Tónninn sleginn fyrir leikhöll á Hlemmi

Myndin gefur hugmynd um hvernig Hlemmur mun líta út eftir framkvæmdirnar. Mynd/Mandaworks
Teiknuð mynd frá Hlemmi með fólki og byggingum.

Hlemmur er smám saman að breytast, umhverfið þar er að verða gönguvænna og meira aðlaðandi og stærra svæði en áður er tekið frá fyrir margvíslegt mannlíf. Nú hefur yngstu kynslóðinni verið boðið til leiks á Hlemmi með tímabundnum leikvelli, sem gefur tóninn fyrir það sem koma skal með væntanlegri leikhöll. Meðfylgjandi er ný tölvugerð mynd af leikhöllinni auk mynda af svæðinu eins og það lítur út nú.

Þar geta yngstu börnin notið sín á leikvelli sem stendur á svokölluðu biðsvæði, þar sem lagnavinnu er lokið en framkvæmd yfirborðs ekki hafin. Ástæðan fyrir því að ákveðið var að leggja áherslu á börn á þessu svæði er sú að í næsta áfanga framkvæmda á torginu mun rísa þar svokölluð leikhöll, sem verður fyrir börn á öllum aldri og verður hún kynnt nánar síðar.

Fleiri ástæður til að staldra við

Með því að hafa tímabundinn leikvöll á Hlemmi fer fram ákveðin staðarsköpun sem í borgarhönnunarfræðum kallast á ensku „place-making“ og vísar til þess hvernig fólk getur í sameiningu skapað almennarými sem ný og mikilvæg samfélagsrými með því að leggja leið sína þangað og notfæra sér þessi svæði. Að framkvæmdum loknum verður Hlemmur eitthvert stærsta torgið í borginni og fær nýtt hlutverk samhliða því. 

Í sumar leika börn sér þar sem áður var gata og einnig hafa verið sett upp ný tímabundin setsvæði fyrir fólk. Fötin skapa manninn hefur stundum verið sagt en þau fá auðvitað ekki að njóta sín án manneskjunnar. Á sama hátt er það Reykjavíkurborg sem stillir upp rammanum, bekkjum, leiksvæðum, gróðri og list svo það sé mögulegt að leyfa fólki að njóta sín í nýjum borgarbúningi.

Áður hefur mathöll með öllu sínu mannlífi, ilmandi matarlykt og samveru, fundið sér stað í húsinu sem hýsti skiptistöð Strætó. Fólk hefur lengi átt leið um Hlemm en nú hefur það fengið fleiri góðar ástæður til að staldra þar við og njóta umhverfisins. 

Verið velkomin á Hlemm í sumar!