Grasagarður Reykjavíkur

Viðburðir

Dagskrá

Dagskrá í júlí og ágúst 2024

Þriðjudagur 30. júlí kl. 20

Jón lærði og náttúrur grasa

Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur hjá Náttúruminjasafni Íslands leiðir göngu um Grasagarðinn um plöntur sem Jón lærði Guðmundsson (1574-1658) fjallaði um í ritum sínum um grasanáttúrur og lækningar. Gangan er samstarfsverkefni Grasagarðsins og Náttúruminjasafns Íslands. 

----

Hádegisgöngur í júlí á föstudögum kl. 12-12:30

Hádegisgöngur á ensku á föstudögum  í júlí kl. 12:40-13:10

----

Miðvikudagur 14. ágúst kl. 20

Lífið í jarðveginum 

Grasagarðurinn og Land og skógur bjóða í fræðslugöngu. Í göngunni verða jarðvegurinn og vistkerfi hans í brennidepli. Sérstök áhersla verður lögð á ólíka lífveruhópa í jarðvegi og hvernig þeir bæta hann. 

 

Sunnudagur 18. ágúst kl. 13

Blómvendir beint úr beði á Árbæjarsafni

Blómdís og Jóndís blómahönnuðir (Valgerður Jóndís Guðjónsdóttir og Bryndís Eir Þorsteinsdóttir) kenna gestum hönnun og samsetningu blómvanda úr sumarblómum sem hafa verið ræktuð á Árbæjarsafni í sumar. Gestum býðst að koma við á Árbæjarsafni hvenær sem er á milli kl. 13-16 þennan dag og spreyta sig á blómvandagerð. Viðburðurinn er samstarfsverkefni Grasagarðs Reykjavíkur og Borgarsögusafns. 

Hádegisgöngur í ágúst á föstudögum kl. 12-12:30

Hádegisgöngur á ensku á föstudögum  í ágúst kl. 12:40-13:10

Fræðsludagskrá 2024 og sýningar

Viðburðir í Grasagarðinum

-----------

Loftslagslabbið

Vissir þú að elsta plantan í Grasagarðinum hefur bundið kolefni sem nemur kolefnisbruna meðalfólksbíls í 3 mánuði og 24 daga?

Loftslagslabbið er sýning/gönguferð um Grasagarðinn þar sem fjallað er um loftslagsmál út frá safngripum garðsins (plöntunum) og búsvæðum og hlutverki þeirra í að minnka loftslagsvána.

Sýningin er styrkt af Loftslagssjóði og stendur til 30. september 2024.

Landkönnuðurinn

Fjölskyldugönguferðin Landkönnuðinn hér í Grasagarðinum, er í samstarfi við sænska sendiráðið á Íslandi. Við fetum í fótspor grasafræðingsins Daníels Solander sem fæddist í Svíþjóð árið 1733. Daníel elskaði plöntur og lærði um þær hjá frægasta grasafræðingi allra tíma, Carli Linnaeusi.

Daníel fannst svo skemmtilegt að skoða plöntur að hann fór í langt ferðalag á seglskipi í kringum hnöttinn, frá Evrópu til Suður-Ameríku, Eyjaálfu og Afríku. Daníel hefur lent í allskonar ævintýrum og hann fór einnig í ferð til Íslands. Það eru 250 ár síðan að Daníel kom hingað og safnaði allskonar íslenskum plöntum.

Nú getið þið prófað að vera landkönnuður eins og Daníel. Kort af gönguleiðinni má finna við inngang Café Flóru. Fylgdu kortinu og skoðaðu skiltin á hverjum stað. Landkönnuðurinn verður til 30. september 2023.

Farandsýning um villtar erfðalindir ræktaðra nytjaplantna

Sumrin 2022 og 2023 mun farandsýning um villtar erfðalindir ræktaðra nytjaplantna fara um landið með styrk frá Safnaráði Íslands. Sýningin er afrakstur samstarfs við Norræna genabankann (NordGen) og aðrar norrænar stofnanir. Sýningin er á bæði íslensku og ensku og mun vera í Grasagarðinum til 6. júní 2022. Síðan fer sýningin í Glaumbæ, svo í Lystigarðinn á Akureyri og að lokum í Ásbyrgi.

Villtar erfðalindir ræktaðra nytjaplantna eru tegundir plantna sem eru formæður nytjaplantna eða skyldar tegundir. Ólíkt nytjaplöntunum þá þurfa þessar villtu tegundir að lifa af við ólíkar aðstæður án aðkomu og viðhalds mannanna; þær vaxa því villtar í náttúrunni. Með áframhaldandi loftslagsbreytingum breytast skilyrði landbúnaðar. Til að mæta þessum breytingum mun verða þörf á nýjum eiginleikum hjá ræktuðum nytjaplöntum og þá þarf að vera hægt að leita í erfðafjölbreytni villtra plantna. Kynbótafræðingar dagsins í dag og framtíðarinnar geta leitað til þessara villtu stofna í leit að eiginleikum sem munu nýtast til að rækta fram ný yrki nytjaplantna.

Á Íslandi er fjölbreytileiki fóðurgrasa og berjategunda einkar mikill og má hér finna ættingja hveitis ásamt vallarfoxgrasi, bláberjum, jarðarberjum og kúmeni.

Langar hópinn þinn að fá leiðsögn um Grasagarðinn?

Tekið er á móti skóla-, vinnustaða- og félagahópum allan ársins hring eftir samkomulagi.

 

Bókanir og nánari upplýsingar má fá í síma 411-8650 virka daga kl. 9-15 eða með því að senda tölvupóst.

 

Leikskólar og grunnskólar geta bókað eftirfarandi fræðslubakpoka til notkunar á staðnum:

 

  • Plöntubakpoka
  • Fuglaskoðunarbakpoka
  • Lífveruleitarbakpoka
  • Smádýrabakpoka (15. maí - 15. september)

""

Grasagarðurinn er lifandi safn undir berum himni

Grasagarðurinn var stofnaður árið 1961 og er rekinn af Reykjavíkurborg. Hlutverk garðsins er að varðveita og skrá plöntur til fræðslu, rannsókna og yndisauka. 

 

Grasagarðurinn stendur fyrir fjölbreyttri fræðslu fyrir almenning og skólahópa. Markmið fræðslunnar er að nýta hin margvíslegu plöntusöfn til fræðslu um umhverfið, garðyrkju, grasafræði, dýralíf, garðmenningu og grasnytjar sem og til eflingar útiveru og lýðheilsu.

Hópur fólks að skoða blóm í Grasagarðinum

Kaffi Flóra

Kaffi Flóra býður upp á ljúffengar veitingar með áherslu á hráefni úr eigin ræktun. Kaffihúsið sem er í garðskála Grasagarðsins er opið yfir sumartímann en lokað á veturna.