Nýr pottur sameinar það besta

Umhverfi Framkvæmdir

""

Í gær var tekinn í notkun nýr pottur í Vesturbæjarlaug. „Potturinn sameinar það besta í pottmenningunni í Reykjavík,“ segir Hafliði Halldórsson forstöðumaður Vesturbæjarlaugar.

„Við notuðum það sem hefur reynst vinsælast í sundlaugum borgarinnar,“ segir Hafliði og hann er ánægður með samstarf starfsmanna borgarinnar við hönnun og framkvæmd.

Góðar fyrirmyndir og nýjungar

Í nýja pottinum sameinast margir hlutir. Góðar lausnir frá öðrum pottum í Reykjavík eru notaðar og einnig  eru nýjungar kynntar til sögunnar:

• Öflugir nuddstútar í pottinum byggja á fyrirmynd úr Vesturbæjarlauginni. Tveir stútar dæla 900 lítrum á mínútu og einn tvöfaldur til viðbótar sem skilar 1300 lítrum á mínútu. Viðskiptavinir ræsa dælurnar þegar þeir vilja og ganga þær í eina mínútu í senn.

• Þá eru tólf svokallaðir Jektor stútar sem draga með sér loft. Fyrirmyndin er sótt í nuddpott Breiðholtslaugar.

• Iljanuddið er með sama hætti og í nýjum nuddpotti í Árbæjarlaug.

• Vaðlaugin er að sömu stærð og lögun og fyrirmyndin í Grafarvogslaug.

• Flísalögn pottanna, lögun og form; sambland af ávölum, mósaiklöguðum veggjum og bökkum með hálkuvörðum flísum á gangsvæðum á  sína fyrirmynd í sjópottinum í Laugardalslaug.

• Til nýjunga teljast fjórir nuddstútar fyrir kálfa sem staðsettir eru í 20, 25, 30 og 35 sentimetra hæð frá botni þannig að nú er bara finna sinn stað.

• Til hliðar við nuddsvæði pottarins er hvíldarsvæði fyrir þá sem vija meiri rólegheit.

• Möguleiki er á gosbrunni eða öðru leiktæki í vaðlauginni.

Dælum, hreinsibúnaði og öðrum tækjakosti er komið fyrir í kjallara.

Breytt í takt við óskir viðskiptavina

Hugmyndir að nýja pottinum voru kynntar á stórri veggmynd í afgreiðslu Vesturbæjarlaugar og gestir beðnir um að koma með athugasemdir.  Tillögurnar hlutu góðan hljómgrunn, nema brottnám tveggja af gömlu pottunum. Hafsteinn segir að litli barnapotturinn muni hafa verið einn af fyrstu pottum við sundlaugar Reykjavíkur ef ekki sá fyrsti. Hann var hannaður af Gísla Halldórssyni og er eftirmynd Snorralaugar í Reykholti. Ákveðið var í kjölfar athugasemda frá gestum að halda gömlu pottunum óbreyttum og byggja kjallara sem tæknirými fyrir nýja pottinn. 

Þá var gerð breyting á hönnun skjólveggjar. Þegar gamla girðingin var fjarlægð blöstu við græn tré og annar gróður sem viðskiptavinir Vesturbæjarlaugar urðu hugfangnir af og komu með tillögu um gler kæmi í stað hefðbundins skjólveggjar við enda laugarinnar. Þetta var samþykkt og gerðar viðeigandi ráðstafanir og var meðal annars staðsetningu á geymsluskúr breytt til að bæta útsýni. 

Í breytingum samhliða gerð pottsins hefur laugarsvæði verið stækkað til muna og opnað fyrir sólarljósi.

Framkvæmdir hófust júlíbyrjun 2013. Arkitektar eru Dagný Helgadóttir og Rúnar Gunnarsson hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.  Burðarþol annaðist Verkfræðistofan VSO og Verkfræðistofan Mannvit hannaði lagnir, raflagnir og stýringar. Aðalverktaki vegna  uppsteypu potts, tæknirýmis og lóðar var Rökkvi ehf.  Múrarameistari   potts mosaik og flísalögn var Ari Oddson ehf.  Umsjón og eftirlit var á hendi starfsmanna skrifstofu framkvæmda- og viðhalds hjá Reykjavíkurborg og Verkfræðistofunnar Eflu ehf.  Áætlaður kostnaður er 160 milljónir króna.