Leyfisveitingar Matvælaeftirlits
Matvælaeftirlitið gefur út starfsleyfi til fyrirtækja sem framleiða eða dreifa matvælum samkvæmt lögum um matvæli, hollustuhætti og mengunarvarnir.
Áður en sótt er um
Rekstraraðila ber að sækja um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur áður en starfsemi hefst.
Hvernig er ferlið?
Þegar rekstraraðili hefur sent inn umsókn tekur heilbrigðisfulltrúi hana til meðferðar. Jákvæð umsögn frá byggingafulltrúa fyrir húsnæði og notkun þarf að liggja fyrir áður en heilbrigðisfulltrúi getur afgreitt umsóknina. Þegar jákvæð umsögn liggur fyrir er farið í eftirlit í starfsstöð umsækjanda þar sem farið er yfir starfsemi, matvælaöryggiskerfi (innra eftirlit), upplýsingagjöf um matvæli, húsnæði, búnað o.fl. Uppfylli rekstraraðili skilyrði er umsóknin tekin til afgreiðslu, að öðrum kosti er umsækjanda leiðbeint um það sem upp á vantar.
Umsóknin er lögð fyrir afgreiðslufund heilbrigðiseftirlitsins til samþykktar. Afgreiðslufundir eru vikulega á fimmtudögum.
Hvernig fæ ég útgefið starfsleyfi?
Heilbrigðiseftirlitið sendir tilkynningu um samþykkt leyfisins ásamt reikningi fyrir leyfið. Starfsleyfi tekur gildi þegar reikningur fyrir leyfið hefur verið greiddur og er þá leyfisbréfið sent til leyfishafa. Óheimilt er að hefja starfsleyfisskylda starfsemi fyrr en leyfi hefur tekið gildi.
Afnotaleyfi fyrir götu- og torgsölu
Þegar sótt er um leyfi fyrir matsöluvagni, sölubás eða matvælamarkaði þarf umsækjandi að hafa afnotaleyfi fyrir götu- og torgsölu frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur.
Gististaðir
Gististaðir eru staðir þar sem boðin er gisting að hámarki í 30 daga samfleytt í senn gegn endurgjaldi, svo sem á hótelum, gistiheimilum, gistiskálum, íbúðum og sumarhúsum, með eða án veitinga.
Kjötvinnslur, mjólkurbú og fiskvinnslur
Almennt eru kjötvinnslur, mjólkurbú og fiskvinnslur undir matvælaeftirliti Matvælastofnunar. Öllum fyrirspurnum um þessi fyrirtæki skal beint til Matvælastofnunar.
Tilkynningarskyld fyrirtæki
Tilkynningarskyld matvælafyrirtæki hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur eru framleiðendur matjurta, þ.e. fyrirtæki sem eingöngu rækta afurðir sínar (svokallaðir frumframleiðendur) en pökkun og önnur vinnsla afurðanna fer fram á öðrum stað sem hefur starfsleyfi heilbrigðisnefndar til þeirrar starfsemi. Frumframleiðsla nær einnig til nýtingar villigróðurs.
Framleiðendur og/eða innflytjendur efna og hluta í snertingu við matvæli skulu tilkynna Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur um starfsemi sína. Efni og hlutir eru allar umbúðir, ílát, áhöld, tækjabúnaður, borðbúnaður og öll efni sem slíkir hlutir eru samsettir úr og geta komist í snertingu við matvæli. Ef framleiðendur og/eða innflytjendur efna og hluta í snertingu við matvæli dreifa matvælum eru fyrirtækin starfsleyfisskyld.
Nánari upplýsingar um efni og hluti í snertingu við matvæli er að finna á vefsíðu Matvælastofnunar. Þar má einnig finna lög og reglur um þennan málaflokk.
Eyðublað til að tilkynna Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur um starfsemi frumframleiðenda og fyrirtækja sem eingöngu eru með efni og hluti í snertingu við matvæli er í vinnslu.
Greiða þarf fyrir tilkynningu og eftirlit heilbrigðisfulltrúa samkvæmt gildandi gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur
Hægt er að senda fyrirspurnir, ábendingar og kvartanir í gegnum form á Mínum síðum.
- Netfang: heilbrigðiseftirlit@reykjavik.is
- Borgartún 12, 105 Reykjavík
- Sími 411 1111