Heimastuðningur

Heimastuðningur mætir fólki á þeim stað sem það er í lífinu og fer fram á heimili þess, í gegnum rafrænar lausnir eða þar sem best hentar. Þjónustan felur í sér stuðning við að sinna daglegum verkefnum og heimilishaldi auk þess sem samskipti, samvera og hvatning er í fyrirrúmi.
Á ég rétt á heimastuðningi?
Þú getur átt rétt á heimastuðningi ef þú þarft aðstoð vegna skertrar getu, álags, veikinda eða fjölskylduaðstæðna. Þjónustan er fyrir fólk sem á lögheimili í Reykjavík, er eldra en 18 ára og býr sjálfstætt.
Heimastuðningur var áður kallaður félagsleg heimaþjónusta og er veittur á grundvelli reglna Reykjavíkurborgar um stuðningsþjónustu.
Hvernig sæki ég um heimastuðning?
Þú sækir um heimastuðning á rafrænan hátt á Mínum síðum.
Einnig er hægt að fylla út umsókn á PDF-formi og senda á heima@reykjavik.is eða skila á miðstöð í þínu hverfi.
Ef þörf er á frekari gögnum, til dæmis læknisvottorði, verður haft samband við þig. Starfsfólk heilbrigðisþjónustu getur einnig sent inn beiðni, í samráði við þig, um heimastuðning telji það þörf á því.
Hvað gerist næst?
Þegar undirrituð umsókn liggur fyrir er næsta skref mat á stuðningsþörf. Matið fer fram á heimili umsækjanda, er unnið í náinni samvinnu við hann og tekur mið af félagslegri stöðu, aðstæðum og færni.
Við mat er litið til heildaraðstæðna fólks. Ef matið leiðir í ljós að ekki er þörf á stuðningi eða að skilyrði eru ekki uppfyllt er umsókn synjað. Ef umsókn er samþykkt er gerð stuðningsáætlun í samráði við notanda. Í henni koma fram markmið stuðningsins, umfang hans og helstu verkefni.
Ef umsókn er synjað og þú telur sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir því að veita skuli þér undanþágu frá reglum getur þú sent inn beiðni um áfrýjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs.
Hvað kostar þjónustan?
Greiða þarf fyrir þrif kr. 1.470 fyrir hverja klukkustund, þó aldrei meira en 6 klukkustundir á mánuði. Fólk sem einungis hefur tekjur samkvæmt framfærsluviðmiði Tryggingastofnunar ríkisins eða þar undir þurfa ekki að greiða fyrir heimastuðning.
Þegar heimastuðningur fer fram utan heimilis þarf notandi sjálfur að greiða kostnað sem hlýst af því.
Endurhæfing í heimahúsi
Fólk getur þurft aðstoð við að endurheimta og viðhalda virkni, heilsu og lífsgæðum. Með endurhæfingu í heimahúsi fær fólk þjálfun og ráðgjöf sem henta þörfum þeirra. Endurhæfingin fer að miklu leyti fram heima hjá notendum eða í nærumhverfi þeirra.

Velferðartækni
Reykjavíkurborg leggur áherslu á að prófa og innleiða velferðartækni í þjónustu við íbúa borgarinnar með það að markmiði að auðvelda fólki að búa lengur á eigin heimili við betri lífsgæði, þrátt fyrir öldrun, fötlun eða veikindi.

Þróunarverkefni vegna heilabilunar
Fólk með heilabilunarsjúkdóma og fjölskyldur þeirra þurfa oftar en ekki á auknum stuðningi að halda til að mæta ýmsum áskorunum í daglegu lífi. Þróunarverkefni um félagslegan stuðning vegna heilabilunar er ætlað að létta álagi af heimilum fólks með heilabilunarsjúkdóm og bæta lífsgæði þess og aðstandenda.

Heimahjúkrun
Heimahjúkrun er fyrir fólk á öllum aldri sem býr heima hjá sér og þarfnast reglulegrar heilbrigðisþjónustu. Hún felur í sér heimsóknir hjúkrunarfræðinga eða sjúkraliða og er veitt í náinni samvinnu við notendur og aðstandendur.

Hvar fæ ég frekari upplýsingar?
Starfsfólk miðstöðva veitir upplýsingar um heimastuðning:
- Íbúar Laugardals og Háaleitis fá heimastuðning frá Norðurmiðstöð. Deildarstjóri er Ragna Lilja Garðarsdóttir, sími 411 1590.
- Íbúar í Breiðholti, Árbæ, Grafarholti og Grafarvogi fá heimastuðning frá Austurmiðstöð. Deildarstjóri er Ragnheiður Þórisdóttir, sími 411 9600.
- Íbúar í Hlíðum, Miðbæ, Vesturbæ og Seltjarnarnesi fá heimastuðning frá Vesturmiðstöð. Deildarstjóri er Ása Kolbrún Hauksdóttir, sími 411 9650.
Sjá nánar um heimastuðning í reglum um stuðningsþjónustu