Dagskrá

Dagskrá í mars og apríl 2024

Laugardagur 6. apríl kl. 11

Fræðsluganga: Flétturnar í garðinum

Hvað er flétta eiginlega?
Við sjáum fléttur í umhverfinu alla daga en flestir vita þó lítið um þessar áhugaverðu lífverur.
Fléttur eru dæmi um velheppnaðan lífsmáta sveppa. Fléttur eru myndaðar af sveppi, oftast asksveppi, sem nýtir sér framleiðslu annaðhvort grænþörungs eða blábakteríu, nema hvorutveggja sé, til lífsviðurværis. Fléttur er að finna á margskonar undirlagi og eru dæmi um velheppnað sambýli sem gerir sumum tegundum þeirra kleift að vaxa við erfiðar aðstæður bæði hátt til fjalla sem og nyrst og syðst á jörðinni. Í göngunni verða gaumgæfðar nokkrar þeirra fléttutegunda sem iðulega má sjá á trjám í görðum hérlendis og tilurð þeirra og dreifingarhæfni íhuguð.
Starri Heiðmarsson grasafræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra leiðir gönguna sem hefst við aðalinngang Grasagarðs Reykjavíkur kl. 11 laugardaginn 6. apríl. Gangan er samstarfsverkefni Grasagarðsins og Náttúrustofu Norðurlands vestra
Þátttaka er ókeypis og öll velkomin.
 
------------------

Laugardagur 23. mars kl. 14

Sýningaropnun: Hugsandi haugur / Conscious compound 

Sýningin er samstarf meistaranema í myndlist við Listaháskóla Íslands og í listfræði við Háskóla Íslands. Ellefu myndlistarmenn sýna verk sem þeir hafa unnið sérstaklega fyrir samhengi Grasagarðsins og gefa færi á að upplifa samtímamyndlist í lifandi umhverfi. 

Tekist er á við hugmyndina um lifandi safn og spurt hversu meðvitaður hugsandi haugur sé.  Hugsandi haugur vísar til myndlistarmannanna sem hóps af þenkjandi verum sem bregðast við manngerðum garðinum hvert á sinn hátt og ekki síður við garðinum og kerfa innan hans sem gætu haft meiri meðvitund en við manneskjur höfum hingað til gert ráð fyrir.

Sýningin stendur til 2. apríl

---------------

7. mars 2024 - 14. mars 2024

Eggert Pétursson: Garðablóm

Garðskáli Grasagarðs Reykjavíkur

Vikulöng sýning í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur
Eggert Pétursson: Garðablóm
Á sýningunni Garðablóm dregur Eggert fram æskuminningar frá uppeldisárunum í Skipasundi, snemma á sjöunda áratugnum. Eggert, sem vinnur málverk sín út frá minni, rifjar upp liðna tíma úr nærumhverfi Grasagarðs Reykjavíkur þegar steinbeð úr fjörugrjóti eða hraunhellum voru móðins og blómaskeið íslenska einbýlishússins hafði náð hápunkti.
Málverkin á sýningunni hafa þá sérstöðu að vera þau einu sem Eggert hefur málað af skipulögðum görðum. Í einu verkinu er ferhyrnt beð, sem enn er staðsett rétt fyrir utan Garðskálann, þar sem sérhvert blóm er í skipulega afmörkuðum reit. Í beðinu má greina kornasteinbrjót, sjaldgæft blóm sem Eggert fann á túni við Vatnagarða þegar hann var ungur strákur og flutti sjálfur í Grasagarðinn. Hin tvö verkin vísa til hinna fjölmörgu steinbeða hverfisins þar sem íslenskar og erlendar blómategundir voru vandlega gróðursettar á milli steinanna, allt frá hefðbundnum garðablómum eins og stjúpu til steinbrjóts og melasólar.
 
Sýningin er nú þegar opin, en opnunartímar eru:
 
fimmtudagur 7. mars 10-15
föstudagur 8. mars 10-18
laugardagur 9. mars 10-18
sunnudagur 10. mars 10-18
mánudagur 11. mars 10-15
þriðjudagur 12. mars 10-15
miðvikudagur 13. mars 10-15
fimmtudagur 14. mars 10-15
------------------
Eggert Pétursson (f. 1956) er meðal þekktustu listamönnum þjóðarinnar. Með áratuga langri hollustu sinni við flóru Íslands hefur hann þróað undraverða tækni við að fanga hina hverfandi og síbreytilegu orku plönturíkisins. Eggert nam við Myndlista- og handíðaskólann og Jan van Eyck Academie í Maastricht í Hollandi. Hann hefur sýnt í Nýlistasafninu í Reykjavík, Listasafni Reykjavíkur – Kjarvalsstöðum, Gerðarsafni í Kópavogi og í Hafnarborg í Hafnarfirði. Árið 2006 hlaut Eggert annað sæti Carnegie Art Award og 2016 var stór yfirlitssýning á verkum hans í Listasafninu í Pori í Finnlandi sem spannaði feril hans allan frá barnæsku.

