumótun Reykjavíkur í húsnæðismálum er einnig að finna í eftirfarandi:
- Græna planið fjallar um efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbæra Reykjavíkurborg og um uppbyggingu húsnæðis, þéttingu byggðar og aukna sjálfbærni íbúðahverfa.
- Tillögur að nýjum viðauka við aðalskipulagið voru lagðar fyrir skipulags- og samgönguráð og borgarráð í október 2020 og fela í sér endurskoðun á stefnu um íbúðabyggð og blandaða byggð og framlengingu skipulagstímabils til ársins 2040.
- Borgarlínuverkefnið er ein af meginstoðum í nýsamþykktum samgöngusamningi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins sem gerir ráð fyrir stórátaki í samgöngumálum til að tengja höfuðborgarsvæðið enn betur saman á næstu 15 árum.
- Samstarfssáttmáli sem gerður var við myndun meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur 2018-2022 kveður m.a. á um verkefni á sviði húsnæðismála.
Fjórir flokkar húsnæðismála
Til einföldunar má taka saman markmið Reykjavíkurborgar á sviði húsnæðismála í fjóra flokka:
Húsnæði fyrir alla:
- Húsnæðisframboð verði í samræmi við þarfir hverju sinni og aukið framboð verði af smærri íbúðum á næstu árum, burtséð frá eignarformi.
- Fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosta fyrir alla félagshópa og að hvers konar búsetuúrræði rúmist innan íbúðarbyggðar, miðsvæðis þar sem gert er ráð fyrir íbúðarhúsnæði eða í annarri blandaðri byggð.
- Húsnæðisstuðningur Reykjavíkurborgar verði bundinn persónulegum aðstæðum íbúa.
- Horft verði sérstaklega á húsnæðisþarfir ungs fólks og þeirra sem eru að fóta sig í fyrsta skipti á húsnæðismarkaði og einnig þeirra sem ekki vilja leggja eða ekki geta lagt mikið fé í eigið húsnæði.
- Markmiðið er að skapa skilyrði fyrir uppbyggingu minnst 1.000 nýrra íbúða á ári að meðaltali. Þar af er gert ráð fyrir að byggja um 250 íbúðir á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í ágóðaskyni.
Fjölgun leigu- og búseturéttaríbúða:
- Fjölgun leiguíbúða og búseturéttaríbúða í eigu húsnæðissamvinnufélaga, félagasamtaka og/eða einkaaðila, einkum á miðlægum svæðum sem auðvelt er að þjóna með almenningssamgöngum.
- Stefnt verði að því að um 25% nýrra íbúða verði á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í ágóðaskyni.
- 2.500-3.000 nýjar leigu- og búseturéttaríbúðir verði byggðar á næstu árum í samvinnu við leigu- og búseturéttarfélög.
- Félagsbústaðir verði kjölfesta í nýjum uppbyggingarverkefnum.
Öflug og sjálfbær hverfi:
- Uppbygging húsnæðis sem hentar lægri tekjuhópum verði einkum á svæðum sem auðvelt er að þjóna með góðum almenningssamgöngum og/eða í grennd við stóra atvinnukjarna og fjölbreytta þjónustu.
- Skapaðar verði sterkar hverfisheildir sem standi undir grunnþjónustu, fjölbreyttri verslun og þjónustu, íþrótta- og frístundastarfsemi og fjölbreyttu mannlífi.
- Að ávallt verði horft til samhengis húsnæðiskostnaðar og kostnaðar vegna samgangna, við mótun húsnæðisstefnu og gerð húsnæðisáætlana.
- Visthæfar og sjálfbærar hönnunarlausnir verði ávallt leiðarljósi við mótun nýrrar íbúðarbyggðar.
Góð landnýting og þétting meðfram þróunarásum:
- Land og innviðir borgarinnar verði nýttir sem best og að stofnkostnaður innviða fyrir uppbyggingarsvæði verði greiddur með fjármunum sem fást af uppbyggingunni.
- Þétting byggðar - 90% allra nýrra íbúða í Reykjavík til ársins 2030 rísa innan núverandi þéttbýlismarka. Þrjú svæði muni gegna lykilhlutverki við þróun Reykjavíkur á næstu áratugum; Vatnsmýri, Elliðaárvogur og Miðborgin/Gamla höfn.
- Þétting byggðar og nýjar íbúðir verði við þróunarása sem tengi miðborgina, m.a. með Borgarlínu, við þéttingarsvæði til austurs og til suðurs með hliðsjón af væntanlegri byggð í Vatnsmýrinni og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.