Hlemmur

Hlemmsvæðið hefur verið skipulagt sem miðborgartorg, svæði fyrir margvíslegar uppákomur og leik í öruggu umhverfi. Það verður endurskapað sem almenningsrými fyrir alla aldurshópa með aðgengi fyrir öll og akandi umferð verður beint frá torgsvæðinu. 

Nýr og betri Hlemmur

Nýtt yfirborðsefni, setaðstaða, leik- og dvalarsvæði ásamt gróðri verða ríkjandi þættir á nýju Hlemmtorgi ásamt vistvænni nálgun á meðhöndlun yfirborðsvatns. Nýr hjólastígur verður lagður meðfram svæðinu og tengir Hverfisgötu og Laugaveg upp að Bríetartúni. 

 

Að framkvæmdum loknum verður svæðið sannkallað torgsvæði, ekki aðeins með auknum gróðri og dvalarrýmum heldur líka list. Klyfjahestur Sigurjóns Ólafssonar verður fluttur af sínum stað yfir á nýja svæðið nær mathöllinni. Þar verður einnig vatnsverk sem minnir á vatnsþróna sem áður var á Hlemmi. 

Teikning af nýjum Hlemmi. Börn að leik, tré, list og hellulögð stétt.

Forsagan

Reykjavíkurborg fór af stað með hugmyndaleit að nýju skipulagi á Hlemmtorgi í lok árs 2017. Leitað var eftir hugmyndum um fyrirkomulag skipulags með tilliti til legu hágæða almenningssamgangna um svæðið og nýja hönnun á torgi á svæðinu í kringum Hlemm. 

Tillögur arkitektastofanna Mandaworks og DLD voru valdar til áframhaldandi þróunarvinnu við Hlemm fyrir endurhönnun svæðisins.

Búið að breyta

Svæðið hefur verið skipulagt sem framtíðarsamkomustaður Reykvíkinga og allra landsmanna. 

 

Mikil ánægja er með endurgert svæði frá Hlemmi – Mathöll að Snorrabraut en framkvæmdum þar lauk síðastliðið haust. Svæðið hefur fengið nýtt og vinalegt yfirbragð með fjölbreyttum gróðurbeðum, trjám og góðu rými fyrir fólk.

 

Efnisvalið á nýjum Hlemmi sýnir tengingu við íslenska náttúru með basalthellum og stóru náttúrugrjóti í beðunum. Gróðurbeðin skapa ekki aðeins skemmtilegra umhverfi heldur stuðla að líffræðilegri fjölbreytni og eru um leið góðar ofanvatnslausnir með náttúrulegum farvegi fyrir regnvatn.

Hvað gerist næst?

Umbreyting á Hlemmi er gerð í nokkrum áföngum. Laugavegur sunnan mathallarinnar verður nú endurgerður og tengdur við nýja kaflann þar sem frá var horfið. 

 

Nú á vormisseri mun Strætó bs flytja tímabundið á nýjan stað við Skúlagötu en einnig kemur ný biðstöð á horni Laugavegs og Snorrabrautar um miðjan maí. Þannig skapast betra og öruggara rými fyrir lifandi mannlíf. 

 

Á kaflanum frá Rauðarárstíg við Gasstöðina og yfir gatnamót Laugavegs og Rauðarárstígs þarf að skipta um lagnir og leggja nýtt yfirborð. Aðalinngangur í mathöllina á framkvæmda- tíma verður norðanmegin. 

 

Stefnt er að því að þessum hluta framkvæmda á svæðinu ljúki sumarið 2025. 

Hlemmur á sér langa sögu

Hlemmur dregur nafn sitt af hlemmi sem komið var fyrir til að brúa Rauðará, einnig var vatnspóstur við Hlemm, þar sem þyrstir burðarklárar gátu svalað þorsta sínum. Laugavegur var lagður til að auðvelda þvottakonum að ganga að þvottalaugunum í Laugardal. Allt eru þetta minni sem unnið er með í tillögunni.

Nefna má að í blágrænum ofanvatnslausnum er vatnið gert sýnilegt á yfirborði og tengt við gróðurbeð sem nýta vatnið. Gróður skapar skjól og ramma í jöðrum torgsins ásamt byggingum og gróður er einnig gegnumgangandi element í göturýmum.

Umferð gangandi verður gert hátt undir höfði, megin göngustefnur eru greiðar og í forgangi þar sem þær þvera akstur. Torgið er hannað með aðgengi allra í huga, landhalli á megin leiðum er leystur með þetta í huga og aðgengi að byggingum einnig.

Í tillögunni er gert ráð fyrir hágæða biðstöðvum almenningssamgangna, upphituðum biðskýlum með nútímatæknilausnum og þægindum sem bjóða notandann velkominn.

Meginstef tillögunnar

  • Skapa ramma um fjölbreytt mannlíf á torginu, skapa skjól og spennandi dvalarsvæði
  • Vinna með sögulegar skírskotanir
  • Styrkja almenningssamgöngur sem spennandi valkost og styðja við mjúka ferðamáta
  • Gróðurvæða svæðið og nýta blágrænar ofanvatnslausnir.
  • Móta ramma um dvalarrými sem bæði börn og fullorðnir geta notið
  • Nýta vatn sem upplifun, eins og gufuna tengdum ferðum þvottakvenna og minnið um Rauðará: Við enda Laugavegar og Rauðarárstígs þar sem torgsvæðið opnast er gufusvæðið sem er minni um þvottalaugarnar í Laugardal, en Laugavegur var lagður þangað til að auðvelda þvottakonum burðinn að laugunum. Stöpullinn með burðarjálknum á Torginu hefur verið lækkaður og bekkur er nú hluti af útfærslu stöpulsins. Gufan mun fá nýja vídd í myrkri með lýsingu sem dregur fram litróf sem minnir á regnboga eða norðurljós.

Torgið verður almenningsrými fyrir alla

Torgbyggingar með mismunandi starfsemi eru hluti af heildar torghönnuninni, þær eru yfirbyggð torgrými, sem flæða virkni út á torgið. Auk bygginga undir gleri eru tvö opin stálvirki á torginu sem hægt er leika sér með eftir þörfum hverju sinni.

Norðurpóllinn situr í öndvegi og tengist torgskálunum beggja megin við sig með gleri. Á síðari stigum í hönnunarferlinu var hann slitinn frá þannig að allar byggingarnar verði stakstæðar.

Grænn og vænn Hlemmur

Hlemmur verður gróðurvæddur bæði til skjóls og yndisauka. Norðanvert á torginu eru samfelld beð með trjám og undirgróðri sem veita skjól ásamt torgskálunum sem þar standa. Laugavegur og Rauðarárstígur eru með gegnumgangandi gróður sem stundum þjóna hlutverki í regnbeðum.

 

Meira um svæðið

Hér er hægt að sjá deiliskipulag fyrir Hlemm og nágrenni auk greinargerðar og hönnunarleiðbeininga.

 

Deiliskipulagið styður við markmið um þétta og mannvæna borgarbyggð, eins og lýst er í aðalskipulagi, sem er til þess fallin að stuðla að góðu mannlífi og sambúð ólíkra hópa.

Teikning af Hlemmi um vetur.

Upplýsingar

Áhersla er lögð á góða upplýsingamiðlun á framkvæmdatímanum.

  • Umhverfis- og skipulagssvið, Borgartún 12-14, 105 Reykjavík, sími 411 1111
  • Veitur ohf, Bæjarháls 1, 110 Reykjavík, sími 516 6000