Hvernig fæ ég útgefið götu- og torgsöluleyfi?
Afgreiðslutími
Viðmið um afgreiðslutíma í tilfelli markaðssölu einstaklinga er 1 vika en afgreiðslutími getur verið allt að 2 mánuðir í tilfelli dag- og nætursölu, hverfasölu og sumarsölu.
Gjaldskrá
Leyfisgjald ákvarðast af gjaldskrá sem er endurskoðuð árlega.
Umsækjanda er send krafa um leigugjald í heimabanka.
Skylt er að greiða leyfisgjald vegna markaðssölu einstaklinga fyrir undirritun samnings. Leyfisgjald fyrir dag- og nætursölu skal greiða innan 30 daga frá útgáfu leyfis. Berist greiðsla ekki innan þess tíma verður sölusvæði úthlutað að nýju.
Skilyrði leyfis
Helstu skilyrði götu- og torgsöluleyfis eru eftirfarandi:
- Tryggja skal öryggi og aðgengi vegfarenda og skal óhindruð gangstéttarbreidd skal vera minnst 1,5 m.
- Tryggja skal óheft aðgengi viðbragðsaðila.
- Sölusvæði skal haldið og skilað snyrtilegu.
- Úrgangur skal flokkaður og fargað á endurvinnslustöð.
- Ekki er heimilt að framselja eða framleigja götu- og torgsöluleyfi.
- Leyfishafa er óheimilt að stunda götu- og torgsölu annars staðar en leyfið kveður á um. Leyfisskírteini skal vera sýnilegt í söluaðstöðu.
- Fjarlægja skal söluaðstöðu af sölusvæði eftir lokun.
- Fjarlægð frá inngangi næsta rekstraraðila með sambærilega vöru skal vera að lágmarki 20 m í miðborgarkjarna en 50 m innan hverfasvæða.
- Gæta skal að því að starfsemi sé í sátt við nærumhverfið og reglum varðandi hávaða- og ljósmengun fylgt.
- Afla skal annarra tilskilinna leyfa, s.s. starfsleyfis heilbrigðiseftirlits vegna sölu matvæla.
- Leyfishafi skal annast snjómokstur og hálkuvarnir í nánasta umhverfi sölusvæðis.
- Leyfishafi skal skila borgarlandi í því ástandi sem hann tók við því. Verði skemmdir á borgarlandi verða þær lagfærðar af Reykjavíkurborg á kostnað leyfishafa.
Sé skilyrðum leyfis ekki fylgt geta borgaryfirvöld að undangenginni viðvörun látið fjarlægja söluaðstöðu og hreinsað svæðið á kostnað leyfishafa og fellt leyfið úr gildi.
Fyrirspurnir og ábendingar sendist á netfangið torgsala@reykjavik.is