Á fimm árum hefur hálfum öðrum milljarði króna verið varið í átaksverkefni og til endurbóta á sundlaugunum í Reykjavík. Verkefnin eru af margvíslegum toga, ýmist meiriháttar viðhaldsverkefni, endurbætur eða nýframkvæmdir.
Fjárframlög voru hæst árið 2012 en þá var um 550 milljónum króna varið í verkefnið. Í ár er áætlað að verja 257 milljónum króna til framkvæmda við sundlaugarnar. Á tímabilinu frá 2010 til 2104 hefur um 750 milljónum króna verið varið til Laugardalslaugar, en þar var þörf fyrir viðhald orðið mjög mikið. Nánari sundurliðun fjármuna sem farið hefur til endurnýjunar í sundlaugunum er í meðfylgjandi töflu.
Nýjar laugar á teikniborðinu
Auk mikilla lagfæringa og endurbóta á sundlaugunum eru tvær nýjar laugar á teikniborðinu. Nýju laugarnar eru annars vegar sundlaug í Úlfarsárdal sem hluti af hönnunarsamkeppni um nýjan skóla, menningarmiðstöð og íþróttaaðstöðu fyrir Úlfarsárdal og Grafarholt Sjá frétt: Skóli, menningarmiðstöð, sundlaug og íþróttaaðstaða í Úlfarsárdal. Hins vegar er viðbygging við Sundhöllina í Reykjavík, en niðurstöður hönnunarsamkeppni voru kynntar í nóvember – sjá frétt: Viðbygging og útisundlaug við Sundhöll Reykjavíkur.
Laugardalslaug
Meðal verkefna sem unnin hafa verið í Laugardalslaug má nefna nýjan sjópott, lagfæringar á eldri pottum og flísalagnir, leiktæki í barnalaug, ný rennibraut, endurbyggingu á brú, nýtt eimbað, viðgerðir á stéttum við laugina og lagning á mjúku yfirborðsefni, ferlimál voru tekin í gegn, búningsklefar voru endurnýjaðir, loftræsing var endurnýjuð. Þá var skrifstofurými komið fyrir í gamla anddyri laugarinnar, breytingar gerðar á myndavélakerfi, ljós í lagnagangi endurbætt, varðturn endurnýjaður og gert við útiklefa. Stúkusvæðið var lagfært, komið fyrir hreystivelli. Á barnaskel var flísalögn endurnýjuð og rennibrautarturn var endurgerður. Búnaði vegna klórframleiðslu fyrir útilaug var komið upp. Í ár verður komið fyrir strandblakvelli á svæðinu.
Vesturbæjarlaug
Í Vesturbæjarlaug var nýr pottur tekinn í gagnið fyrr í mánuðinum. Sjá nánar í frétt: Nýr pottur sameinar það besta. Í ár er einnig unnið að endurnýjun búningsaðstöðu og baða innanhúss. Áður hafði verið endurnýjað í útiklefum, sem og flísar í almennum rýmum verið endurnýjaðar og gert við flísar á sundlaugarbakka. Utanhúss var gert við múr og málað, auk þakviðgerða. Stjórntæki fyrir klór og kolsýrukerfi voru endurnýjuð. Hitastýring í barnalaug var endurnýjuð sem og leiktæki.
Sundhöllin
Í Sundhöllinni var burðarvirki gólfs laugakerja lagfært, gert við tröppur og þær málaðar, auk þess sem búnaði til klórframleiðslu var komið upp. Unnið hefur verið að viðgerðum í laugarsal, kjallara, á útisvæði og sturtusvæði. Endurbætur hafa verið gerðar í ferlimálum, en jafnframt má geta þess að ýmis aðgengismál verða leyst í tengslum við viðbyggingu við Sundhöllina en nú stendur yfir hugmyndasamkeppni um hana.
Breiðholtslaug
Í Breiðholtslaug voru vatnslagnir á sturtusvæði endurnýjaðar. Flísalögn var lagfærð auk ýmissa endurbóta í tengslum við líkamsræktarstöð sem komið verður fyrir. Hugað hefur verið að endurbótum í ferlimálum. Eimbað var endurgert sem og leiktæki. Breytingar voru gerðar á myndavélakerfi og klórframleiðslutæki sett upp fyrir útilaug. Þá voru gerðar endurbætur í kjallara fyrir ÍTR.
Árbæjarlaug
Í Ábæjarlaug voru gerðar úrbætur í ferlimálum og stýrikerfi í nuddpotti endurnýjað. Nýr nuddpottur og stýrikerfi var sett upp, sem og eimbað. Úrbætur voru gerðar í ferlimálum og í ár verður komið fyrir strandblakvelli við laugina.
Grafarvogslaug
Eimbað var endurgert í Íþróttamiðstöðinni í Grafarvogi og einnig voru útihurðir aðalinngangs endurnýjaðar og parket slípað. Leiktæki voru endurnýjuð og endurbætur gerðar á gönguleiðum. Viðgerðir utanhúss voru vegna niðurfalla af þaki.
Klébergslaug
Í Klébergslaug var rennibraut endurnýjuð, nýjum potti komið fyrir og eftirlitsmyndavélar settar upp við sundlaug.
Ylströndin í Nauthólsvík
Eimbað var sett upp og leiktækjum fjölgað, auk þess sem skeljasandur var endurnýjaður. Einnig voru hurðarflekar endurbættir.