 

Dagskrá 2023

Þú getur skoðað hvaða viðburðir eru í Grasagarðinum árið 2023 í þessu skjali:

Sýningar

Loftslagslabbið

Vissir þú að elsta plantan í Grasagarðinum hefur bundið kolefni sem nemur kolefnisbruna meðalfólksbíls í 3 mánuði og 24 daga?

Loftslagslabbið er sýning/gönguferð um Grasagarðinn þar sem fjallað er um loftslagsmál út frá safngripum garðsins (plöntunum) og búsvæðum og hlutverki þeirra í að minnka loftslagsvána.

Sýningin er styrkt af Loftslagssjóði og stendur til 30. september 2023.

Landkönnuðurinn

Fjölskyldugönguferðin Landkönnuðinn hér í Grasagarðinum, er í samstarfi við sænska sendiráðið á Íslandi. Við fetum í fótspor grasafræðingsins Daníels Solander sem fæddist í Svíþjóð árið 1733. Daníel elskaði plöntur og lærði um þær hjá frægasta grasafræðingi allra tíma, Carli Linnaeusi.

Daníel fannst svo skemmtilegt að skoða plöntur að hann fór í langt ferðalag á seglskipi í kringum hnöttinn, frá Evrópu til Suður-Ameríku, Eyjaálfu og Afríku. Daníel hefur lent í allskonar ævintýrum og hann fór einnig í ferð til Íslands. Það eru 250 ár síðan að Daníel kom hingað og safnaði allskonar íslenskum plöntum.

Nú getið þið prófað að vera landkönnuður eins og Daníel. Kort af gönguleiðinni má finna við inngang Café Flóru. Fylgdu kortinu og skoðaðu skiltin á hverjum stað. Landkönnuðurinn verður til 30. september 2023.

Farandsýning um villtar erfðalindir ræktaðra nytjaplantna

Sumrin 2022 og 2023 mun farandsýning um villtar erfðalindir ræktaðra nytjaplantna fara um landið með styrk frá Safnaráði Íslands. Sýningin er afrakstur samstarfs við Norræna genabankann (NordGen) og aðrar norrænar stofnanir. Sýningin er á bæði íslensku og ensku og mun vera í Grasagarðinum til 6. júní 2022. Síðan fer sýningin í Glaumbæ, svo í Lystigarðinn á Akureyri og að lokum í Ásbyrgi.

Villtar erfðalindir ræktaðra nytjaplantna eru tegundir plantna sem eru formæður nytjaplantna eða skyldar tegundir. Ólíkt nytjaplöntunum þá þurfa þessar villtu tegundir að lifa af við ólíkar aðstæður án aðkomu og viðhalds mannanna; þær vaxa því villtar í náttúrunni. Með áframhaldandi loftslagsbreytingum breytast skilyrði landbúnaðar. Til að mæta þessum breytingum mun verða þörf á nýjum eiginleikum hjá ræktuðum nytjaplöntum og þá þarf að vera hægt að leita í erfðafjölbreytni villtra plantna. Kynbótafræðingar dagsins í dag og framtíðarinnar geta leitað til þessara villtu stofna í leit að eiginleikum sem munu nýtast til að rækta fram ný yrki nytjaplantna.

Á Íslandi er fjölbreytileiki fóðurgrasa og berjategunda einkar mikill og má hér finna ættingja hveitis ásamt vallarfoxgrasi, bláberjum, jarðarberjum og kúmeni.

Langar hópinn þinn að fá leiðsögn um Grasagarðinn?

Tekið er á móti skóla-, vinnustaða- og félagahópum allan ársins hring eftir samkomulagi.

 

Bókanir og nánari upplýsingar má fá í síma 411-8650 virka daga kl. 9-15 eða með því að senda tölvupóst.

 

Leikskólar og grunnskólar geta bókað eftirfarandi fræðslubakpoka til notkunar á staðnum:

 

  • Plöntubakpoka
  • Fuglaskoðunarbakpoka
  • Lífveruleitarbakpoka
  • Smádýrabakpoka (15. maí - 15. september)

""

Grasagarðurinn er lifandi safn undir berum himni

Grasagarðurinn var stofnaður árið 1961 og er rekinn af Reykjavíkurborg. Hlutverk garðsins er að varðveita og skrá plöntur til fræðslu, rannsókna og yndisauka. 

 

Grasagarðurinn stendur fyrir fjölbreyttri fræðslu fyrir almenning og skólahópa. Markmið fræðslunnar er að nýta hin margvíslegu plöntusöfn til fræðslu um umhverfið, garðyrkju, grasafræði, dýralíf, garðmenningu og grasnytjar sem og til eflingar útiveru og lýðheilsu.

Hópur fólks að skoða blóm í Grasagarðinum

Kaffi Flóra

Kaffi Flóra býður upp á ljúffengar veitingar með áherslu á hráefni úr eigin ræktun. Kaffihúsið sem er í garðskála Grasagarðsins er opið yfir sumartímann en lokað á veturna.