Spurt og svarað um starfsleyfi hjá matvælaeftirliti

Teikning af kjötsúpu.

Hér getur þú fundið algengar spurningar og svör um starfsleyfi.

Listi spurninga

Í hve langan tíma gilda starfsleyfin?

Gildistími starfsleyfa fyrir starfsemi sem er starfsleyfisskyld eingöngu samkvæmt matvælalöggjöfinni er ótímabundinn en önnur starfsleyfi eru gefin út til 12 ára. 

Árlega gerir Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur eftirlitsáætlun og stefnir matvælaeftirlitið á að fara í eftirlit í eftirlitsskyld fyrirtæki að minnsta kosti einu sinni á ári og er ástand þeirra þá metið. Starfsleyfi og/eða rekstrarleyfi fyrirtækja eru alltaf til endurskoðunar.

Hvernig er sótt um starfsleyfi?

Sækja skal um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur áður en starfsemi hefst. Eitt af skilyrðum fyrir útgáfu starfsleyfis er að starfsemin sé í samræmi við skipulag og að húsnæðið sé samþykkt af byggingafulltrúa fyrir viðkomandi starfsemi.

Heilbrigðiseftirlitið setur innkomnar umsóknir í vinnslu samkvæmt verkferli. Umsóknin er lögð fyrir afgreiðslufund til samþykktar. Að fundi loknum er umsækjanda tilkynnt um afgreiðslu málsins og reikningur sendur í heimabanka sé umsókn samþykkt. Afgreiðslufundir eru að jafnaði haldnir vikulega á þriðjudögum.

Hvernig fæ ég leyfi fyrir götu- og torgsölu?

Þegar sótt er um starfsleyfi fyrir matsöluvagni, sölubás eða matvælamarkaði á borgarlandi þarf umsækjandi jafnframt að hafa leyfi til götu- og torgsölu.