Fyrsta skiptið

Unglingar velta oft fyrir sér hvenær fyrsta skiptið verður og hvernig einhver veit hvenær hann/hún/hán er tilbúin/n/ð.

Það er gott að hafa í huga að kynlíf er svo margt og snýst alls ekki bara um typpi í píku. Sumt fólk stundar aldrei þannig tegund af kynlífi en á þó sannarlega sína fyrstu kynlífsreynslu með öðrum, hún er bara öðruvísi. Stundum eru tvær píkur, stundum tvö typpi og stundum langar fólki að gera eitthvað allt annað en að setja typpið inn í píkuna. Fyrsta skiptið getur því verið margt, eins og til dæmis fyrsti sleikurinn,  að kúra saman nakin, fróa annarri manneskju, munnmök eða samfarir.

 

Áður en kemur að fyrstu kynlífsreynslu með öðrum er gott að hugsa:

  • Hef ég hugsað um hvað mig langar að gera og hvað ekki?
  • Finn ég í hjartanu og líkamanum að ég er til í þetta og ég er að gera þetta af því að MIG langar til þess?
  • Treysti ég hinum aðilanum til að koma vel fram við mig og til að bera virðingu fyrir mér og virða mörkin mín?
  • Ber ég virðingu fyrir hinum aðilanum og vil að viðkomandi líði vel?
  • Er samþykki beggja fyrir hendi?
  • Þori ég að tala um það sem ég vil og þarf?
  • Þori ég að spyrja hina manneskjuna hvað hún þarf og vill?
  • Get ég sett öðrum mörk, þori ég að segja nei?
  • Er ég búin/n að ákveða hvaða getnaðar- eða kynsjúkdómavarnir ég vil nota?
  • Hef ég hugsað um hvað ég segi eða geri eftir að kynlífsathöfninni lýkur? (ætla ég að knúsa og kúra? standa upp og fara? spyrja hina manneskjuna hvernig henni líður?) Mundu að kurteisi og virðing er merki um góðan karakter.
  • Veit ég hvert ég get leitað ef eitthvað kemur uppá?

 

Oft er mesta stressið eða spennan tengd samförum, ef t.d. um gagnkynhneigð pör er að ræða. Þá getur verið gott að gefa sér góðan tíma í forleik, að kyssast, strjúka líkama hvors annars og vera viss um að bæði typpi sé orðið hart og að leggöngin séu orðin blaut. Ef leggöngin blotna ekki þá geta samfarir verið erfiðar og óþægilegar. Mikið stress getur haft áhrif á kynfærin og ef þau eru ekki tilbúin þá er gott að kyssast bara aðeins lengur og njóta þess að liggja saman og kúra þar til líkamarnir hafa náð að slaka betur á. Ef illa gengur eða öðrum aðilanum líður ekki vel þá má alltaf stoppa.

Mundu samt að það liggur ekkert á, 75% nemenda í 10. bekk á Íslandi hafa ekki stundað samfarir með öðru fólki. Sum byrja snemma en algengast er að stunda samfarir í fyrsta sinn eftir að komið er í framhaldsskóla. Ef allt er eins og það á að vera þá getið þið svo stundað kynlíf út allt lífið ef þið viljið. Það eru sko margar ömmur og margir afar að stunda frábært kynlíf svo þið sjáið að það er nægur tími.