Hugmyndasöfnun um endurgerð Laugardalslaugar

Framundan er hönnunarsamkeppni meðal fagaðila um endurgerð Laugardalslaugar og tengdra mannvirkja. 

Íbúum gafst kostur á að koma á framfæri sínum hugmyndum á Betri Reykjavík, í tölvupósti og skila inn hugmynd í hugmyndakassa sem staðsettur var í Laugardalslaug. Nú hefur verið lokað fyrir hugmyndasöfnun.

Nánar

Leitað er að framsæknum og nýstárlegum hugmyndum sem undirstrika hlutverk laugarinnar sem miðstöð sundíþrótta, sundkennslu, vellíðunar og vatnsleikja fyrir fólk á öllum aldri. Auk þess að vera lifandi menningar- og samfélagsvettvangur.

Stúkan

Stúka Laugardalslaugar er eitt af kennileitum borgarinnar og gert er ráð fyrir að viðhalda í meginatriðum útliti eldri mannvirkja. Kallað var eftir hugmyndum um þróun og aukna notkun stúkumannvirkis í heild sinni.

Sundmenning

Á Íslandi er mikil og rótgróin sundmenning. Laugarnar skipa stóran sess í lífsgæðum Íslendinga og er sundmenning hér á landi ólík því sem gerist víða annars staðar í heiminum. Sundferð er hluti af hversdeginum, fastur liður í daglegri rútínu margra, virkur og lifandi partur af samfélaginu.

Laugardalslaug er ein af átta almennings sundlaugum borgarinnar sem reknar eru af Íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkur. Í þjónustu sundlauga birtist mjög vel sá þáttur í menningu borgarbúa sem við tengjum við heilbrigða lífshætti og þau náttúrugæði sem fólgin eru í heitu vatni og nýtingu jarðvarma.

Um verkefnið

Haldin verður hönnunarsamkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands. Á grundvelli samkeppninnar verði valin tillaga og hugmyndir til áframhaldandi hönnunar og framkvæmda.