Safndeildir Grasagarðsins

Grasagarðurinn varðveitir stóran hluta af íslensku háplöntuflórunni ásamt fjölbreyttu úrvali erlendra plantna. Heildarfjöldi tegunda, undirtegunda, afbrigða og yrkja í garðinum er um 3000. Plöntunum er komið fyrir í átta safndeildum og gefa hugmynd um fjölbreytni gróðurs í tempraða beltinu nyrðra.

Safndeildir

Flóra Íslands

Árið 1961 voru Reykjavíkurborg gefnar 200 íslenskar jurtir til varðveislu og lögðu þær grunninn að elstu safndeild Grasagarðsins, Flóru Íslands.

Í safndeildinni má finna um 300 af þeim um það bil 485 tegundum af blómplöntum og byrkingum sem telja íslensku flóruna.  Reynt er eftir fremsta megni að líkja eftir náttúrulegum vaxtarsvæðum plantnanna svo sem votlendi og hverasvæði.

Fjölærar jurtir

Erlendar fjölærar jurtir setja mikinn svip á Grasagarðinn, bæði tegundir af villtum uppruna, afbrigði þeirra og ræktuð yrki.

Stórum hluta fjölæringanna er raðað í beð eftir flokkun þeirra í ættkvíslir og ættir. Þannig standa hlið við hlið tegundir sem tilheyra sömu ættkvísl og ættkvíslir sem tilheyra sömu ætt.  Auk þess eru fjölmargir erlendir fjölæringar notaðir sem skrautplöntur, þekjuplöntur og til ífyllingar í garðinum.  Til að mynda er sýnishorni af fjölæringum með gulum blómum raðað upp í sérstakt beð og eins er skrautbeð í vesturenda garðsins með bláum blómum.

Rósir

Þótt nöfn margra óskyldra plantna innihaldi nafn rósarinnar, svo sem lyngrósir og stokkrósir, þá eru það tegundir af ættkvíslinni Rosa sem eru hinar eiginlegu rósir.

Rósir hafa lengi verið tengdar ræktunarsögu mannkyns og elstu heimildir geta rósa í ræktun um 2700 f.Kr.  Allt frá þeim tíma hafa menn verið duglegir að velja fram fallegustu einstaklingana og kynbæta þá svo fram hafa komið yrki sem uppfylla kröfur bæði stilkrósaræktenda og eins garðræktenda.

Sum þessara yrkja þrífast ágætlega á Íslandi og í Grasagarði Reykjavíkur er að finna sýnishorn af algengustu rósayrkjum í ræktun utandyra á Íslandi. Rósayrkin eru flest staðsett í kringum veitingaaðstöðuna fyrir framan garðskálann og lystihúsið.  Grasagarðurinn safnar einnig tegundum rósa og er þeim safnað í beð austan við vatnslistaverkið Fyssu.

Lyngrósir

Lyngrósir hafa verið í Grasagarðinum frá því 1977. Þær blómgast árvisst í maí og skarta lyngrósirnar þá sínu fegursta með stórum, bleikum og klukkulaga blómum.

Skógarbotnsplöntur

Grasagarður Reykjavíkur ræktar fjölmargar plöntur sem eiga uppruna sinn að rekja til skógarsvæða tempraða beltisins nyrðra.

Skógarbotnsplönturnar eiga það sameiginlegt að þrífast best í hálfskugga eða fullum skugga í jarðvegi sem inniheldur hátt hlutfall lífrænna leifa og er örlítið súrari en venjulegur ræktunarjarðvegur. Margar þessara plantna blómstra áður en lauf koma á trén og nýta sér sólargeisla sem ná þá í skógarbotninn.

Undanfarin ár hefur Grasagarðurinn leitast við að safna skógarbotnsplöntum á svæði sem eru undir laufþekju, svo sem svæðið í kringum Laugatungu.

Trjásafn

Í trjásafninu er verið að prófa fjölda trjáa og runna. Í nyrðri hluta safndeildarinnar er trjátegundum plantað saman eftir heimkynnum.

Trjásafnið er stærsta safndeild garðsins en hún er um 3, 6 ha. að stærð. Safndeildin var opnuð árið 1989 og var þá 1,2 ha að stærð en sumarið 2011 bættist við 2,4 ha. svæði. Auk trjásafnsins eru á nokkrum stöðum í Grasagarðinum afmörkuð lítil söfn trjáa og runna, m.a. tegundir af birki, sýrenum, toppum, kvistum og öspum.

Steinhæð

Í steinhæðinni er úrval af erlendum fjölærum háfjallajurtum og smárunnum. Plöntunum er raðað saman eftir upprunalegum heimkynnum þeirra. Þar má finna plöntur frá fjallasvæðum Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku, Asíu og Nýja-Sjálandi.

Nytjajurtagarður

Nytjajurtagarðurinn er yngsta safndeild Grasagarðins en hún var opnuð sumarið 2000. Þar eru ræktaðar matjurtir, lækningajurtir og fóðurjurtir.