Svona getur þú haft áhrif! Íbúalýðræði í Reykjavík

Stjórnsýsla

Mynd: Rán Flygenring og Hverfisskipulag Reykjavíkurborgar
Yfirlitsteikning af Reykjavík

Reykvíkingar hafa margar leiðir til að hafa áhrif á nærumhverfi sitt og almenna ákvarðanatöku í borginni. Á íbúalýðræðisvef Reykjavíkurborgar má finna þær fjölbreyttu leiðir sem íbúar og stjórnsýsla borgarinnar hafa til að taka ákvarðanir og tala saman. Í dag er borinn inn á öll reykvísk heimili bæklingur sem fjallar um leiðir til lýðræðislegrar þátttöku. Bæklingurinn er á þremur tungumálum og er meðal annars ætlað að ná til þeirra hópa sem síður nýta stafræna miðla.

Þátttaka er borgarsamfélaginu mikilvæg og íbúar geta haft áhrif með ýmsum hætti. Fyrsta lýðræðisstefna Reykjavíkurborgar ásamt aðgerðaáætlun var samþykkt í borgarstjórn fyrir ári síðan. Hornsteinn stefnunnar er öflug lýðræðisleg þátttaka borgarbúa og tækifæri til slíkrar þátttöku enda eru vandaðar upplýsingar og samtal fulltrúa mismunandi sjónarmiða forsenda farsællar ákvarðanatöku um málefni borgarinnar. Á vef Reykjavíkurborgar má finna allt um lýðræðisstefnuna

Ábendingavefurinn er rafræn gátt þar sem koma má á framfæri ábendingum um þjónustu og umhverfi borgarinnar. Hér má koma á framfæri öllu sem fólk telur að borgin þurfi að laga og því sem gæti aukið öryggi eða gert líf fólks í borginni betra. 

Upplýsingaflæði og styttar boðleiðir 

Íbúaráð Reykjavíkurborgar eru starfandi í öllum hverfum borgarinnar og funda einu sinni í mánuði. Þau eru lifandi samstarfsvettvangur íbúa, hagsmunaaðila í hverfunum og borgaryfirvalda sem þjónar þeim tilgangi að auka upplýsingaflæði og stytta boðleiðir milli íbúa og stjórnsýslu borgarinnar. Þá eru starfandi ýmsar samráðsnefndir

Síðast en ekki síst má nefna lýðræðisverkefnið Hverfið mitt, sem fram fer á tveggja ára fresti. Þar gefst fólkinu í borginni kostur á að hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi með því að koma með hugmyndir að nýjum verkefnum sem gera hverfin betri. Hugmyndasöfnun er einmitt á lokametrunum þessa dagana og verður spennandi að sjá hvaða verkefni verða að veruleika að þessu sinni. 

Upplýsingar um lýðræðismál Reykjavíkurborgar má fá með því að senda póst á lydraedi@reykjavik.is.