Samningsmarkmið

Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár unnið að ákveðnum markmiðum á uppbyggingarsvæðum í samvinnu við uppbyggingaraðila. 

Unnið er skv. samþykkt borgarstjórnar - sjá tengil neðst á síðu. 

Samningsmarkmið Reykjavíkurborgar á uppbyggingasvæðum 

Reykjavíkurborg hefur skilgreint nokkur mikilvæg markmið sem ætlað er að tryggja gagnsæi við úthlutun lóða og gæta samræmis milli svæða hvað varðar t.d. félagslega blöndun auk fleiri markmiða. Með skilgreindum markmiðum er samningagerð einnig markvissari, en á uppbyggingarsvæðum í Reykjavík er gjarnan blandað eignarhald – Reykjavíkurborg á landið en lóða- og/eða byggingaréttur er í höndum einkaaðila sem eru handhafar lóðarsamninga með mismunandi lóðarleiguréttindum. 

Samningsmarkmiðin gilda um uppbyggingu á lóðum þar sem breytt nýting á lóð eða viðbótarbyggingarmagn er meira en 800 fermetrar að flatarmáli, eða 15 eða fleiri nýjar íbúðir verða til. Þau geta einnig gilt í sérstökum tilvikum, t.d. þegar skilgreiningu á notkun húsnæðis er breytt líkt og úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði eða aðrar veigamiklar breytingar eru gerðar – allt eftir aðstæðum hverju sinni. Borgarráð getur sett sérstök samningsmarkmið sem gilda á stærri uppbyggingarsvæðum. 

Samningsmarkmiðin gilda ekki t.d. þegar byggð er hæð ofan á fjöleignarhús inni í hverfi og í öðrum undantekningartilvikum. 

Samningsmarkmið vegna uppbyggingarsvæða í Reykjavík eru: 

- Að til verði gott borgarskipulag með þeim áherslum sem koma fram í Aðalskipulagi Reykjavíkur. 

  • Áhersla lögð á fjölbreytileika í stærð og gerð íbúða. 

  • Áhersla lögð á gæði og gott umhverfi. 

  • Áhersla lögð á að varðveita staðaranda og yfirbragð byggðar. 

- Að land og innviðir borgarinnar verði nýttir sem best. 

Að greiðsla komi til fyrir breytta nýtingu og/eða aukinn byggingarrétt fyrir íbúðir eða atvinnuhúsnæði. Greiðslur þessar geta verið mismunandi eftir staðsetningu og svæðum. 

- Að ákveðinni fjárhæð verði varið í listsköpun í almenningsrýmum á skipulagssvæðinu.  

- Að byggt verði upp í samræmi við Húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar 2020 og stuðlað að uppbyggingu leigumarkaðar og félagslegri blöndun íbúa. 

  • Miða skal við að um 20% íbúða í hverfum verði leiguíbúðir, þ.m.t. stúdentaíbúðir, leiguíbúðir Félagsbústaða hf., íbúðir fyrir aldraða og/ eða búseturéttaríbúðir. 

  • Félagsbústaðir hf. hafi kauprétt fyrir allt að 5% íbúða fyrir félagslegt leiguhúsnæði á föstu verði bundið byggingarvísitölu. 

  • Í samráði við lóðarhafa skal þinglýsa kvöðum á viðkomandi lóð um hvaða íbúðir á lóð falli undir ákvæðið um leiguíbúðir og kauprétt Félagsbústaða hf. 

Í deiliskipulagstillögum um uppbyggingasvæði skulu koma fram markmið um félagslega blöndun og leiguíbúðir. 

 

Samningsmarkmið um uppbyggingu á lóðum

Samningsmarkmið þessi voru samþykkt á fundi borgarstjórnar 1. febrúar 2022.  Þau gilda um uppbyggingu á lóðum þar sem heimiluð verður breytt nýting á lóð/um og/eða viðbótarbyggingarmagn - sjá nánar í skjali. 

""